Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1559, 130. löggjafarþing 817. mál: Kennaraháskóli Íslands (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.).
Lög nr. 42 12. maí 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur stunda við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.
     Heimilt er að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal háskólaráð setja reglur. Sama á við um þá sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.
     Kennara má ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt er að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2004.