Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1339, 125. löggjafarþing 406. mál: veitinga- og gististaðir (nektardansstaðir o.fl.).
Lög nr. 66 20. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 2. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að synja útgáfu leyfis þegar umsækjandi skuldar skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð og samanlögð fjárhæð þessara skulda nemur hærri fjárhæð en 500.000 kr. eða ef umsækjandi hefur á undanförnum fimm árum verið dæmdur til refsivistar fyrir brot á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda eða um tryggingagjald eða þessum lögum og ástæðurnar eiga við:
  1. umsækjanda sem er lögaðili með ótakmarkaðri ábyrgð eða einhvern eigenda hans,
  2. umsækjanda sem er lögaðili með takmarkaðri ábyrgð, meiri hluta eigenda hans, stjórnarmann eða framkvæmdastjóra,
  3. umsækjanda sem er einstaklingur.


2. gr.

     Við 9. gr. laganna bætast fjórir nýir liðir, svohljóðandi:
  1. Kaffihús.
    Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar.
  2. Krá.
    Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar.
  3. Dansstaður.
    Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi sem aðallega hefur opið seint að kvöldi og að næturlagi og aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og dans gesta.
  4. Næturklúbbur.
    Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þeim veitingastöðum sem reka starfsemi sem falla undir nýja flokka skv. 2. gr. laga þessara er skylt að uppfylla skilyrði laganna og afla sér tilskilinna rekstrarleyfa fyrir 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.