Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1389, 127. löggjafarþing 359. mál: almannatryggingar o.fl. (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.).
Lög nr. 74 8. maí 2002.

Lög um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum.


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 9. gr. c laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., er orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.

2. gr.

     Í stað 2. mgr. 10. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Til tekna skv. II. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna, og frádráttarliða skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skulu við ákvörðun tekjugrundvallar tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka skv. 11.–13. gr. og 17. gr. þessara laga. Einnig skulu tekjur öryrkja af atvinnu metnar að 60 hundraðshlutum við ákvörðun tekjugrundvallar við útreikning tekjutryggingar skv. 17. gr.
     Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 11. og 12. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
     Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 17. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr.
     Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 2. mgr. 47. gr. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða. Komi í ljós að bætur hafa verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum.
     Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 2. mgr. 47. gr. og tekjur síðastliðins árs og þess sem af er yfirstandandi ári fram að þeim tíma er umsókn barst Tryggingastofnun hafðar til hliðsjónar.
     Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur og þagnarskyldu starfsmanna Tryggingastofnunar fer skv. 47. gr.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Orðið „árlegur“ í 2. málsl. 1. mgr. fellur brott; á eftir orðinu „ellilífeyrir“ kemur: skal vera; og á eftir skammstöfuninni „kr.“ í sama málslið kemur: á ári og.
  2. Í stað orðsins „árstekjur“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tekjur skv. 2. og 3. mgr. 10. gr.; og við sama málslið bætist: á ári og um framkvæmd fer skv. 5.–7. mgr. 10. gr.
  3. 3. málsl. 2. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Orðið „árlegur“ í 1. málsl. 4. mgr. fellur brott; á eftir skammstöfuninni „kr.“ kemur: á ári; og í stað orðanna „4. mgr.“ í sama málslið kemur: 5. mgr.
  2. Í stað orðsins „árstekjur“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: tekjur skv. 2. og 3. mgr. 10. gr.; og við sama málslið bætist: á ári og um framkvæmd fer skv. 5.–7. mgr. 10. gr.
  3. 3. málsl. 5. mgr. fellur brott.
  4. 6. mgr. fellur brott.


5. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins skal veita einstaklingi á aldrinum 18–62 ára örorkustyrk að upphæð 14.992 kr. á mánuði ef örorka hans er metin a.m.k. 50% og hann uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 12. gr. Slíkan styrk skal enn fremur veita þeim sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessarar málsgreinar og stundar fullt starf ef örorkan hefur í för með sér verulegan aukakostnað. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 12. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 10. gr.
     Greiða skal einstaklingi sem náð hefur 62 ára aldri, uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 12. gr. og er metinn a.m.k. 50% öryrki örorkustyrk sem skal svara til fulls örorkulífeyris skv. 12. gr., þ.e. grunnlífeyris án bóta tengdra honum. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 12. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 10. gr.
     Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin má ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 14. gr., fyrir hvert barn á framfæri.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
  2.      Tekjutrygging greiðist þeim sem fá greiddan elli-, örorku- eða slysalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Tekjutrygging greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
  3. Á eftir orðinu „ellilífeyrisþega“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skv. 2. og 4. mgr. 10. gr.
  4. Á eftir orðunum „sameiginlegar tekjur“ í 1. málsl. 2. mgr. og „sameiginlega tekjur“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: skv. 2. og 4. mgr. 10. gr.
  5. Á eftir orðunum „Ef tekjur“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: skv. 2. og 4. mgr. 10. gr.
  6. Á eftir orðunum „sameiginlegar tekjur“ í 1. málsl. 5. mgr. og 1. málsl. 6. mgr. kemur: skv. 2. og 4. mgr. 10. gr.
  7. Á eftir orðunum „miðast tekjur“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: skv. 2. og 4. mgr. 10. gr.
  8. Orðin „sbr. 11. mgr.“ í 8. og 9. mgr. falla brott.
  9. Í stað orðanna „9. mgr.“ í 10. mgr. kemur: 10. mgr.
  10. 11. mgr. fellur brott.
  11. Í stað orðanna „lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum“ í 12. mgr. kemur: lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
  12. Við 13. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Framkvæmd bótaútreiknings samkvæmt þessari grein fer skv. 5.–7. mgr. 10. gr.
  13. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  14.      Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.
  15. Fyrirsögn greinarinnar verður: Tekjutrygging og tekjutryggingarauki.


