Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1858, 130. löggjafarþing 945. mál: loftferðir (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 88 9. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     71. gr. a laganna orðast svo:
     Í innanlandsflugi og millilandaflugi skulu lendingargjöld greidd af umráðendum loftfara fyrir afnot loftfara af þeim flugvöllum þar sem flugupplýsingaþjónusta er veitt. Tekjur af lendingargjöldum skulu renna til Flugmálastjórnar.
     Fyrir lendingu loftfars í innanlandsflugi með 2.000 kg hámarksflugtaksmassa eða meiri skal greiða 238 kr. fyrir hver byrjuð 1.000 kg af massa þess fyrir hverja lendingu á flugvöllum sem veita flugupplýsingaþjónustu.
     Fyrir hverja lendingu loftfars í millilandaflugi á flugvöllum utan Reykjavíkur skal greiða gjald, 8,15 bandaríkjadali, fyrir hver byrjuð 1.000 kg af hámarksflugtaksmassa þess, en samsvarandi 10 bandaríkjadölum fyrir hver byrjuð 1.000 kg af hámarksflugtaksmassa loftfars fyrir hverja lendingu í Reykjavík. Stæðisgjöld skulu innheimt samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá sem ráðherra setur.
     Leitar- og björgunarflug, prófflug eftir viðgerð, flug með þjóðhöfðingja og flug loftfara íslenska ríkisins skulu undanþegin gjaldskyldu samkvæmt grein þessari.
     Gjalddagar skulu vera 15. hvers mánaðar vegna gjaldskyldra lendinga í þarnæsta mánuði á undan.
     Flugmálastjórn er heimilt að krefjast greiðslu gjalda samkvæmt grein þessari fyrir brottför loftfars eða krefjast tryggingar fyrir greiðslu gjalda.

2. gr.

     71. gr. b laganna orðast svo:
     Umráðandi loftfars skal greiða sérstakt gjald, öryggisgjald, þar sem vopna- og öryggisleit fer fram, til Flugmálastjórnar Íslands. Gjaldið greiðist fyrir hvern mann sem ferðast með loftfari frá Íslandi til annarra landa. Fjárhæð gjaldsins skal vera 620 kr. fyrir hvern farþega. Fyrir farþega á aldrinum tveggja til tólf ára skal þó greiða 285 kr. Undanþegin gjaldskyldu eru börn yngri en tveggja ára, skráðar áhafnir loftfara, þeir sem viðkomu hafa á Íslandi samkvæmt farseðli milli annarra landa og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi.
     Öryggisgjald fyrir farþega sem ferðast með loftförum sem skráð eru erlendis og öllum loftförum sem ekki er flogið á áætlunarleiðum skal greiða fyrir brottför loftfars. Heimilt er að veita gjaldfrest til 15. dags næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
     Öryggisgjald fyrir farþega sem ferðast í áætlunarflugi á viðurkenndum áætlunarleiðum skal greiða eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
     Ráðherra er heimilt að setja með gjaldskrá nánari reglur um innheimtu gjaldsins.

3. gr.

     X. kafli laganna orðast svo:
     
     a. (86. gr.)
Gildissvið.
     Ákvæði þessa kafla gilda um allan flutning í loftfari á farþegum, farangri og farmi gegn greiðslu. Hann gildir einnig um ókeypis flutning enda annist flytjandi flutning.
     Ákvæði kaflans gilda um innanlandsflug á Íslandi skv. 1. mgr. hver sem flytjandinn er og annað flug skv. 1. mgr. af hálfu flytjenda sem hafa íslenskt flugrekstrarleyfi, hvar sem það er innt af hendi.
     Ákvæði þessa kafla gilda einnig um flutning sem framkvæmdur er af íslenska ríkinu, ríkisstofnunum eða öðrum opinberum aðilum þegar þeir stunda flugrekstur skv. 1. mgr.
     
