Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1491, 126. löggjafarþing 224. mál: safnalög (heildarlög).
Lög nr. 106 31. maí 2001.

Safnalög.


I. KAFLI
Yfirstjórn og skipulag.

1. gr.

     Í lögum þessum er kveðið á um skipulag lista- og minjasafna í þeim tilgangi að varðveita og kynna menningarsögu íslensku þjóðarinnar og náttúrusögu Íslands.

2. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna minja- og listasafna. Til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn.
     Menntamálaráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa auk varamanns og Félag íslenskra safnmanna einn fulltrúa auk varamanns. Auk þeirra eiga sæti í ráðinu forstöðumenn höfuðsafna og skulu þeir tilnefna varamenn í sinn stað. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.

3. gr.

     Safnaráð er samráðsvettvangur starfsemi lista- og minjasafna. Safnaráð hefur eftirlit með söfnum í eigu ríkisins og söfnum sem hljóta ríkisstyrki. Safnaráð úthlutar úr safnasjóði, sbr. 10. gr.

II. KAFLI
Safnastarfsemi.

4. gr.

     Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.

5. gr.

     Höfuðsöfn eru í eigu íslenska ríkisins og eru miðstöð safnastarfsemi hvert á sínu verksviði. Höfuðsöfn skal stofna með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra. Höfuðsöfn eru öðrum söfnum til ráðgjafar og stuðla þau að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.
     Höfuðsöfn kalla eftir safnastefnu þeirra safna sem starfa á þeirra sviði. Á fjögurra ára fresti skulu höfuðsöfn semja sameiginlega stefnuyfirlýsingu fyrir það safnasvið sem þau veita forstöðu og skal stefnuyfirlýsing ásamt verkáætlun kynnt safnaráði.
     Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu. Þjóðminjasafn Íslands annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar og kynningu þeirra, innan lands og utan.
     Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar. Listasafn Íslands annast heimildasöfnun, kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.
     Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Náttúruminjasafn Íslands annast kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda.

6. gr.

     Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja, en þó getur menntamálaráðherra veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því. Gjafir og fjárframlög til safna eru frádráttarbær til skatts, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með áorðnum breytingum.

7. gr.

     Heimilt er að lána gripi eða verk úr söfnum til sýningar, en þó eigi til útlanda nema með samþykki menntamálaráðherra að fenginni umsögn forstöðumanns viðkomandi höfuðsafns og safnaráðs ef um er að ræða gripi sem falla undir ákvæði laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Höfuðsöfnum er heimilt að lána um lengri eða skemmri tíma einstaka gripi eða verk til annarra safna eða opinberra stofnana, en tryggilega skal gengið frá varðveislu þeirra og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður ákveður. Sama regla gildir um söfn sem hljóta styrki á grundvelli laga þessara. Nánari reglur um útlán muna og verka skal setja í reglugerð.

8. gr.

     Ekki má nota myndir af gripum eða verkum höfuðsafna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanns enda sé gætt réttar rétthafa samkvæmt höfundalögum. Sama regla gildir um söfn sem hljóta styrki á grundvelli laga þessara.

9. gr.

     Hvert höfuðsafn hefur sjálfstæða fjárveitingu í fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers höfuðsafns til fimm ára.

III. KAFLI
Safnasjóður o.fl.

10. gr.

     Hlutverk safnasjóðs er að styrkja starfsemi safna sem heyra undir lög þessi. Safnaráð úthlutar úr sjóðnum styrkjum til safna samkvæmt sérstökum úthlutunarreglum sem ráðið setur og menntamálaráðherra staðfestir.
     Tekjur sjóðsins eru:
  1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
  2. önnur framlög.

     Öll söfn sem undir lög þessi falla geta sótt um verkefnastyrki til safnasjóðs. Til þess að geta sótt um rekstrarstyrki þarf safn að uppfylla eftirtalin skilyrði:
  1. Safnið skal hafa sjálfstæðan fjárhag og vera stjórnað af forstöðumanni í a.m.k. hálfu starfi.
  2. Safnið skal starfa eftir stofnskrá sem hlotið hefur staðfestingu safnaráðs og skal starfa eftir stefnu sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti.
  3. Safnið skal rekið óaðfinnanlega að mati safnaráðs og fjárhagsgrundvöllur þess skal vera tryggður.
  4. Safnið skal vera opið almenningi daglega á auglýstum tíma a.m.k. þrjá mánuði á ári.
  5. Safnið skal bjóða upp á safnfræðslu eftir því sem við verður komið.
  6. Safnið skal skrá safngripi eftir viðurkenndu skráningarkerfi.
  7. Safnið skal fylgja viðurkenndum alþjóðlegum siðareglum safna.

     Höfuðsöfn og önnur söfn, sem rekin eru af ríkinu, geta ekki notið styrkja úr safnasjóði.

11. gr.

     Nú vilja stjórnendur safns sem uppfyllir skilyrði laga þessara um rekstrarstyrk, sbr. 10. gr., afla sér húsnæðis fyrir safnið, hvort heldur með kaupum eða nýsmíði, og eiga þeir þá kost á að fá styrk til þess úr ríkissjóði, allt að einum þriðja hluta kostnaðar, eftir því sem fé kann að vera veitt til þess í fjárlögum enda samþykki safnaráð húsnæðið og stofnkostnað. Framlag ríkissjóðs skal innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi og greiðsluáætlun sem stjórnendur safns gera við menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti áður en framkvæmdir hefjast.

12. gr.

     Nú telur safnaráð að safni sem hlýtur ríkisstyrk sé hætta búin sökum vanhirðu eða af öðrum orsökum og ekki hefur fengist úr bætt þrátt fyrir endurteknar áskoranir og getur þá menntamálaráðherra svipt safnið ríkisstyrk.

IV. KAFLI
Almenn ákvæði.

13. gr.

     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið eru numin úr gildi ákvæði II. kafla þ jóðminjalaga, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Söfn sem nú starfa samkvæmt sérstökum lögum skulu laga starfsemi sína að lögum þessum innan tveggja ára frá gildistökudegi þeirra. Á þeim tíma skal lokið við að endurskoða löggjöf um starfsemi þeirra.
     Ákvæði 5. mgr. 5. gr. sem kveður á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns kemur ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við lög þessi. Náttúruminjasöfn eiga eftir sem áður rétt á styrkjum úr safnasjóði á grundvelli 10. gr. með sama hætti og önnur minjasöfn.

II.
     Þar til Náttúruminjasafn Íslands hefur verið sett á stofn, sbr. 5. mgr. 5. gr., skal forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands eiga sæti í safnaráði og tilnefna varamann í sinn stað. Eftir þann tíma tekur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands sæti í safnaráði samkvæmt lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.