Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1495, 126. löggjafarþing 345. mál: tóbaksvarnir (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.).
Lög nr. 95 31. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið laga þessara er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
     Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
     Þeir sem bera ábyrgð á barni skulu stuðla að því að það njóti réttar skv. 2. mgr., einnig þar sem reykingar eru ekki bannaðar skv. III. kafla þessara laga.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Með tóbaki er í lögum þessum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn að öllu eða einhverju leyti úr þeim til neyslu, svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.
     Með reykfærum er í lögum þessum átt við áhöld og búnað tengdan tóbaksreykingum, svo sem sígarettupappír, reykjarpípur og tæki til að vefja sígarettur, svo og annan slíkan varning.
     Með munntóbaki er í lögum þessum átt við allar vörur, unnar að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í munn, að undanskildum þeim sem eru ætlaðar til reykinga.
     Með skrotóbaki er í lögum þessum átt við munntóbak í bitum eða ræmum, einkum ætlað til að tyggja.
     Með neftóbaki er í lögum þessum átt við duft eða mylsnu, gerða að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í nef.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi gilda ekki um tóbak sem notað er sem lyf samkvæmt lyfjalögum eða sem eiturefni samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni.

4. gr.

     3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Að efna og hvetja til átaks í tóbaksvörnum og leitast við að samræma tóbaksvarnir í landinu.

5. gr.

     Á eftir 3. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein og orðast svo:
     Sá sem framleiðir, flytur inn eða selur tóbak má ekki án samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gefa með orðum eða táknum sínar eigin upplýsingar á umbúðum vörunnar um heilsufarsleg áhrif af neyslu hennar.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „þar á meðal“ í 1. tölul. 3. mgr. kemur: vörukynningar.
  2. 3. tölul. 3. mgr. orðast svo: hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.
  3. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast þannig:
  4.      Óheimilt er að setja á markað hér á landi tóbak undir vörumerkjum sem eru þekkt sem eða notuð sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu.
         Hvers kyns framlög til viðburða eða starfsemi sem miða að því eða hafa þau beinu eða óbeinu áhrif að kynna tóbak eru bönnuð.
         Tóbaki og vörumerkjum tóbaks skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „neftóbak og munntóbak“ í 5. mgr. kemur: neftóbak og allt munntóbak.
  2. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  3.      Þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak. Heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði getur veitt tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði um aldurstakmark. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur í reglugerð að fenginni umsögn Vinnueftirlits ríkisins nánari ákvæði um undanþágur um aldurstakmark.
         Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveður í reglugerð, að höfðu samráði við tóbaksvarnanefnd og í samræmi við gildandi tilskipanir Evrópusambandsins, hver skuli vera hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk og hvernig háttað skuli mælingum og eftirliti með því að þessi mörk séu virt.
         Til þess að selja tóbak í smásölu þarf sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Skal leyfi veitt til fjögurra ára í senn og verður einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu. Heimilt er sveitarfélögum að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer skv. 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt í samráði við umhverfisráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um leyfisveitingu samkvæmt grein þessari.
         Þeim sem selur tóbak í heildsölu er óheimilt að selja eða afhenda tóbak öðrum en þeim sem hafa leyfi til að selja tóbak í smásölu samkvæmt lögum þessum.


8. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum, en tryggja skal fullnægjandi loftræstingu, sbr. 4. mgr. Meiri hluti veitingarýmis skal þó ávallt vera reyklaus og tryggja skal að aðgangur að því liggi ekki um reykingasvæði.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar í tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum. Í gistiskálum má hvorki leyfa reykingar í herbergjum né svefnskálum.
     Þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt grein þessari skal séð fyrir loftræstingu sem fullnægir kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingarnar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.
     Stjórnendur veitingastaða skulu leitast við að vernda starfsfólk gegn tóbaksreyk.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um reykingar á veitinga- og gististöðum í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra, þar á meðal um flokkun þessara staða með tilliti til reykinga og loftræstingar.
     Tóbaksreykingar eru bannaðar í öllu húsrými í sameign fjöleignarhúsa.
     Ráðherra skal í samráði við menntamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setja reglur um takmarkanir á tóbaksneyslu utan húss á íþróttasvæðum.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „grunnskólum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: vinnuskólum sveitarfélaga.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Í fangelsum. Leyfa má þó reykingar í fangaklefum. Skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum fangaklefum.
  3. Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
  4.      Öll önnur tóbaksneysla er jafnframt bönnuð í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum, hvers konar dagvistum barna og húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa ungmenna. Sama gildir um allar samkomur sem einkum eru ætlaðar ungmennum.


10. gr.

     Í stað orðanna „1. mgr. 17. gr.“ í 11. gr. laganna kemur: 1. mgr. 18. gr.

11. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 2. og 3. mgr. 9. gr., sbr. þó 5. mgr. sömu greinar, skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi sjá til þess að hann njóti þess réttar.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglur í samráði við félagsmálaráðherra og samgönguráðherra um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum, þar á meðal í skipum, í samræmi við 1. mgr. og með tilliti til 1. gr. laga þessara.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „farþegarými almenningsfarartækja“ í 1. mgr. kemur: almenningsfarartækjum.
  2. Á eftir orðunum „milli landa“ í 2. mgr. kemur: án viðkomu á Íslandi.
  3. 3. mgr. fellur brott.


13. gr.

     Inngangsmálsliður 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Menntamálaráðuneytið skal í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og tóbaksvarnanefnd sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla í því skyni að draga úr tóbaksneyslu.

14. gr.

     1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er að verja a.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna.

15. gr.

     Í stað 2. mgr. 17. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar og orðast svo:
     Nú er brotið gegn ákvæðum II. kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.
     Brjóti leyfishafi skv. 8. gr. gegn ákvæðum þeirrar greinar getur heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði að undangenginni áminningu svipt hann leyfinu. Við ítrekað brot ber heilbrigðisnefnd að svipta hann leyfinu og eins ef brot er stórfellt.
     Rísi ágreiningur um ákvarðanir heilbrigðisnefndar er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sem starfar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

16. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Brot gegn ákvæðum 6. og 7. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeim greinum varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.
     Brot gegn ákvæðum 8. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeirri grein varða auk leyfissviptingar skv. 17. gr. sektum.
     Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

17. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2001.
     Ákvæði 9. mgr. 8. gr. laganna um leyfisveitingar á tóbaki í smásölu og eftirlit með henni skal endurskoða innan fimm ára frá því að lög þessi öðlast gildi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, sbr. breytingu á þeim lögum, nr. 101/1996, og gefa þau út svo breytt með samfelldri hefðbundinni greinatölu.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.