     b. (87. gr.)
Nánar um gildissvið.
     Ákvæðin um flutningsskjöl í 89.–93. gr. taka eigi til flutninga sem inntir eru af hendi við óvenjulegar aðstæður og falla utan venjulegrar loftferðastarfsemi.
     Ekkert í lögum þessum skal koma í veg fyrir að flytjandi geti neitað gerð flutningssamnings. Hafi flytjandi lofað rýmri rétti en leiðir af ákvæðum þessa kafla skulu þau ekki talin skerða slíkan rétt. Ákvæði kaflans kveða á um lágmarksréttindi.
     Gildissvið 125. og 126. gr. er markað sérstaklega í ákvæðunum sjálfum.
     
     c. (88. gr.)
Póstflutningar.
     Ákvæði kafla þessa gilda eigi um póstflutninga.
     Við flutning bréfa og böggla er flytjandi einungis ábyrgur gagnvart hlutaðeigandi póstþjónustu í samræmi við þær reglur sem gilda um samband flytjanda og póstþjónustu.
     
     d. (89. gr.)
Farseðill og farangursmiði.
     Þegar farþegar eru fluttir skal flytjandi afhenda farseðil eða sameiginlegan farseðil fyrir fleiri en einn farþega þar sem greina skal:
  1. brottfarar- og ákvörðunarstað,
  2. að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi sem brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki.

     Í stað þess að afhenda farseðil svo sem greinir í 1. mgr. má flytjandi varðveita upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. með öðrum hætti. Sé þeirrar heimildar neytt skal flytjandi bjóða farþega skriflega yfirlýsingu um þær upplýsingar sem varðveittar eru.
     Þegar innrituðum farangri er veitt viðtaka til flutnings skal flytjandi gefa út farangursmiða fyrir sérhvern innritaðan hluta farangurs.
     Nú eru ekki færðar sönnur á annað og telst þá farseðill eða yfirlýsing, sé heimildar skv. 2. mgr. neytt, sönnun um gerð farsamnings og flutningsskilmála.
     Farþega skal afhent skrifleg tilkynning um að flutningurinn hlíti ákvæðum Montreal-samningsins eða lögum sem með samsvarandi hætti og samningurinn kunni að takmarka ábyrgð flytjanda á lífs- og líkamstjóni, glötun eða tjóni á farangri og farmi og vegna tafa, með þeim takmörkunum þó sem greinir í lögum þessum.
     Þrátt fyrir að fyrirmælum þessarar greinar sé ekki fylgt er farsamningur eigi að síður gildur, þ.m.t. ákvæði um takmörkun á ábyrgð.
     Ráðherra er heimilt að kveða frekar á um rafræna bókun, útgáfu farseðils og tilkynningu flytjanda skv. 5. mgr. með reglugerð.
     
     e. (90. gr.)
Fylgibréf.
     Þegar farmur er fluttur skal afhenda fylgibréf.
     Í stað þess að afhenda fylgibréf má flytjandi varðveita skráningu upplýsinga um flutning með öðrum hætti. Ef heimildarinnar er neytt skal flytjandi, ef þess er krafist af sendanda, afhenda sendanda kvittun sem gerir kleift að bera kennsl á farm og greinir þær upplýsingar sem varðveittar eru um flutninginn.
     Nú er fylgibréf eigi gefið út eða efni fylgibréfs er eigi það sem mælt er fyrir um, eða fylgibréf hefur glatast, og er þá farmsamningur eigi að síður gildur og háður ákvæðum þessa kafla, þ.m.t. ákvæðum um takmörkun á ábyrgð.
     
     f. (91. gr.)
Efni fylgibréfs.
     Fylgibréf farms eða kvittun fyrir farmi skal tilgreina:
  1. brottfarar- og ákvörðunarstað,
  2. að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi sem brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki,
  3. þyngd farms.

