Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 553, 126. löggjafarþing 320. mál: endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (skilyrði endurgreiðslu).
Lög nr. 177 20. desember 2000.

Lög um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Markmið. Gildissvið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi.
     Nú fellur meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi og skal þá endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem til fellur á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Með framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Laun og verktakagreiðslur teljast eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skal send iðnaðarráðuneytinu. Endurgreiðslubeiðni, ásamt fylgigögnum, skal berast áður en framleiðsla hefst hér á landi. Sérstök fjögurra manna nefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Iðnaðarráðherra skipar nefndina og skulu menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og Kvikmyndasjóður Íslands tilnefna sinn mann hver, en sá fjórði skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn.
     Nefndin skal hafa að leiðarljósi að kvikmynd eða sjónvarpsefni stuðli að eflingu innlendrar menningar, eftir atvikum, með skírskotun til sögu lands og náttúru.

4. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
  1. að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri og kynna sögu lands og náttúru,
  2. að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa,
  3. að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
  4. að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og greinargerð umsækjanda um að framleiðslan falli að markmiðum laganna,
  5. að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis, svo sem handrit og upplýsingar um tökustaði,
  6. að framleiðsluáætlun geri ráð fyrir að framleiðslu sé lokið innan þriggja ára frá því að endurgreiðslubeiðni er móttekin,
  7. að fyrir liggi að hið framleidda efni sé ætlað til almennrar dreifingar í kvikmyndahús eða til sjónvarpsstöðva.

     Verði breyting á áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. d-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal iðnaðarráðuneyti send ný kostnaðaráætlun.
     Við mat á umsókn um endurgreiðslu skal nefnd skv. 3. gr. hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um ætlað listrænt gildi viðkomandi framleiðslu.

5. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar skal vera 12% af framleiðslukostnaði skv. 2. gr.
     Iðnaðarráðherra ákvarðar endurgreiðslu að fenginni tillögu nefndar skv. 3. gr. Skilyrði endurgreiðslu er að umsækjandi færi bókhald vegna þess kostnaðar sem hann æskir endurgreiðslu á í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga. Kostnaðaruppgjör skal enn fremur vera staðfest og áritað af löggiltum endurskoðanda.
     Þá er það skilyrði endurgreiðslu að framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis sé lokið og að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga hér á landi vegna framleiðslunnar.

6. gr.

     6. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala í samræmi við það.

7. gr.

     7. gr. laganna, er verður 6. gr., orðast svo:
     Hafi umsækjandi hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis dregst styrkurinn frá þeirri upphæð sem telst innlendur framleiðslukostnaður.
     Samanlagður styrkur úr Kvikmyndasjóði Íslands og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 5. gr. skal ekki fara yfir 50% af heildarframleiðslukostnaði sömu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.

8. gr.

     8. gr. laganna, er verður 7. gr., orðast svo:
     Iðnaðarráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara. Í henni skal m.a. kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, afgreiðslu umsókna og um ákvörðun um endurgreiðslu.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Hinn 31. desember 2006 falla úr gildi lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum. Endurgreiðslubeiðnir sem samþykktar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.