Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1106, 126. löggjafarþing 261. mál: samningur um bann við notkun jarðsprengna.
Lög nr. 26 7. maí 2001.

Lög um framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra.


1. gr.

Bann við jarðsprengjum gegn liðsafla.
     Enginn má nota, þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða flytja jarðsprengjur gegn liðsafla þannig að það stríði gegn samningnum um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra frá 18. september 1997.

2. gr.

Innlent eftirlit.
     Ríkislögreglustjóri fer með eftirlit með framkvæmd laga þessara og samningsins.
     Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.

3. gr.

Alþjóðlegt eftirlit.
     Rannsóknarsendinefndum sem starfa á grundvelli samningsins er heimilt að framkvæma hér á landi skoðanir sem kveðið er á um í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með hvort Ísland framfylgir samningsskuldbindingum sínum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og ríkislögreglustjóra skulu vera viðstaddir slíkar skoðanir.
     Þeir sem eru í rannsóknarsendinefnd sem starfar á grundvelli samningsins skulu njóta friðhelgi og forréttinda hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.

4. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra sem í hlut á getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

5. gr.

Refsiákvæði.
     Brot gegn lögum þessum og reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að fjórum árum.
     Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. apríl 2001.