Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1434, 130. löggjafarþing 427. mál: ársreikningar (matsreglur, EES-reglur).
Lög nr. 28 27. apríl 2004.

Lög um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.


1. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að meta til gangvirðis fjármálagerninga ef þeirra hefur verið aflað í þeim tilgangi að selja aftur eða til að hagnast á skammtímaverðbreytingum. Ef heimildin er notuð skal meta til gangvirðis skuldbindingar sem tengjast afleiðusamningum eða loforði um afhendingu fjármálagerninga sem enn eru ekki í eigu viðkomandi félags. Einnig má meta eignir og skuldbindingar sem þeim tengjast á gangvirði þegar þessar eignir og skuldbindingar uppfylla kröfur um áhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna og skulu slíkar eignir og skuldbindingar metnar til gangvirðis eins og krafist er í þeim reikningsskilum.
     Ákvæði þetta nær þó ekki til:
  1. útlána og viðskiptakrafna viðkomandi félags sem ekki er fyrirhugað að versla með,
  2. fjármálagerninga, annarra en afleiðusamninga, sem ætlunin er að eiga fram að gjalddaga,
  3. eignarhluta í dótturfélögum,
  4. eignarhluta í hlutdeildarfélögum,
  5. eignarhluta í samrekstrarfélögum, sbr. 3. mgr. 35. gr.,
  6. eigin eignarhluta, skilyrts viðbótarverðs við sameiningu fyrirtækja, sem og annarra fjármálagerninga sem tengjast eigin fé viðkomandi félags,
  7. allra annarra fjármálagerninga sem ekki er viðeigandi að færa á gangvirði samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum.

     Til fjármálagerninga teljast hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, þ.m.t. afleiður þar sem uppgjörsákvæði byggjast á breytingum á undirliggjandi þáttum á tilteknu tímabili, svo sem vöxtum, gengi gjaldmiðla, verðbréfaverði eða verðbréfavísitölu, eða þær tengjast breytingu á verði tiltekinna vörutegunda, enn fremur framseljanleg skilríki á eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf.

2. gr.

     Á eftir 29. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (29. gr. A.)
     Mat á fjármálagerningum og skuldbindingum til gangvirðis skv. 29. gr. skal vera í samræmi við alþjóðlegar reikningsskilareglur. Einungis er heimilt að beita slíku mati ef það byggist á áreiðanlegum upplýsingum um gangvirði.
     Gangvirði skal ákvarðað með tilliti til:
  1. markaðsverðs þeirra fjármálagerninga sem eru á virkum markaði,
  2. markaðsverðs undirliggjandi þátta í viðkomandi fjármálagerningi ef viðkomandi fjármálagerningur er ekki skráður á markaði,
  3. virðis sem reiknað er út með almennum viðurkenndum matslíkönum eða matsaðferðum fyrir þær eignir sem ekki eru á markaði; slík matslíkön og matsaðferðir skulu gefa góða mynd af markaðsverði.

     Ef ekki er hægt að meta þessar eignir eða skuldbindingar til gangvirðis samkvæmt framangreindum aðferðum skal matið byggjast á kostnaðarverði skv. 22. gr.
     
     b. (29. gr. B.)
     Á rekstrarreikning skal færa þær breytingar á virði fjármálagerninga og skuldbindinga sem metnar eru í samræmi við 29. gr. A, þrátt fyrir ákvæði a-liðar 3. tölul. 1. mgr. 20. gr., sbr. þó 2. mgr. Þar með eru taldar breytingar á virði afleiðusamninga og annarra fjármálagerninga sem aflað hefur verið í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum.
     Slík breyting skal þó færð beint á gangvirðisreikning sem færður er með eigin fé þegar:
  1. í reikningsskilum afleiðusamnings er byggt á að um sé að ræða áhættuvörn í skilningi alþjóðlegra reikningsskilareglna, að því marki sem þær leyfa að verðbreyting sé ekki tekin með í rekstrarreikningi, eða;
  2. um er að ræða verðbreytingar á virði fjármálagerninga sem aflað er í þeim tilgangi að selja aftur, eða;
  3. verðbreytingar tengjast gengismun sem verður á peningalegum liðum sem eru hluti af nettófjárfestingu félagsins í starfsemi erlendis.

     Samræmi skal vera í færslu breytinga á virði fjármálagerninga og skuldbindinga skv. 1. eða 2. mgr. frá einu ári til annars.
     Leysa skal gangvirðisreikning upp til jafns við framkomnar breytingar á viðkomandi eign eða skuldbindingu þegar hún er seld eða innleyst eða forsendur fyrir verðbreytingunni eru ekki fyrir hendi.

3. gr.

     Á eftir 37. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (37. gr. A.)
     Veita skal eftirfarandi upplýsingar þegar fjármálagerningar eru metnir til gangvirðis skv. 29. gr. A:
  1. helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangvirði er ákvarðað skv. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr. A,
  2. breytingar á virði fyrir hvern flokk fjármálagerninga hvort sem breytingin hefur verið færð á rekstrarreikning eða á gangvirðisreikning,
  3. umfang og eðli hvers flokks afleiðusamninga, þ.m.t. mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis, og
  4. hreyfingar á gangvirðisreikningi á árinu.

     
     b. (37. gr. B.)
     Veita skal eftirfarandi upplýsingar um þá fjármálagerninga, sbr. 29. gr., sem félag hefur ekki metið í ársreikningi sínum til gangvirðis:
  1. gangvirði fyrir hvern flokk afleiddra fjármálagerninga ef hægt er að ákvarða það með einhverri þeirra aðferða sem fram kemur í 29. gr. A, og
  2. umfang og eðli gerninganna.

     Þegar um er að ræða áhættufjármuni sem eru fjármálagerningar í skilningi 3. mgr. 29. gr. og niðurfærsla í samræmi við 24. gr. hefur ekki farið fram skal upplýsa um bókfært verð og gangvirði einstakra eigna eða flokka eigna. Rökstyðja skal forsendur þess álits að um skammvinna verðlækkun sé að ræða.
     Fyrir fjárfestingar í dóttur- og hlutdeildarfélögum, sbr. 35. gr., skal jafnframt upplýst um gangvirði einstakra eignarhluta eða eignaflokka.

4. gr.

     Á eftir 1. mgr. 52. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í skýrslunni skal gera grein fyrir meginmarkmiðum og stefnu við áhættustýringu, enda geti breytingar á virði fjármálagerninga haft veruleg áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu. Upplýsa skal sérstaklega með hvaða hætti mat á einstökum liðum í reikningsskilum, svo sem afleiðusamningum, byggist á slíkri markmiðssetningu í áhættustýringu og þeim áhættuþáttum sem máli geta skipt við mat á eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu. Gera skal grein fyrir markaðsáhættu, þ.e. vaxta-, gjaldeyris- og hlutabréfaáhættu, sem og útlánaáhættu og lausafjáráhættu í rekstri félagsins.

5. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „1. og 2. tölul. 2. gr.“ í 2. mgr. 89. gr. laganna, sbr. 44. gr. laga nr. 56/2003, kemur: 1. og 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. A.

6. gr.

     Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/65/EB um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE og 86/635/EBE að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð, sem og banka og annarra fjármálastofnana.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda um ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2004 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 16. apríl 2004.