     Ef um fleiri en eitt stykki farms er að ræða:
  1. getur flytjandi farms krafist þess að sendandi gefi út sérstök fylgibréf fyrir hvert og eitt stykki,
  2. getur sendandi krafist þess að flytjandi farms gefi úr sérstakar kvittanir þegar sá háttur er hafður á sem um getur í 2. mgr. 90. gr.

     
     g. (92. gr.)
Skjal er lýsir eðli farms.
     Sendandi kann að verða skyldaður, að kröfu lögreglu, tollyfirvalda eða annarra yfirvalda, til að afhenda skjal sem tilgreinir eðli farms. Ákvæði þessarar greinar leggja engar skyldur eða ábyrgð á flytjanda.
     
     h. (93. gr.)
Útgáfa fylgibréfs.
     Sendandi skal gefa út fylgibréf í þremur frumritum. Á fyrsta eintakið skal rita „handa flytjanda“ og skal það undirritað af sendanda. Á annað eintakið skal rita „handa viðtakanda“ og skal það undirritað af sendanda og flytjanda. Þriðja eintakið skal undirritað af flytjanda sem skal afhenda það sendanda eftir viðtöku farms.
     Undirritanir flytjanda og sendanda mega vera prentaðar eða stimplaðar.
     Nú hefur flytjandi gefið út fylgibréfið að beiðni sendanda og skal þá talið að hann hafi gefið það út í umboði sendanda, nema annað sannist.
     
     i. (94. gr.)
Ábyrgð á efni fylgibréfs.
     Sendandi ber ábyrgð á því að upplýsingar um farm séu réttar, og að rétt sé yfirlýsing um farm sem hann eða aðrir fyrir hans hönd hafa sett í fylgibréf, eða byggist á gögnum sem sendandi kemur til flytjanda og ætlast er til að flytjandi setji í farmkvittun eða skrái þegar heimildar skv. 2. mgr. 90. gr. er neytt. Sama ábyrgðarregla gildir þegar sá aðili sem kemur fram fyrir hönd sendanda er einnig umboðsmaður flytjanda.
     Sendandi skal bera ábyrgð á hvers konar tjóni, sem flytjandi kann að verða fyrir eða aðrir þeir sem flytjandi ber ábyrgð gagnvart, sakir þess að upplýsingar er sendandi hefur gefið eru ónákvæmar, ófullkomnar eða rangar.
     Að öðru leyti en greinir í 1. og 2. mgr. skal flytjandi bera ábyrgð á hvers konar tjóni sem sendandi kann að verða fyrir eða aðrir þeir sem sendandi er ábyrgur gagnvart sakir þess að upplýsingar, sem flytjandi eða aðili fyrir hans hönd setti í farmkvittun eða skráði skv. 2. mgr. 90. gr., reyndust ónákvæmar, ófullkomnar eða rangar.
     
     j. (95. gr.)
Sönnunargildi skjala.
     Fylgibréf er gild sönnun fyrir gerð farmsamnings, viðtöku vöru og skilmálum flutnings, uns annað sannast.
     Upplýsingar í fylgibréfi eða farmkvittun um þyngd, ummál og umbúðir farms, sem og fjölda stykkja, skulu taldar réttar þar til annað sannast. Aðrar upplýsingar um magn, rúmtak og ástand gilda hins vegar ekki sem sönnun gegn flytjanda, nema að því leyti sem fram kemur í fylgibréfi eða farmkvittun að hann hafi í viðurvist sendanda gengið úr skugga um sannleiksgildi þeirra, eða eiga við um sýnilegt ástand farmsins.
     
     k. (96. gr.)
Réttur til ráðstöfunar farms.
     Sendandi hefur, með fyrirvara um þá skyldu að standa við allar skuldbindingar sínar samkvæmt farmsamningi, þann ráðstöfunarrétt yfir farmi að hann getur endurheimt hann á brottfarar- eða ákvörðunarstað, að hann getur stöðvað flutninginn ef lent er á leiðinni, að hann getur látið afhenda farm á ákvörðunarstað eða á leiðinni öðrum en þeim sem tilgreindur er í fylgibréfi sem viðtakandi, eða hann getur krafist þess að farmur verði fluttur aftur til brottfararstaðar. Ráðstafanir þessar getur sendandi þó því aðeins gert að þær hafi eigi í för með sér tjón fyrir flytjanda eða aðra sendendur og að greiddur sé kostnaður sem af því leiðir að hann neyti þessa réttar.
     Sé eigi hægt að framkvæma fyrirmæli sendanda skal flytjandi tilkynna honum það þegar í stað.
     Nú fylgir flytjandi fyrirmælum sendanda um ráðstöfun farms, án þess að krefjast eintaks sendanda af fylgibréfi eða farmkvittun, og er flytjandi þá ábyrgur. Þó skal flytjandi halda rétti sínum til að krefjast bóta af sendanda vegna tjóns sem sá aðili kann að verða fyrir sem hefur eintak sendanda af fylgibréfi eða farmkvittun undir höndum.
     Réttur sendanda fellur niður um leið og réttur viðtakanda skv. 97. gr. hefst. Nú neitar viðtakandi að taka við vöru eða ekki er hægt að ná sambandi við hann og getur þá sendandi haldið ráðstöfunarrétti sínum.
     
