Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1360, 126. löggjafarþing 683. mál: tollalög (vörur frá fátækustu þróunarríkjum).
Lög nr. 85 26. maí 2001.

Lög um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Tollar á vörur sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims skulu falla niður til samræmis við niðurfellingu tolla á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     Þau ríki sem skilgreind eru sem fátækustu þróunarríki heims eru talin upp í viðauka V með lögum þessum.

2. gr.

     Við lögin bætist nýr viðauki sem verður viðauki V og orðast svo:
     Samkvæmt skilgreiningu nefndar um framtak, auðveldun viðskipta og þróunarmál sem starfar á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun teljast eftirtalin 48 ríki fátækustu þróunarríki heims: Afganistan, Angóla, Bangladess, Benín, Burma, Búrkína Fasó, Búrúndí, Bútan, Djíbútí, Erítrea, Eþíópía, Gambía, Gínea, Gínea-Bissá, Grænhöfðaeyjar, Haítí, Jemen, Kambódía, Kíribatí, Kongó, Kómoreyjar, Laos, Lesótó, Líbería, Madagaskar, Malaví, Maldíveyjar, Malí, Máritanía, Mið-Afríkulýðveldið, Miðbaugs-Gínea, Mósambík, Nepal, Níger, Rúanda, Salómonseyjar, Sambía, Samóa, Saó Tóme og Prinsípe, Síerra Leóne, Sómalía, Súdan, Tansanía, Tógó, Tsjad, Túvalú, Úganda og Vanúatú.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 2001.