7. gr.

     18. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

     Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
  1. B-liður 1. mgr. orðast svo: Nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum, háskólanemar og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum þegar þeir sinna verklegu námi.
  2. Á eftir e-lið 1. mgr. bætast við tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
    1. Atvinnurekendur í landbúnaði sem vinna landbúnaðarstörf, makar þeirra og börn á aldrinum 13 til og með 17 ára.
    2. Atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en um getur í f-lið.

  3. 4. mgr. fellur brott.
  4. 5. mgr. orðast svo:
  5.      Maki atvinnurekanda og börn hans á aldrinum 13 til og með 17 ára, sbr. g-lið 1. mgr., teljast ekki launþegar samkvæmt þessari grein nema þau starfi við atvinnureksturinn og þiggi laun fyrir.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. 2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.


12. gr.

     4. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
     Greiðslur samkvæmt grein þessari mega ekki fara fram úr 3/ 4 af tekjum bótaþega, sbr. 10. gr., við þá atvinnu sem hann stundaði er slysið varð.

13. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:
     Útgjöld slysatrygginga skulu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi og iðgjöldum skv. 3. mgr. Þá skal árlega ákveða í fjárlögum framlag sem standa skal undir kostnaði af bótum vegna þeirra sem um getur í e-lið 1. mgr. 24. gr.
     Tryggingastofnun ríkisins skal ár hvert gera áætlun um bótagreiðslur og rekstrarkostnað slysatrygginga næsta almanaksár.
     Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skulu vera 0,65% af samanlögðum launum og aflahlut sjómanna sem hjá þeim starfa hverju sinni. Iðgjöld þessi skulu ásamt dagpeningum skv. 6. mgr. 63. gr. standa undir greiðslu launa og/eða aflahlutar skv. 2. mgr. 63. gr. og rekstrarkostnaði slysatrygginga vegna framkvæmdar Tryggingastofnunar við tryggingu þessa. Iðgjöld þeirra sem heimilisstörf stunda skv. 25. gr. skulu ákveðin þannig að þau standi undir kostnaði við trygginguna og rekstrarkostnaði Tryggingastofnunar ríkisins vegna framkvæmdarinnar.

14. gr.

     33. gr. laganna orðast svo:
     Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar, sbr. 2. gr., og skal hún veita þá styrki sem hér segir:
  1. Styrk til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
  2. Styrk til nauðsynlegrar æfingameðferðar eða þjálfunar.
  3. Styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
  4. Ferðastyrk til sjúklinga sem af nauðsyn leita læknishjálpar erlendis, svo og til fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á.
  5. Styrk til kaupa á næringarefnum og sérfæði sem lífsnauðsynlegt er vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi.
  6. Styrk vegna kostnaðar við meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, samkvæmt fyrirmælum læknis.

     Þá skal Tryggingastofnun greiða kostnað vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.
     Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir fram. Tryggingastofnun getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis, þjálfunar, næringarefnis eða sérfæðis.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 1. og 2. málsl. h-liðar 1. mgr. orðast svo: Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkratryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður hámarksgjald samkvæmt gjaldskrá er ráðherra setur.
  2. Við h-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður, 6. málsl., svohljóðandi: Sé nauðsyn á fylgd heilbrigðisstarfsmanns skal greiða fargjald hans og þóknun, ef við á, samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.
  3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Jafnframt er ráðherra heimilt í reglugerð að ákveða að veita skuli hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir skv. b-lið 1. mgr. hjá öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði en sérfræðilæknum.