     l. (97. gr.)
Afhending farms.
     Með þeirri undantekningu sem um ræðir í 96. gr. getur viðtakandi þegar farmur er kominn á ákvörðunarstað krafist þess að flytjandi láti af hendi við hann fylgibréfið og farm gegn greiðslu þeirra gjalda er hvíla á farminum, enda uppfylli hann öll þau flutningsskilyrði sem greinir í farmsamningi.
     Ef ekki er um annað samið er það skylda flytjanda að tilkynna viðtakanda um komu farms án tafar.
     Nú viðurkennir flytjandi að farmur hafi glatast eða hann ekki komið fram innan sjö daga frá þeim degi er koma hans var áætluð og getur viðtakandi þá neytt þess réttar sem farmsamningur kveður á um gagnvart flytjanda.
     
     m. (98. gr.)
Réttur sendanda og viðtakanda.
     Sendandi og viðtakandi geta hvor um sig nýtt sér þann rétt sem þeir hafa skv. 96. og 97. gr. gegn því að uppfylla þær skuldbindingar sem farmsamningurinn leggur þeim á herðar. Gildir það hvort sem þeir koma fram fyrir eigin hönd eða annarra.
     
     n. (99. gr.)
Tengsl sendanda og viðtakanda eða sameiginleg tengsl við þriðja aðila.
     Ákvæði 96., 97. og 98. gr. varða hvorki tengsl milli sendanda og viðtakanda né sameiginleg tengsl við þriðja aðila sem leiðir rétt sinn frá öðrum hvorum.
     Aðeins má víkja frá ákvæðum 96., 97. og 98. gr. að það sé gert með sérstöku ákvæði í fylgibréfi eða farmkvittun.
     
     o. (100. gr.)
Upplýsingaskylda sendanda.
     Sendanda er skylt að gefa þær upplýsingar og framvísa þeim skjölum sem nauðsynleg teljast til að afgreiðsla toll- og lögregluyfirvalda eða annarra yfirvalda geti farið fram áður en farmur er afhentur viðtakanda. Sendandi ber gagnvart flytjanda ábyrgð á tjóni sem af kann að hljótast skorti slíkar upplýsingar eða skjöl, eða þau reynast ófullkomin eða röng, nema tjónið sé sök flytjanda eða starfsmanna hans.
     Á flytjanda hvílir ekki skylda til að rannsaka hvort upplýsingar eða skjöl séu rétt eða fullnægjandi.
     
     p. (101. gr.)
Gerðardómur.
     Aðilar farmsamnings geta tekið fram í samningi að deilur sem upp kunna að koma hvað varðar ábyrgð flytjanda samkvæmt þessum lögum og Montreal-samningnum skuli lagðar til úrlausnar fyrir gerðardómi. Slíkur samningur skal gerður skriflega.
     Málsmeðferð gerðardóms skal að vali stefnanda fara fram á einhverju því varnarþingi sem um getur í 115. gr. Gerðardómur skal beita ákvæðum Montreal-samningsins og lögum þessum.
     Efni 2. mgr. skal vera hluti sérhvers samnings um að mál skuli lagt í gerð og sérhver áskilnaður í samningi eða samningur sem víkur frá efni þessara málsgreina skal ógildur.
     
