Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 581, 127. löggjafarþing 320. mál: gjald af áfengi (tóbaksgjald).
Lög nr. 149 21. desember 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á undan 1. gr. laganna kemur ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: I. KAFLI, Áfengisgjald.

2. gr.

     Í stað 8.–10. gr. laganna koma tveir nýir kaflar, II. KAFLI, Tóbaksgjald, með þremur nýjum greinum, 8.–10. gr., og III. KAFLI, Almenn ákvæði, með tveimur nýjum greinum, 11. og 12. gr., svohljóðandi:
     
     a. (8. gr.)
     Greiða skal til ríkissjóðs sérstakt gjald, tóbaksgjald, af tóbaki sem flutt er hingað til lands eða er framleitt hér á landi.
     Tóbak telst samkvæmt lögum þessum vera sérhver vara sem flokkast í 24. kafla í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
     
     b. (9. gr.)
     Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem verslunin hefur flutt hingað til lands eða framleiddar hafa verið hér á landi og verslunin selur til smásala tóbaks.
     Fjárhæð tóbaksgjalds skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
  1. Vindlingar: 167,20 kr. á hvern pakka (20 stk.).
  2. Neftóbak: 1,97 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
  3. Annað tóbak: 5,98 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.

     Uppgjörstímabil tóbaksgjalds samkvæmt þessari grein er einn mánuður. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er fimmti dagur næsta mánaðar eftir lok þess. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal greiða tollstjóranum í Reykjavík innheimt gjald eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils.
     
     c. (10. gr.)
     Af tóbaki sem ferðamenn, farmenn og aðrir hafa með sér til landsins til einkanota eða er sent hingað til lands án þess að um innflutning í atvinnuskyni sé að ræða skal við toll afgreiðslu greiða tóbaksgjald sem hér segir:
  1. Vindlingar: 210 kr. á hvern pakka (20 stk.).
  2. Annað tóbak: 10,50 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.

     Tóbak sem ferðamenn, farmenn og aðrir flytja með sér til landsins til einkanota og er undanþegið tolli samkvæmt ákvæðum tollalaga skal jafnframt undanþegið gjaldi skv. 1. mgr.
     
     d. (11. gr.)
     Úrskurður tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengis- og tóbaksgjalds skv. 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. sætir kæru til fjármálaráðherra í samræmi við 102. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Þá skulu ákvæði tollalaga gilda að því leyti sem lög þessi kveða ekki á um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, lögvernd, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi gjald af innfluttu áfengi og tóbaki.
     Að því leyti sem ekki eru ákvæði í lögum þessum um álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, framtöl, eftirlit, stöðvun atvinnurekstrar, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi gjald samkvæmt lögum þessum af áfengi og tóbaki, sem er framleitt eða unnið að einhverju leyti hér á landi, skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um virðisaukaskatt og ákvæði reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim lögum, svo og ákvæði laga um vörugjald.
     
     e. (12. gr.)
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd ákvæða laga þessara um áfengisgjald og tóbaksgjald.

3. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um gjald af áfengi og tóbaki.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2001.