16. gr.

     Í stað 5. mgr. 43. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 10. gr.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða, sem ekki er á föstum fjárlögum, vistunarframlag allt að því sem á vantar dvalarkostnað í samræmi við lög um málefni aldraðra. Vistunarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur dvalarkostnaði vistmanns á dvalarheimili aldraðra eins og hann er ákveðinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hverju sinni, sbr. 39. gr.
     Sjúkrahús og stofnanir skv. 5. og 6. mgr. skulu senda Tryggingastofnun mánaðarlega upplýsingar um vistun.
     Þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður skv. 5. mgr. er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega sem dvelst á sjúkrahúsi hér á landi vasapeninga allt að 19.990 kr. á mánuði. Tekjur umfram 3.952 kr. á mánuði skerða vasapeninga um 65% þeirra tekna sem umfram eru. Vasapeningar falla þó alveg niður við tekjur sem nema 416.474 kr. á ári. Með tekjum er átt við tekjur eins og þær eru skilgreindar í 10. gr. og um tekjuútreikning fer samkvæmt sömu grein. Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana svo framarlega sem þær fara ekki yfir tekjumörk tekjutryggingar skv. 17. gr. og sama gildir um tekjur í formi hlunninda og annarra greiðslna en peninga. Tekjur vegna vinnu á stofnun, sbr. 5. málsl. þessarar málsgreinar, umfram tekjumörk tekjutryggingar skv. 17. gr. skerða vasapeninga í samræmi við skerðingarhlutfall 2. málsl.
     Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en 1.592 kr. á dag þann tíma.
     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa.

17. gr.

     1.–4. mgr. 47. gr. laganna orðast svo:
     Sækja skal um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, svo og greiðslur skv. 59. gr. Þó getur Tryggingastofnun ríkisins ákveðið að ekki þurfi að sækja um tilteknar bætur skv. 33., 34., 36. og 37. gr. Örorkulífeyrisþegar þurfa þó ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 11. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri. Umsóknir um bætur skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar ríkisins eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
     Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er á þennan hátt skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Telji umsækjandi, bótaþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári. Ef gefnar eru rangar upplýsingar skal beita ákvæðum 50. gr.
     Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, bótaþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur og skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar.
     Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboða hennar er skylt að gæta þagmælsku um atriði er það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

18. gr.

     Við 49. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Tryggingastofnun ríkisins gefur út örorkuskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 12. gr. og eru jafnframt sjúkratryggðir hér á landi.

19. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
     Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.
     Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna, sbr. 47. gr.
     Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.
     Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 48. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 7. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 48. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 3. mgr. 47. gr., falla vextir niður.
     Þegar greiðsla skv. 1. mgr. stafar af sviksamlegu atferli bótaþega skal hann greiða dráttarvexti á þá bótafjárhæð og reiknast þeir frá þeim tíma sem endurkröfuréttur stofnast.

20. gr.

     2. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, skulu eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu iðgjalds útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna. Að tekjuári liðnu skal fara fram endanleg ákvörðun iðgjaldsins í samræmi við launaframtal og skal iðgjaldið sérgreint í álagningarskrá og skattskrá. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila og skal eftir atvikum leita staðfestingar á iðgjaldi útgerðaraðila þegar greiðsluskylda Tryggingastofnunar ríkisins er ákvörðuð.

21. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skv. 31. gr. skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.

22. gr.