     q. (102. gr.)
Ábyrgð flytjanda vegna líf- og líkamstjóns.
     Nú lætur farþegi lífið eða hlýtur líkamsmeiðsl eða heilsutjón af völdum slyss sem verður í loftfari, þá farið er í loftfar eða úr því og ber flytjandi þá ábyrgð á því.
     Flytjandi ber hlutlæga bótaábyrgð á tjóni hvers farþega sem nemur 100.000 SDR eða lægri tjónsfjárhæð.
     Flytjandi skal hins vegar laus úr ábyrgð skv. 1. mgr. vegna hærri tjónsfjárhæða en 100.000 SDR ef hann sannar að:
  1. tjónið orsakaðist ekki af gáleysi, vanrækslu eða annarri saknæmri hegðun flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna, eða
  2. tjónið orsakaðist að öllu leyti af gáleysi, vanrækslu eða annarri saknæmri hegðun þriðja aðila.

     Bótafjárhæðir í tjónstilvikum sem valda örorku eða dauða skulu ákvarðaðar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga.
     Vextir reiknast samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
     
     r. (103. gr.)
Fyrirframgreiðsla.
     Flytjandi skal án tafar og ekki síðar en 15 dögum eftir að ljóst er hver hinn slasaði eða látni er inna af hendi fyrirframgreiðslu til að mæta bráðum fjárhagsþörfum og skal greiðslan taka mið af aðstæðum. Greiðsla þessi skal ekki vera lægri en sem nemur jafnvirði 16.000 SDR í íslenskum krónum vegna hvers farþega sé um dauðsfall að ræða.
     Það að inna fyrirframgreiðslu þessa af hendi jafngildir þó ekki viðurkenningu á ábyrgð og kemur til frádráttar við endanlegt uppgjör bóta vegna slyssins. Hún er þó ekki afturkræf, nema í þeim tilvikum sem greinir í 107. gr., þ.e. að flytjandi sannar að farþegi hafi verið valdur eða samvaldur að slysinu, eða að sá sem greiðsluna fékk hafi ekki átt lögvarið tilkall til hennar.
     
     s. (104. gr.)
Ábyrgð flytjanda á farangri.
     Flytjandi er ábyrgur fyrir tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Flytjandi er ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.
     Flytjandi er ábyrgur fyrir tjóni á óinnrituðum farangri, þar með töldum persónulegum eigum, ef tjón má rekja til sakar hans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
     Ef flytjandi viðurkennir að hafa glatað innrituðum farangri, eða innritaður farangur kemur ekki fram innan 21 dags eftir að áætlað var að hann kæmi á áfangastað, er farþega heimilt að neyta þeirra réttinda sem í farsamningi felast.
     Sé það ekki sérstaklega tekið fram í lögum þessum merkir „farangur“ bæði innritaður og óskráður farangur.
     
     t. (105. gr.)
Ábyrgð flytjanda á farmi.
     Flytjandi er ábyrgur fyrir tjóni sem hlýst af því ef farmur eyðileggst, glatast eða skemmist meðan á loftflutningi stendur.
     Flytjandi skal laus úr ábyrgð að hluta eða öllu leyti ef hann sannar að tjón á farmi skv. 1. mgr. hafi orsakast af eftirfarandi ástæðum, einni eða fleiri:
  1. eðlislægum ágöllum farms,
  2. gölluðum umbúðum farms sem aðrir en flytjandi og starfsmenn hans eða umboðsmenn hafa gengið frá,
  3. stríði eða vopnuðum átökum,
  4. aðgerðum opinberra yfirvalda varðandi farm við brottför, komu eða viðkomu.

