Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1111, 126. löggjafarþing 504. mál: umgengni um nytjastofna sjávar (veiðar umfram aflaheimildir).
Lög nr. 24 7. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.


1. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Fiskistofa skal fylgjast með nýtingu fiskiskipa á aflaheimildum. Bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund skal Fiskistofa tilkynna það útgerð og skipstjóra viðkomandi skips með símskeyti og jafnframt að skipið sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Telji móttakandi tilkynningar að upplýsingar Fiskistofu um afla skips séu rangar og að skipið hafi ekki veitt umfram aflaheimildir skal hann innan þriggja virkra daga koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa getur veitt lengri frest til athugasemda ef ástæða er til að ætla að um ranga skráningu afla eða aflaheimilda sé að ræða. Óheimilt er að stunda veiðar í atvinnuskyni að loknum fresti nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu þar um. Séu aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju.
     Komi til leyfissviptingar í annað sinn á sama fiskveiðiári vegna veiða umfram aflaheimildir skal Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur til viðbótar þeim tíma sem leiðir af leyfissviptingu skv. 1. mgr., í sex vikur gerist það í þriðja sinn og í tólf vikur gerist það oftar. Úthlutun aflaheimilda í upphafi nýs fiskveiðiárs hefur ekki áhrif á lengd leyfissviptingar samkvæmt þessari málsgrein. Um framkvæmdina fer að öðru leyti skv. 1. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. apríl 2001.