     58. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

     63. gr. laganna orðast svo:
     Útgerðarmenn fiskiskipa skulu tryggja áhættu vegna bótaskyldra slysa, sbr. III. kafla laga þessara og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, hjá Tryggingastofnun ríkisins.
     Tryggingastofnun greiðir útgerðarmönnum fjárhæð sem svarar til fullra launa og/eða aflahlutar sjómanna í allt að tvo mánuði.
     Útgerðarmenn skulu greiða iðgjald skv. 31. gr.
     Útgerðarmenn sem þess óska geta sagt upp tryggingu, sbr. 1. mgr., fyrir 1. nóvember ár hvert vegna næsta árs á eftir. Tilkynning um uppsögn skal berast Tryggingastofnun. Eftir að uppsögn hefur öðlast gildi eiga útgerðarmenn ekki rétt á greiðslum vegna launa eða aflahlutar í forföllum vegna slysa en njóta slysatrygginga almennra launþega.
     Halda skal tryggingum samkvæmt þessari grein reikningslega aðskildum frá annarri starfsemi Tryggingastofnunar.
     Dagpeningar skv. 28. og 38. gr. skulu renna til Tryggingastofnunar þann tíma sem greiðslur launa og aflahlutar eiga sér stað.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum.

24. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Við bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
  2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Makabætur og umönnunarbætur.


25. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt efnisheiti og breytist töluröð annarra greina í samræmi við það:
     
     a. (13. gr.)
Kostnaður við dagvist aldraðra.
     Þeir sem njóta þjónustu dagvistar samkvæmt lögum um málefni aldraðra skulu taka þátt í kostnaði af dagvistinni að hámarki sem nemur óskertum grunnlífeyri einstaklings samkvæmt lögum um almannatryggingar. Heimilt er Tryggingastofnun ríkisins að greiða kostnað vegna þjónustu dagvistar fyrir aldraða, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, umfram greiðslur skv. 1. málsl. þessarar greinar.
     
     b. (14. gr.)
     Ef greiðsla samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða bótaþega skulu þær ákveðnar skv. 10. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Einnig skal beita 47. og 50. gr. laga um almannatryggingar vegna upplýsinga um tekjur, þagmælsku starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins og endurheimtu á ofgreiddum bótum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

26. gr.

     Á eftir 1. tölul. 2. gr. laganna kemur nýr töluliður er orðast svo: Vistmaður: Sá sem dvelur á stofnun skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. og sá sem dvelur lengur en sex mánuði undanfarandi tólf mánuði á stofnun skv. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. eða í hjúkrunarrými stofnunar sem er á föstum fjárlögum.

27. gr.

     Á undan 19. gr. laganna kemur nýtt efnisheiti, svohljóðandi: Dagvist.

28. gr.

     Á undan 20. gr. laganna kemur nýtt efnisheiti, svohljóðandi: Önnur þjónusta en heimaþjónusta.

29. gr.

     Í stað 21.–23. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar ásamt efnisheitum, svohljóðandi:
     
     a. (21. gr.)
Daggjaldastofnanir.
     Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanna sem eru á dvalarheimilum sem ekki eru á föstum fjárlögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr., fellur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Hafi vistmaður engar tekjur, sbr. 26. gr., skal Tryggingastofnun ríkisins greiða dvalarheimilinu vistunarframlag skv. 6. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, til greiðslu dvalarkostnaðar hans á stofnuninni. Vistunarframlagið skal nema fjárhæð lífeyris vistmanns og bótum tengdum honum og því sem á vantar dvalarkostnað eins og hann er ákveðinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 39. gr. laga um almannatryggingar, sbr. þó 22. gr.
     Lífeyrir frá lífeyristryggingum almannatrygginga og bætur honum tengdar til vistmanns sem dvelur á stofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr., sem ekki er á föstum fjárlögum, fellur niður, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Um þátttöku í greiðslu dvalarkostnaðar fer skv. 22. gr.
     Með dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða skv. 1. mgr. er átt við daggjald eins og það er ákveðið af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hverju sinni, sbr. 39. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     
     b. (22. gr.)
Þátttaka vistmanns í greiðslu dvalarkostnaðar og framkvæmd tekjuútreiknings.
     Vistmaður, sem hefur tekjur, sbr. 26. gr., umfram 34.659 kr. á mánuði skal taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Þó skal greiðsluþátttaka hans aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur daggjöldum á stofnun eins og þau eru ákveðin af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar og 3. mgr. 23. gr. laga þessara.
     Eftirfarandi gildir um greiðslu vistmanns á dvalarkostnaði á dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sem ekki er á föstum fjárlögum og hjúkrunarrými sem er á föstum fjárlögum þegar vistmaður greiðir dvalarkostnað með tekjum sínum að hluta eða öllu leyti:
  1. Nú hefur vistmaður tekjur, sbr. 26. gr., sem eru hærri en 34.659 kr. á mánuði og skal hann þá með þeim tekjum sem umfram eru taka þátt í dvalarkostnaði, sbr. 1. mgr., frá þeim tíma sem greiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður.
  2. Ef tekjur vistmanns á dvalarheimili skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. ná ekki 34.659 kr. á mánuði greiðir Tryggingastofnun ríkisins dvalarkostnað hans með vistunarframlagi, sbr. 1. mgr. 21. gr.
  3. Nú á vistmaður maka og skulu þá tekjur vistmanns, sbr. 26. gr., skiptast að jöfnu milli vistmanns og maka. Séu tekjurnar eftir skiptinguna hærri en 34.659 kr. á mánuði skal hann standa straum af dvalarkostnaði, sbr. 1. mgr., með þeim tekjum sem umfram eru.

