Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 604, 126. löggjafarþing 190. mál: skipulags- og byggingarlög (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.).
Lög nr. 170 21. desember 2000.

Lög um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     Skilgreining á nýtingarhlutfalli í 2. gr. laganna orðast svo: Hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.

2. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Kostnaður við rekstur Skipulagsstofnunar greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar.

4. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að beita sérstakri svæðisskipulagsmeðferð vegna mannvirkja og áætlana sem ná til fleiri en eins sveitarfélags, svo sem þjóðvega, orkumannvirkja, fjarskiptalína og áætlana um framkvæmdir eða aðra ráðstöfun lands til nýtingar eða verndar.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
  2.      Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Landeiganda eða framkvæmdaraðila er þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.
  3. Við 1. mgr., sem verður 2. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn getur þó auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Skipulagsstofnun“ í 2. tölul. kemur: Skipulagssjóði.
  2. 3. tölul. orðast svo: Þar sem sveitarstjórn annast reglulega gerð aðalskipulags og endurskoðun þess án sérstaks samnings skal helmingur innheimtra skipulagsgjalda í sveitarfélaginu yfirfærður árlega til sveitarsjóðs úr Skipulagssjóði.
  3. Í stað orðanna „gert sérstakan samning við Skipulagsstofnun og getur hún tekið þátt í kostnaði við gerð eða endurskoðun aðalskipulags sem nemur allt að helmingi kostnaðar“ í 1. málsl. 4. tölul. kemur: fengið greiddan allt að helmingi kostnaðar við gerð eða endurskoðun aðalskipulags úr Skipulagssjóði.
  4. Orðið „Skipulagsstofnunar“ í 2. málsl. 4. tölul. fellur brott.
  5. Við 5. tölul. bætist: sbr. þó 1. mgr. 23. gr.
  6. Í stað orðsins „Skipulagsstofnunar“ í 6. tölul. kemur: Skipulagssjóðs.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Til að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana skal innheimt í ríkissjóð sérstakt gjald af mannvirkjum er nefnist skipulagsgjald. Skipulagsgjald rennur í gegnumstreymissjóð, Skipulagssjóð. Skipulagsstofnun annast vörslu sjóðsins og greiðslur úr honum. Sjóðurinn skal vera óháður fjárhagslegum rekstri stofnunarinnar.
  3. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sýslumaður skal innheimta skipulagsgjald af húsbyggingum í lögsagnarumdæmi sínu og af öðrum gjaldskyldum mannvirkjum, sbr. 3. málsl. 2. mgr., í eigu lögaðila sem hafa lögheimili í umdæminu. Í Reykjavík skal tollstjóri annast innheimtuna. Skipulagsgjald innheimtist samkvæmt fyrirmælum frá Fasteignamati ríkisins.
  4. 4. mgr. fellur brott.


8. gr.

     Á eftir 4. mgr. 37. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum byggingarreglugerðar.

9. gr.

     2. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
     Byggingarvörur á markaði, þ.m.t. byggingarefni, raðframleiddar byggingareiningar og raðframleidd hús, skulu uppfylla ákvæði reglugerða um viðskipti með byggingarvörur.

10. gr.

     Við 7. mgr. 43. gr. laganna bætist: Heimilt er skipulagsnefnd að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd eða breytingu á deiliskipulagi, áður en fjórar vikur eru liðnar.

11. gr.

     Í stað orðsins „byggingarnefnd“ í 2. mgr. 45. gr. laganna kemur: sveitarstjórn.

12. gr.

     3. mgr. 47. gr. laganna orðast svo:
     Hönnuður, einstaklingur eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar sem leggur uppdrætti fyrir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu.

13. gr.

     1. málsl. 3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Arkitektar, byggingarfræðingar, verkfræðingar, tæknifræðingar, innanhússarkitektar, landslagsarkitektar og rafiðnfræðingar er sækja um löggildingu skulu standast próf sem þriggja manna prófnefnd sérfróðra aðila annast.

14. gr.

     Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að ákveða gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta próf. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur kostnaði við framkvæmd prófs.

15. gr.

     Í stað 2. tölul. 2. mgr. 51. gr. laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Arkitektar, byggingarverkfræðingar, byggingartæknifræðingar, byggingarfræðingar og aðrir verkfræðingar og tæknifræðingar með hliðstæða menntun á byggingarsviði.
  2. Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfar aðili sem uppfyllir skilyrði 1. eða 2. tölul., enda annist hann störf byggingarstjóra.


16. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna orðast svo: Iðnmeistarar, sem hafa meistarabréf og hafa lokið prófi frá meistaraskóla eða hafa a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði, geta hlotið slíka löggildingu, enda séu þeir starfandi sem meistarar í iðn sinni.

17. gr.

     2. og 3. málsl. 53. gr. laganna orðast svo: Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjöld fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Gjöld þessi mega ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við útgáfu leyfa, útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té og skulu vera í samræmi við gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.

18. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna orðast svo: Sveitarstjórn getur sett sérstaka gjaldskrá um bílastæðagjöld í sveitarfélaginu sem sveitarfélagið birtir í B-deild Stjórnartíðinda.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
  1. 3. tölul. orðast svo: Sveitarstjórn getur án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt og er unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum. Sveitarstjórn getur einnig án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag auglýst tillögu að deiliskipulagi að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar. Heimilt er að vísa niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi slíkt erindi til úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr.
  2. Í stað orðanna „1. júlí 2001“ í 4. málsl. 10. tölul. kemur: 1. júlí 2002, en sækja skal um að fara á námskeið samkvæmt þessu ákvæði fyrir 1. september 2001.
  3. Við bætast tveir nýir töluliðir sem orðast svo:
    1. Þar sem ekki er fyrir hendi aðalskipulag er heimilt að gera deiliskipulag á grundvelli svæðisskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, ef í svæðisskipulagi er mörkuð stefna um viðkomandi málaflokka.
    2. Á meðan ekki eru til samhæfðir staðlar og/eða tæknisamþykki til þess að ákvæði 2. mgr. 42. gr. verði virk skulu byggingarvörur á markaði hafa vottun eða umsögn um að þær uppfylli kröfur byggingarreglugerðar, standist staðla og falli að verklagi og séríslenskum aðstæðum. Hliðsjón skal höfð af kröfum sem settar eru fram í ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varðandi hlutverk framleiðanda og tilnefnds aðila við staðfestingu á samræmi við kröfur. Ef ekki liggja fyrir samþykktir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðandi einstaka vöruflokka skal höfð hliðsjón af ákvörðunum um hliðstæðar vörur. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Brunamálastofnun eða aðrir þar til bærir aðilar sem umhverfisráðuneytið viðurkennir skulu gegna samsvarandi hlutverki og tilnefndur aðili vegna ákvæða þessarar greinar. Þessir aðilar annast staðfestingu á samræmi og gefa út vottorð eða umsögn þar að lútandi.


20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.