Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 721, 128. löggjafarþing 346. mál: félagamerki (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 155 18. desember 2002.

Lög um félagamerki.


1. gr.

     Félög eða samtök geta öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu.
     Stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök, sem hafa eftirlit með eða ákveða staðla fyrir vörur eða þjónustu, geta öðlast einkarétt til að nota eða heimila notkun auðkennis fyrir þær vörur eða þjónustu sem eftirlitið eða staðlarnir taka til.
     Auðkenni þau sem lög þessi taka til nefnast félagamerki.

2. gr.

     Að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laga þessara gilda ákvæði laga um vörumerki, nr. 45/1997, um félagamerki eftir því sem við á.

3. gr.

     Auðkenni eða upplýsingar, sem í viðskiptum gefa til kynna landfræðilegan uppruna vöru eða þjónustu, geta talist félagamerki þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um vörumerki. Slíkt merki veitir eiganda þess ekki rétt til að banna þriðja aðila að nota auðkennið eða upplýsingarnar í atvinnustarfsemi svo framarlega sem notkunin er í samræmi við góða viðskiptahætti.

4. gr.

     Félagamerki eru skráð í vörumerkjaskrá.
     Umsókn um skráningu félagamerkis skal skila skriflega til Einkaleyfastofunnar sem annast skráningu félagamerkja. Umsókn skal fylgja tilskilið gjald.
     Í umsókn skal tilgreina hvert merkið er, með mynd ef við á, og fyrir hvaða vöru eða þjónustu merkið óskast skráð. Einnig skal greina frá nafni eða heiti umsækjanda. Umsókn skal enn fremur vera í samræmi við reglugerðarákvæði um vörumerki eftir því sem við á. Reglur, sem gilda um notkun merkisins, skulu fylgja umsókn.
     Í reglum þeim sem gilda um notkun merkisins skal m.a. koma fram:
  1. hverjum sé heimilt að nota merkið og hvaða skilyrði séu fyrir slíkri heimild,
  2. hvaða afleiðingar óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér og
  3. hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið á óheimilan hátt.


5. gr.

     Verði breytingar á reglum um notkun merkisins skal eigandi tilkynna breytingarnar til Einkaleyfastofunnar eigi síðar en þremur mánuðum eftir að breytingarnar voru samþykktar.

6. gr.

     Ákvæði 25. gr. laga um vörumerki gilda um notkunarskyldu félagamerkis.
     Notkun félagamerkis af hálfu eins eða fleiri aðila, sem hafa heimild til að nota merkið, telst til notkunar í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga um vörumerki.

7. gr.

     Mál vegna brota gegn félagamerki getur aðeins sá höfðað sem er eigandi merkisins. Sá sem brýtur gegn félagamerki og er skaðabótaskyldur samkvæmt lögum um vörumerki skal bæta það tjón sem eigandi merkis, eða sá sem hefur rétt til að nota það, verður fyrir.

8. gr.

     Endanlegum ákvörðunum Einkaleyfastofunnar samkvæmt lögum þessum geta aðilar máls áfrýjað til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Áfrýjun skal berast iðnaðarráðuneyti innan tveggja mánaða frá þeim degi er ákvörðun var tekin. Innan sama frests skal greiða ráðuneytinu tilskilið áfrýjunargjald. Sé áfrýjunargjald ekki greitt innan frestsins skal vísa áfrýjun frá.
     Úrskurðir áfrýjunarnefndar verða ekki bornir undir annað stjórnvald.
     Ef aðilar máls óska að bera ákvörðun Einkaleyfastofunnar eða úrskurð áfrýjunarnefndar undir dómstóla ber þeim að höfða mál innan þriggja mánaða frá þeim degi sem Einkaleyfastofan tók ákvörðun sína eða áfrýjunarnefnd úrskurðaði í málinu.

9. gr.

     Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari reglur, m.a. um frágang umsókna og meðferð þeirra hjá Einkaleyfastofunni, um form skrárinnar og færslu, útgáfu skráningarskírteina og efni þeirra og meðferð andmælamála, svo og um gjöld fyrir umsóknir, endurnýjanir, afgreiðslur, endurrit, áfrýjanir o.fl.
     Gjöld skulu standa straum af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna málefna sem tengjast félagamerkjum og við þjónustu sem veitt er, m.a. í tengslum við umsóknir og skráningu félagamerkja, útskriftir úr skrám, afgreiðslur og endurrit.

10. gr.

     Sá sem af ásetningi brýtur gegn félagamerkjarétti skal sæta sektum. Eftir atvikum getur refsing verið fangelsi í allt að þrjá mánuði.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðila framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur hagnast á brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hjá lögaðilanum.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 89/1935, um almenn gæðamerki, með síðari breytingum.
     Með umsóknir sem berast Einkaleyfastofunni fyrir gildistöku laga þessara skal farið eftir eldri lögum.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2002.