     
     c. (23. gr.)
Innheimta dvalarkostnaðar.
     Daggjaldastofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 22. gr. Þess skal ætíð gætt að vistmaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé skv. 22. gr. Stofnun skal gera Tryggingastofnun ríkisins grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar. Nú vanrækir stofnun þessa innheimtu og er Tryggingastofnun þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.
     Stofnun sem er á föstum fjárlögum skal innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar hlut hans í dvalarkostnaði, sbr. 3. mgr., nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 22. gr. Tekjur þessar skulu færast í bókhald stofnunar sem sértekjur. Fjármálaráðuneyti er heimilt samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti að halda eftir af beinum fjárframlögum samkvæmt fjárlögum upphæð sem svarar til þessara sértekna.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal ákveða hámark greiðsluþátttöku vistmanns í dvalarkostnaði á stofnun sem er á föstum fjárlögum. Við ákvörðun skal höfð hliðsjón af ákvörðun daggjalda eins og þau eru ákveðin skv. 39. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     
     d. (24. gr.)
Vasapeningar.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða vistmanni á stofnun fyrir aldraða vasapeninga skv. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

30. gr.

     24. gr. laganna verður 25. gr.

31. gr.

     Á eftir 24. gr. laganna (er verður 25. gr.) kemur ný grein, 26. gr., og orðast svo ásamt efnisheiti:
Skilgreining á tekjum o.fl.
     Til tekna teljast samkvæmt þessum kafla tekjur skv. II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Við ákvörðun tekjugrundvallar skulu þó tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á vistunarframlagi skv. 21. gr., sbr. og 22. gr.
     Þrátt fyrir 1. mgr. teljast ekki til tekna bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
     Tryggingastofnun ríkisins skal annast framkvæmd útreiknings á tekjum skv. 21. og 22. gr. og 1. og 2. mgr. þessarar greinar og greiðir stofnunum vistunarframlag skv. 1. mgr. 21. gr.
     Tekjumörk skv. 22. gr. breytast í samræmi við breytingar á tekjutryggingu skv. 17. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
     Til grundvallar útreikningi á vistunarframlagi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum greiðsluársins að teknu tilliti til innheimtuhlutfalls staðgreiðslu og persónuafsláttar viðkomandi staðgreiðsluárs. Greiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá skattyfirvöldum, umsækjanda og vistmanni. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna fjárhæðir á grundvelli tekna skv. 1. og 2. mgr. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem áætlaðar tekjur vistmanns tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða. Komi í ljós að vistunarframlag hafi verið vangreitt skal stofnun greitt það sem upp á vantar. Ef vistunarframlag hefur verið ofgreitt af Tryggingastofnun ríkisins skal um endurheimtu á ofgreiðslum fara skv. 50. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða vistmann um forsendur útreiknings og gefa kost á að koma að athugasemdum.
     Ef um nýja umsókn um vistunarframlag er að ræða skal Tryggingastofnun áætla tekjur vistmanns á grundvelli upplýsinga frá skattyfirvöldum og vistmanni og skulu tekjur síðastliðið ár og það sem af er yfirstandandi ári fram að þeim tíma er umsókn barst Tryggingastofnun hafðar til hliðsjónar.
     Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur fer skv. 47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
     Þegar nýr vistmaður kemur til dvalar á stofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skulu stjórnendur stofnunarinnar óska eftir því við Tryggingastofnun að hún kanni hvort viðkomandi skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 21. gr. og 23. gr.

