Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1239, 125. löggjafarþing 322. mál: vegalög (reiðvegir, girðingar).
Lög nr. 54 17. maí 2000.

Lög um breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 9. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Reiðvegir eru vegir sem einkum eru ætlaðir umferð ríðandi manna og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Hjólreiða- og göngustígar eru einkum ætlaðir hjólandi og gangandi vegfarendum og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.

2. gr.

     Fyrri málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega, reiðvega og hjólreiða- og göngustíga, enda komi fullar bætur fyrir.

3. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Almennir vegir, einkavegir, reiðvegir og hjólreiða- og göngustígar.

4. gr.

     Í stað orðsins „gangstíga“ í 20. gr. laganna kemur: hjólreiða- og göngustíga.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu, sbr. þó 4. mgr.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
  3.      Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum vegarköflum á þjóðvegum þar sem umferð er 300 bílar á dag eða meira að meðaltali yfir sumarmánuði (SDU), enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Áður en Vegagerðin ákveður að taka við viðhaldi girðinga samkvæmt þessari grein skal hún tilkynna það viðkomandi sveitarfélagi og hlutaðeigandi landeigendum.
  4. 4. mgr. verður 5. mgr. og orðast svo:
  5.      Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru skv. 2. mgr. 37. gr. Þó er heimilt að semja um að veghaldari annist viðhaldið. Viðhaldskostnaður þeirra girðinga greiðist að jöfnu af viðkomandi sveitarfélagi og veghaldara nema sérstaklega sé um annað samið.


6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2000.