Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 629, 127. löggjafarþing 169. mál: heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar (forgangsröð verkefna o.fl.).
Lög nr. 154 21. desember 2001.

Lög um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar.


I. KAFLI
Breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 42. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:

        42.3.    Ráðherra markar stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu. Ráðherra er heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.

        42.4.    Ráðherra skipar samninganefnd sem semur við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Tryggingastofnun ríkisins og skal annar þeirra vera varaformaður, einn skal tilnefndur af fjármálaráðherra og aðrir, þar á meðal formaður, skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Samningar nefndarinnar skulu gerðir í samræmi við skilgreind markmið, sbr. 3. mgr., og með tilliti til hagkvæmni og gæða þjónustunnar. Samningarnir skulu m.a. kveða á um magn og tegund þjónustu og hvar hún skuli veitt. Um mat á hagkvæmni þjónustu stofnana, fyrirtækja og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna skal taka tillit til alls þess kostnaðar sem til fellur vegna þeirra verka sem samið er um.

        42.5.    Ráðherra gerir verksamninga og samninga um rekstrarverkefni samkvæmt ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. Ríkisstofnunum í A-hluta er heimilt að gera samninga um afmörkuð rekstrarverkefni samkvæmt ákvæðum sömu laga.


II. KAFLI
Breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. A-liður 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Læknishjálp sem samið hefur verið um skv. 39. gr.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Að svo miklu leyti sem samningar skv. 39. gr. ná ekki til sjúkrahjálpar samkvæmt framansögðu getur ráðherra ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti með reglugerð.


3. gr.

     Lokamálsgrein 33. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 1. og 2. málsl. a-liðar 1. mgr. orðast svo: Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa sem samið hefur verið um skv. 39. gr. Um gjald sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun læknis fer samkvæmt gjaldskrá ráðherra, sbr. 2. mgr.
  2. 1. málsl. b-liðar 1. mgr. orðast svo: Nauðsynlegar rannsóknir og meðferð hjá sérfræðingum eða stofnunum sem samningar skv. 39. gr. taka til.
  3. Í stað orðanna „sem ákveðið skal með reglugerð“ í 3. málsl. b-liðar 1. mgr. kemur: samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur, sbr. 2. mgr.
  4. Í stað orðsins „reglugerð“ í 2. málsl. c-liðar 1. mgr. kemur: gjaldskrá, sbr. 2. mgr.
  5. D-liður 1. mgr. fellur brott og breytist stafrófsröð annarra liða samkvæmt því.
  6. F-liður 1. mgr. orðast svo: Aðstoð ljósmóður við fæðingu í heimahúsum samkvæmt samningum skv. 39. gr. og að auki dagpeninga, jafnháa sjúkradagpeningum, í 10 daga frá því að fæðing hefst.
  7. K-liður 1. mgr. orðast svo: Hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum skv. 39. gr.
  8. 2. og 3. mgr. orðast svo:
  9.      Heimilt er að breyta greiðslum sjúkratryggðra einstaklinga samkvæmt þessari grein með reglugerð og ákveða hámark eininga í lyfjaávísunum. Sjúkratryggðir einstaklingar skulu greiða gjald fyrir þjónustu skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur. Um greiðslur fyrir tannlæknaþjónustu fer samkvæmt ákvæðum 37. gr. Heimilt er að ákveða að gjald skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. og 3. mgr. skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess sem sjúkratryggðum einstaklingi ber að greiða.
         Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein og 37. gr.


5. gr.

     1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiðir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt samningum, sbr. 39. gr. Takist ekki samningar skv. 39. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra.

6. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar samninganefnd, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem gerir samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt. Um greiðslur Tryggingastofnunar til heilbrigðisstarfsmanna, stofnana eða fyrirtækja fer samkvæmt þeim samningum. Tryggingastofnun ríkisins skal þó semja um þjónustu sem tilgreind er í 41. gr.
     Ráðherra skal ákveða daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum með reglugerð. Ráðherra skal áður en daggjöld eru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Daggjöld hjúkrunarheimila og daggjöld vegna hjúkrunarrýma skulu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd. Samanlagðar tekjur stofnunar skulu standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerðum með stoð í þeim lögum. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd mats á hjúkrunarþyngd.

7. gr.

     41. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þjónustu sem henni ber að veita og fellur ekki undir verksvið samninganefndar skv. 1. mgr. 39. gr. laganna. Tryggingastofnun ber að leita bestu mögulegra kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu sem hún greiðir eða tekur þátt í að greiða samkvæmt lögum þessum. Samninga má gera í framhaldi af útboði og ákveður stofnunin hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur stofnunin ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.
      Um samninga stofnunarinnar um afmörkuð rekstrarverkefni fer samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins.

8. gr.

     Við 47. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum tannlæknum, Tryggingastofnunar ríkisins þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar, eða tannlæknum þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um réttindi sjúklinga eftir því sem við á.

9. gr.

     Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins greiðir kostnað samkvæmt milliríkjasamningum af sjúkrahjálp við erlenda ríkisborgara sem dveljast hér á landi um stundarsakir.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2001.