32. gr.

     Við VI. kafla laganna bætist ný grein sem verður 27. gr. og breytist töluröð annarra greina kaflans samkvæmt því:
     Starfsmenn stofnana skv. 1. tölul. 14. gr. skulu gæta þagmælsku um heilsufar, ástand og aðrar persónulegar upplýsingar vistmanna. Þagnarskyldan helst þótt vistmaður andist og þótt starfsmaður láti af störfum. Um þagmælsku starfsmanna á stofnunum skv. 2. tölul. 14. gr. fer samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

33. gr.

     Í stað 2. mgr. 20. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða gjald til heilsugæslustöðvar fyrir þjónustu á heilsugæslustöð í samræmi við gjaldskrá er ráðherra setur. Einnig skal sjúkratryggður greiða gjald vegna krabbameinsleitar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Ekki er heimilt að taka gjald vegna mæðra- og ungbarnaverndar og heilsugæslu í skólum. Einstaklingar sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi skulu greiða gjald sem nemur kostnaði við veitta þjónustu á heilsugæslustöð samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur, nema í gildi sé samningur við það ríki sem þeir koma frá vegna þjónustu á heilsugæslustöð.
     Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða heilsugæslulækni gjald fyrir vitjun samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjald þetta skal vera hærra fyrir vitjanir utan dagvinnutíma. Í vitjanagjaldi skal óhjákvæmilegur ferðakostnaður læknis innifalinn.
     Heimilt er að setja reglugerð um hámark greiðslna sjúkratryggðs einstaklings.

34. gr.

     Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, svohljóðandi:
     Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða gjald til göngudeilda, slysadeilda og bráðamóttöku sjúkrahúsa fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða í samræmi við gjaldskrá er ráðherra setur. Gjald vegna sérfræðiþjónustu getur verið hlutfallsgjald og má tiltaka hámark þess í reglugerð. Einstaklingur sem ekki er sjúkratryggður hér á landi skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

V. KAFLI
Breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.

35. gr.

     Við 2. málsl. 17. gr. laganna bætist: og lögum um heilbrigðisþjónustu.

36. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr., 1.–3. málsl. og 7. og 8. málsl. 4. mgr. og 6. mgr. 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., 12. gr., 1.–3. mgr. 19. gr., 25. gr., b–d-liða (22.–24. gr.) 29. gr. og 31. gr. er snerta útreikning bóta á grundvelli tekna koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2004 á tekjur ársins 2003.
     4.–6. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 2. gr. og 4.–6. málsl. 5. mgr. og 6. mgr. 31. gr. koma til framkvæmda 1. september 2004.
     A-liður 10. gr., 16. gr., 4. og 5. mgr. 19. gr. og a-liður (21. gr.) 29. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2004.
     Bótafjárhæðir og tekjumörk í krónutölum, sem tilgreind eru í þeim greinum sem 2.–4. mgr. taka til, breytast í samræmi við breytingar á fjárhæðum bóta eða tekjumarka sem verða fram að gildistöku greinanna.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2002.