Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1184, 127. löggjafarþing 454. mál: rafeyrisfyrirtæki (EES-reglur).
Lög nr. 37 16. apríl 2002.

Lög um rafeyrisfyrirtæki.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um rafeyrisfyrirtæki. Með rafeyrisfyrirtæki er átt við lögpersónu, aðra en viðskiptabanka eða sparisjóði samkvæmt lögum nr. 113/1996 eða lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði samkvæmt lögum nr. 123/1993, sem gefur út greiðslumiðil í formi rafeyris.
     Með rafeyri er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru geymd á rafrænum miðli og gefin út í skiptum fyrir fjárhæð, sem er ekki lægri en hin útgefnu peningalegu verðmæti, og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

2. gr.

Takmarkanir á gildissviði.
     Viðskiptaráðherra er heimilt að undanþiggja rafeyrisfyrirtæki frá einstökum eða öllum ákvæðum laga þessara ef að hámarki er unnt að geyma 6.000 kr. á hinum rafræna miðli og einu af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
  1. rafeyrir, sem fyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum fyrirtækisins, hjá móðurfyrirtæki fyrirtækisins eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins, eða
  2. rafeyrir, sem rafeyrisfyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem augljóslega má afmarka þar sem þau eru öll á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á athafnasvæði rafeyrisfyrirtækis eða eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum.

     Rafeyrisfyrirtæki sem fellur undir 1. mgr. skal árlega skila skýrslu um starfsemi sína til Fjármálaeftirlitsins eftir nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur þar sem fram skulu m.a. koma upplýsingar um heildarfjárhæð skuldbindinga vegna óinnleysts rafeyris. Skýrslunni skal skilað fyrir 1. apríl ár hvert.

3. gr.

Stofnun.
     Rafeyrisfyrirtæki skal vera hlutafélag.
     Rafeyrisfyrirtæki verður ekki stofnað með lægra hlutafé en 90 millj. kr. Þó má hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

4. gr.

Starfsleyfi.
     Ákvæði 4. og 5. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um starfsleyfi innlends rafeyrisfyrirtækis vegna starfsemi hér á landi. Þá gilda 82. og 83. gr. sömu laga um útgáfu rafeyris hjá rafeyrisfyrirtæki með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur starfsemi hér á landi. Loks gilda 86. og 87. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði um útgáfu rafeyris hjá innlendu rafeyrisfyrirtæki á hinu Evrópska efnahagssvæði. Um heimildir erlends rafeyrisfyrirtækis með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins fer skv. 2. mgr. 85. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Ákvæði III. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um synjun umsóknar um starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er erlendu rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu hér á landi einungis heimilt að gefa út rafeyri. Sama gildir um innlent rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu erlendis.

5. gr.

Starfsemi.
     Rafeyrisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum er einum heimilt að gefa út rafeyri.
     Önnur starfsemi rafeyrisfyrirtækis en útgáfa rafeyris skal takmörkuð við:
  1. náskylda fjármálaþjónustu eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu hans og útgáfu og umsýslu annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu, og
  2. geymslu gagna frá fyrirtækjum eða hinu opinbera á hinum rafræna miðli sem rafeyrir er geymdur á.

     Rafeyrisfyrirtæki má ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema þau annist rekstrarþætti sem tengjast rafeyri sem viðkomandi rafeyrisfyrirtæki gefur út eða dreifir.

6. gr.

Endurgreiðanleiki rafeyris.
     Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en þess sem er nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.
     Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
     Í samningum skv. 2. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.

7. gr.

Eiginfjárkröfur.
     Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal ávallt vera að lágmarki 90 millj. kr. Þó má eigið fé rafeyrisfyrirtækis aldrei nema lægri fjárhæð en jafngildi einnar milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Um útreikning eigin fjár rafeyrisfyrirtækja fer skv. 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Þrátt fyrir 1. mgr. skal rafeyrisfyrirtæki ávallt hafa yfir að ráða fé sem er að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
  1. fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
  2. meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.

     Hafi rafeyrisfyrirtæki ekki starfað í sex mánuði skal eigið fé þess vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
  1. fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
  2. heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi fyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun fyrirtækisins með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að hafa óskað eftir.

     Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

8. gr.

Traustur og varfærinn rekstur.
     Rafeyrisfyrirtæki skal hafa fullnægjandi innra eftirlitskerfi. Kerfið skal vera í samræmi við fjárhagslega áhættu og aðra áhættu sem rafeyrisfyrirtæki er búin. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi rafeyrisfyrirtækja.
     Um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn rafeyrisfyrirtækis gildir 38. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

9. gr.