     Ábyrgðarregla tekur skv. 1. mgr. ekki til neins konar flutnings á landi, á sjó eða eftir skipgengum vatnaleiðum sem eru utan flugvallar. Ef hins vegar slíkur flutningur á sér stað samkvæmt flutningssamningi, í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm, er tjónsatburður talinn hafa átt sér stað í loftflutningi, nema annað sannist. Ef flytjandi, vegna forfalla, en án samþykkis sendanda, flytur farm með öðrum flutningstækjum en loftförum hluta eða alla leið samkvæmt samningi um loftflutning skal slíkur flutningur vera talinn loftflutningur allt að einu.
     
     u. (106. gr.)
Ábyrgð flytjanda vegna tafa.
     Flytjandi ber ábyrgð á tjóni sem verður af völdum tafa í flutningi á farþegum, farangri og farmi. Þó verður flytjandi ekki talinn bera ábyrgð á tjóni sem orsakast af töfum í flutningi geti hann sannað að hann og starfsmenn hans og umboðsmenn hafi viðhaft þær aðgerðir sem sanngjarnt getur talist að viðhafðar séu eða að ógerlegt hafi verið að framkvæma slíkar aðgerðir.
     
     v. (107. gr.)
Eigin sök tjónþola.
     Nú sannar flytjandi að sá sem fyrir tjóninu varð hafi sjálfur verið valdur eða samvaldur að því og má þá lækka skaðabætur eða fella þær niður.
     
     w. (108. gr.)
Takmarkanir á ábyrgð flytjanda.
     Ábyrgð flytjanda á tjóni sem orsakast af töfum í flutningi á farþegum skv. 106. gr. skal takmörkuð við 4.150 SDR vegna hvers farþega.
     Ábyrgð flytjanda vegna þess að farangur glatast, eyðileggst, skemmist eða tefst skal takmörkuð við 1.000 SDR vegna hvers farþega, nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farangurs á ákvörðunarstað og greitt umkrafið aukagjald, og gildir þá hið tilgreinda verðmæti sem hámark á ábyrgð flytjanda, nema hann sanni að raunverulegir hagsmunir farþega hafi verið minni.
     Ábyrgð flytjanda vegna þess að farmur glatast, eyðileggst, skemmist eða tefst skal takmörkuð við 17 SDR á hvert kíló, nema sendandi hafi sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farms á áfangastað og greitt umkrafið aukafarmgjald. Gildir þá hið tilgreinda verðmæti sem hámark á ábyrgð flytjanda, nema hann sanni að raunverulegir hagsmunir sendanda hafi verið minni.
     Nú eyðileggst, glatast, skemmist eða tefst farmur eða hluti farms og skal þá aðeins leggja þunga þess farms sem eyðileggst, glatast, skemmist eða tefst til grundvallar við ákvörðun á hámarksábyrgð flytjanda. Nú er um að tefla glötun, spjöll eða seinkun á hluta varnings sem lækkar verðmæti annarra hluta farms sem sami farangursmiði eða sama fylgibréf eða kvittun tekur til, eða ef slík skjöl voru ekki gefin út, heldur neytt heimildar skv. 2. mgr. 90. gr., og skal þá við ákvörðun hámarksábyrgðar einnig telja til heildarþunga þann hluta farmsins sem rýrnar í verði.
     Ef sannast að flytjandi, starfsmenn eða umboðsmenn hans hafa við framkvæmd starfa síns valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi vitandi að tjón mundi sennilega hljótast af skal eigi beita ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
     Heimilt er dómara að dæma sækjanda málskostnað án tillits til hámarksábyrgðar. Þetta gildir þó eigi ef flytjandi hefur áður en sex mánuðir eru liðnir frá því er atburður sá gerðist er tjónið hlaust af eða áður en mál er höfðað boðið sækjanda skriflega skaðabætur sem eigi eru lægri en dæmd fjárhæð að undanskildum málskostnaði.
     
