Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1358, 128. löggjafarþing 375. mál: björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.
Lög nr. 43 24. mars 2003.

Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.


I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til björgunarsveita og björgunarsveitarmanna sem starfa innan viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Með björgunarsveit er átt við félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda.
     Með björgunarsveitarmanni er átt við skráðan einstakling í björgunarsveit sem tekur þátt í björgun, björgunaræfingum, leit og gæslu.
     Með stjórnvöldum er átt við öll stjórnvöld sem lögum samkvæmt fara með yfirstjórn björgunar- og leitarmála á hverjum tíma. Þau stjórnvöld sem nú eiga hlut að björgunarmálum eru dómsmálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, almannavarnaráð, almannavarnanefndir, Flugmálastjórn, rannsóknarnefnd flugslysa, Landhelgisgæslan, ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn í Reykjavík, sýslumenn sem lögreglustjórar og slökkviliðsstjórar.
     Með björgun er átt við björgun manna eða verðmæta frá yfirvofandi hættu eða tjóni.
     Með leit er átt við leit að mönnum eða verðmætum.
     Með gæslu er átt við aðstoð við að gæta manna og verðmæta á svæðum sem lokað hefur verið vegna hættuástands.

II. KAFLI
Hlutverk, réttindi, skyldur og tryggingar björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.

3. gr.

Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
     Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna er að starfa í þágu almannaheilla með þátttöku við björgun, leit og gæslu á ábyrgð stjórnvalda og í samvinnu við þau.
     Stjórnvöld skulu í samráði við heildarsamtök björgunarsveita gera samkomulag um samskipti og samstarf björgunaraðila þar sem er kveðið á um skipulag björgunarmála, upplýsingaskyldu, útköll og boðskipti.

4. gr.

Skyldur björgunarsveita og björgunarsveitarmanna.
     Björgunarsveitum er skylt að hefja björgun, leit og gæslu ef stjórnvöld óska þess.
     Björgunarsveitarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um mál sem þeir fá vitneskju um við störf samkvæmt lögum þessum og leynt skulu fara samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda og eðli máls.

5. gr.

Tryggingar.
     Björgunarsveitum er skylt að kaupa slysatryggingar fyrir félagsmenn sína þar sem m.a. skal tryggja bótastöðu þeirra í tilfellum sem leiða til veikinda þeirra vegna utanaðkomandi aðstæðna, svo sem við ofkælingu, kal, ofhitnun og eitrun.
     Björgunarsveitum er skylt að kaupa eignatryggingar fyrir því tjóni sem þær og björgunarsveitarmenn, vegna persónulegra muna, kunna að verða fyrir á eigum sínum við æfingar, björgun, leit og gæslu.
     Björgunarsveitum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingar sem ná til tjóns sem athafnir björgunarsveitarmanna kunna að valda mönnum og tjóns á dýrum, munum og umhverfi.

III. KAFLI
Gildistaka.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.

Samþykkt á Alþingi 13. mars 2003.