Takmörkun fjárfestinga.
     Fjárfestingar rafeyrisfyrirtækis skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þess vegna útistandandi rafeyris. Rafeyrisfyrirtæki er aðeins heimilt að fjárfesta í seljanlegum eignum eða kröfum samkvæmt reglugerð sem viðskiptaráðherra setur um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja. Í reglugerðinni skal m.a. koma fram í hvaða eignum og kröfum rafeyrisfyrirtæki getur fjárfest, mat á verðmæti eigna, takmarkanir á markaðsáhættu og hámark fjárfestinga.
     Ef verðgildi eigna eða krafna skv. 1. mgr. fer niður fyrir fjárhæð skuldbindinga rafeyrisfyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal Fjármálaeftirlitið sjá til þess að viðkomandi rafeyrisfyrirtæki geri án tafar viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því ástandi.
     Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

10. gr.

Ársreikningar.
     Um ársreikninga og endurskoðun rafeyrisfyrirtækis fer skv. VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði, að undanskilinni 65. gr. laganna, eftir því sem við getur átt.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um ársreikninga og endurskoðun rafeyrisfyrirtækja.

11. gr.

Samruni.
     Samruni rafeyrisfyrirtækis við viðskiptabanka, sparisjóð eða annað rafeyrisfyrirtæki er því aðeins heimill að ákvörðun þar að lútandi hafi hlotið samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda viðkomandi stofnana sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum að fengnu samþykki ráðherra og umsögn Fjármálaeftirlitsins. Um slíkan samruna gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.

12. gr.

Meðferð trúnaðarupplýsinga og virkir eignarhlutir.
     Um meðferð trúnaðarupplýsinga í tengslum við rafeyrisfyrirtæki gilda ákvæði 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði 10.–13. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði gilda um virka eignarhluti í rafeyrisfyrirtækjum.

13. gr.

Afturköllun starfsleyfis.
     Ráðherra getur afturkallað starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins:
  1. hafi hlutaðeigandi fyrirtæki fengið starfsleyfið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
  2. uppfylli hlutaðeigandi fyrirtæki ekki ákvæði 3. gr. um stofnfé eða 7. gr. um eigið fé,
  3. nýti hlutaðeigandi fyrirtæki ekki starfsleyfi innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
  4. brjóti hlutaðeigandi fyrirtæki með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, eða
  5. séu aðstæður með þeim hætti sem greinir í 7. mgr. 10. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði um hæfi hluthafa eða 38. gr. sömu laga um hæfi stjórnarmanna og stjórnenda.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal hlutaðeigandi fyrirtæki veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.
     Uppfylli rafeyrisfyrirtæki ekki skilyrði 7. gr. um eigið fé skal ráðherra afturkalla starfsleyfi hlutaðeigandi fyrirtækis að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, enda hafi eigið fé ekki verið fært í lögmælt horf innan þeirra tímamarka sem Fjármálaeftirlit ákveður.

14. gr.

Tilkynning um afturköllun starfsleyfis.
     Afturköllun á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal tilkynnt stjórn eða framkvæmdastjóra og rökstudd skriflega. Tilkynning um afturköllun skal birt í Lögbirtingablaði og auglýst í fjölmiðlum. Starfræki hlutaðeigandi fyrirtæki útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki um afturköllunina.
     Komi til afturköllunar á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal hlutaðeigandi fyrirtæki slitið.

15. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, svo og starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í rafeyrisfyrirtæki í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 12. gr. laga þessara, sbr. 10. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

16. gr.

Viðurlög.
     Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða fangelsi allt að tveimur árum liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

17. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2001 og 45/2001 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til þess að taka upp í innlendan rétt annars vegar ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB frá 18. september 2000 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana og hins vegar ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim.

18. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

19. gr.

Breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Við 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum, bætist nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: rafeyrisfyrirtækja, skv. 1. og 2. gr. laga um rafeyrisfyrirtæki.

20. gr.

Breytingar á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum, orðast svo: Viðskiptabankar, sparisjóðir, rafeyrisfyrirtæki og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,0101% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Lágmarksgreiðsla rafeyrisfyrirtækja skv. 2. gr. laga um rafeyrisfyrirtæki er þó 150.000 kr.

21. gr.

Breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Á eftir 3. mgr. 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, með síðari breytingum, koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Viðtaka fjár í skiptum fyrir rafeyri telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri. Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds. Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
     Í samningum skv. 4. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.

22. gr.

Breytingar á lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
     Á eftir 2. mgr. 8. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 123/1993, koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds. Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
     Í samningum skv. 3. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en samsvarar 500 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Nú gefur fyrirtæki út rafeyri í samræmi við gildandi lög við gildistöku laga þessara og skal þá litið svo á að það hafi starfsleyfi skv. 4. gr. laganna.
     Innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna skal fyrirtæki skv. 1. mgr. afhenda Fjármálaeftirlitinu áætlun um hvernig það hyggst uppfylla skilyrði laganna innan sex mánaða frá gildistöku þeirra eða hvernig það hyggst slíta fyrirtækinu innan sömu tímamarka. Fyrirtæki skal einnig veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort það uppfylli eða muni uppfylla skilyrði laganna.

Samþykkt á Alþingi 10. apríl 2002.