Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 852, 128. löggjafarþing 345. mál: opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.
Lög nr. 4 3. febrúar 2003.

Lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að byggja upp innviði og tæknilega getu fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun og rannsóknir er henni tengjast sem leiða til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi.

2. gr.

Nýsköpunarmiðstöð.
     Á vegum Iðntæknistofnunar Íslands er rekin nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Nýsköpunarmiðstöðin þjónar öllum íslenskum atvinnugreinum í samræmi við hlutverk sitt. Stjórn stofnunarinnar ræður framkvæmdastjóra nýsköpunarmiðstöðvarinnar í samræmi við 7. gr. laga um Iðntæknistofnun Íslands, nr. 41/1978. Framkvæmdastjórinn heyrir undir forstjóra Iðntæknistofnunar.

3. gr.

Hlutverk.
     Hlutverk nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að vinna að nýsköpun og tækniþróun í samræmi við lög þessi og áherslur Vísinda- og tækniráðs á hverjum tíma. Í þessu felst m.a. að:
  1. eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið,
  2. móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja,
  3. starfrækja frumkvöðlasetur til að styðja framgang nýrra hugmynda í samræmi við reglur sem iðnaðarráðherra samþykkir,
  4. annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja,
  5. vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu,
  6. miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni,
  7. beita sér fyrir hagnýtingu vísindalegrar þekkingar,
  8. aðstoða við öflun framtaksfjármagns til verkefna sem stuðla að nýsköpun og aukinni verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi,
  9. eiga aðild að sprotafyrirtækjum sem stofnunin hefur tekið þátt í að þróa,
  10. annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki vegna samstarfsverkefna og miðlunar þekkingar í samræmi við markmið 1. gr.,
  11. sinna öðrum verkefnum sem iðnaðarráðherra felur henni.


4. gr.

Tækniþróunarsjóður.
     Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóður fjármagnar nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs með því að:
  1. styrkja tækniþróun og tengdar rannsóknir í þágu nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. í samstarfi við stofnanir, háskóla og fyrirtæki,
  2. styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar,
  3. fjármagna átaksverkefni og markáætlanir á einstökum tæknisviðum til að treysta tæknilegar undirstöður atvinnuveganna, einstakar greinar þeirra eða þvert á greinaskiptingu þeirra,
  4. styrkja lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi og arðbær þrátt fyrir áhættu í upphafi,
  5. kosta greiningu á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til styrktar henni.

     Iðnaðarráðherra getur kveðið nánar á um starfsemi Tækniþróunarsjóðs í reglugerð.
     Varsla sjóðsins, umsýsla og rekstur hans er hjá Rannsóknamiðstöð Íslands samkvæmt samningi við iðnaðarráðherra.

5. gr.

Tekjur Tækniþróunarsjóðs.
     Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru:
  1. fjárveitingar í fjárlögum ár hvert,
  2. tekjur af sölu hlutdeildar í sprotafyrirtækjum sem sjóðurinn hefur eignast aðild að,
  3. framlög frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum,
  4. önnur framlög.


6. gr.

Stjórn Tækniþróunarsjóðs.
     Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sjö menn sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð:
  1. formanni tækninefndar Vísinda- og tækniráðs og öðrum úr ráðinu til vara,
  2. einum samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs og einum til vara; skulu þeir ekki eiga sæti í nefndinni,
  3. einum samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra og einum til vara,
  4. einum samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra og einum til vara,
  5. einum samkvæmt tilnefningu rannsóknastofnana atvinnulífsins og einum til vara,
  6. einum samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins og einum til vara,
  7. einum án tilnefningar.

     Iðnaðarráðherra velur formann og varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.

7. gr.

Hlutverk stjórnar og fagráða Tækniþróunarsjóðs.
     Stjórn Tækniþróunarsjóðs tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipar til tveggja ára í senn. Tækninefnd setur fagráðum erindisbréf.
     Fagráðin eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Jafnframt eru fagráð ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg málefni eftir því sem óskað er.
     Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir að mati stjórnarinnar. Þeir sem skipaðir eru í fagráð skulu hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Þeir skulu ekki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn sjóðsins.
     Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Tækniþróunarsjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
     Ákvarðanir stjórnar Tækniþróunarsjóðs um fjárveitingar úr sjóðnum samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
     Kostnaður við mat á umsóknum og við störf sjóðsins skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.

8. gr.

Úthlutunarreglur.
     Úthlutunarstefna Tækniþróunarsjóðs skal fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn Tækniþróunarsjóðs setur reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

9. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 2003.