Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1246, 125. löggjafarþing 523. mál: orkunýtnikröfur.
Lög nr. 51 17. maí 2000.

Lög um orkunýtnikröfur.


1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna véla, tækja og annars búnaðar, í lögum þessum nefnd vara, með það að markmiði að orka verði notuð á skynsamlegan og hagkvæman hátt.

2. gr.

     Lögin taka til nýrrar vöru sem nýtir orku.
     Lögin taka ekki til farartækja eða notaðrar vöru.

3. gr.

     Iðnaðarráðherra er heimilt með hliðsjón af tilgangi laga þessara að kveða á um í reglugerð hvaða kröfur um orkunýtni tiltekin vara þarf að uppfylla.
     Eingöngu er heimilt að setja á markað vöru sem uppfyllir reglur um orkunýtni, sbr. 1. mgr. Óheimilt er að banna markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni og hefur CE-samræmismerki, enda uppfylli hún skilyrði annarra laga.
     Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að innflutningur eða framleiðsla vöru til eigin nota skuli lúta sams konar reglum og mælt er fyrir um í 1. mgr.

4. gr.

     Iðnaðarráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð hvaða merkingar og upplýsingar skuli fylgja vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni.

5. gr.

     Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru, hér eftir nefndur birgðasali, ber ábyrgð á að vörur hans uppfylli orkunýtnikröfur sem settar hafa verið. Birgðasali ber ábyrgð á að nauðsynlegar mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar fari fram svo að kannað verði hvort búnaður uppfyllir kröfur um orkunýtni sem ákveðnar hafa verið með reglugerð byggðri á 3. gr.
     Óheimilt er að hefja sölu eða leigu á vöru þar til nauðsynlegar mælingar og prófanir hafa farið fram. Birgðasali ber allan kostnað við framangreindar mælingar og prófanir.
     Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um hvaða aðferðir og staðla skal nota við mælingar og prófanir skv. 1. mgr.

6. gr.

     Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Yfireftirlit samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Löggildingarstofu.
     Við framkvæmd eftirlits með lögum þessum skal farið að lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, eftir því sem við á.
     Birgðasalar og seljendur skulu miðla til eftirlitsaðila þeim upplýsingum skv. 5. gr. sem nauðsynlegar eru til framkvæmdar lögum þessum.

7. gr.

     Brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra brota fer að hætti opinberra mála.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2000.