     x. (109. gr.)
Frestir og fyrning.
     Þegar tekið er við innrituðum farangri eða farmi án fyrirvara af hálfu viðtakanda skal talið að farangurinn eða farmurinn hafi verið óskemmdur og í samræmi við fylgibréf eða kvittun þegar heimildar skv. 2. mgr. 89. gr. og 2. mgr. 90. gr. er neytt, uns annað sannast.
     Verði tjón ber viðtakanda að tilkynna flytjanda það jafnskjótt og þess verður vart, í síðasta lagi sjö dögum eftir viðtöku ef um innritaðan farangur er að ræða og fjórtán dögum ef um farm er að ræða. Ef um töf er að ræða skal tilkynning hafa borist í síðasta lagi tuttugu og einum degi frá því að farangur eða farmur hefði átt að vera afhentur. Dagur merkir almanaksdagur.
     Sérhver tilkynning skal gerð skriflega og með sannanlegum hætti innan áðurnefndra tímafresta.
     Nú er tjón eigi tilkynnt áður en liðnir eru tímafrestir þeir sem um getur í 2. mgr. og fellur þá niður sérhver krafa á flytjanda, nema hann hafi farið sviksamlega að ráði sínu.
     Réttur til skaðabóta samkvæmt þessum kafla fyrnist ef mál er eigi höfðað áður en tvö ár eru liðin frá því er loftfar kom á ákvörðunarstað eða tvö ár eru liðin frá þeim degi er loftfar skyldi koma þangað eða frá því að flutningur stöðvaðist.
     
     y. (110. gr.)
Umreikningur sérstakra dráttarréttinda (SDR).
     Með SDR er vísað til sérstakra dráttarréttinda, eins og þau eru skilgreind af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og gengisskráningar Seðlabanka Íslands á þeim við sölu. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við dómsuppsögudag, en uppgjörsdag ljúki máli án dóms.
     
     z. (111. gr.)
Takmarkanir á ábyrgð, ógild ákvæði og frelsi til samningsgerðar.
     Flytjanda skal heimilt að taka á sig ríkari flutningsábyrgð en um getur í lögum þessum eða ákveða að alls engar takmarkanir gildi.
     Ógildur er áskilnaður eða fyrirvari sem miðar að því að leysa flytjanda undan ábyrgð eða kveður á um frekari ábyrgðartakmarkanir en greinir í Montreal-samningnum og lögum þessum. Þá skulu ógildir vera fyrirvarar í flutningssamningi og samningar gerðir áður en tjón verður þar sem aðilar víkja frá ákvæðum Montreal-samningsins eða lögum þessum, þ.m.t. ákvæðum um varnarþing. Slíkur áskilnaður skal vera ógildur, en ógildi slíks áskilnaðar hefur ekki í för með sér ógildi samnings í heild sinni sem skal vera háður ákvæðum Montreal-samningsins og þessara laga.
     
     þ. (112. gr.)
Starfsmenn og umboðsmenn.
     Nú eru starfsmenn eða umboðsmenn flytjanda sóttir til fébóta fyrir tjón sem á undir Montreal-samninginn eða lög þessi og skal þeim þá heimilt, geti þeir sannað að þeir hafi framkvæmt störf sín innan verksviðs síns, að bera fyrir sig þær ábyrgðarleysisástæður og takmarkanir á bótaábyrgð sem flytjanda sjálfum er heimilt að bera fyrir sig samkvæmt ákvæðum Montreal-samningsins og lögum þessum.
     Heildarfjárhæð þeirra skaðabóta sem starfsmönnum og umboðsmönnum flytjanda er gert að greiða skal ekki fara fram úr gildandi ábyrgðartakmörkunum.
     Að farmtjóni undanskildu skal 1. og 2. mgr. ekki beitt ef sannað er að tjón hafi orðið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi starfsmanna flytjanda eða umboðsmanna hans.
     
     æ. (113. gr.)
Grundvöllur bótakröfu.
     Í málssókn á hendur flytjanda til heimtu bóta vegna tjóns sem verður við loftflutninga á farþegum, farangri eða farmi, sem fellur undir gildissvið þessa kafla, verða málsástæður, lagarök og dómsúrlausn aðeins byggð á ákvæðum þessa kafla og á Montreal-samningnum.
     
     ö. (114. gr.)
Endurkröfuréttur gegn þriðja manni.
     Ekkert í Montreal-samningnum né lögum þessum skal koma í veg fyrir endurkröfurétt þess aðila sem ábyrgur telst.
     
     aa. (115. gr.)
Varnarþing.
     Skaðabótamál samkvæmt lögum þessum verður einungis höfðað fyrir íslenskum dómstól eða fyrir dómstól í ríki sem gerst hefur aðili að Montreal-samningnum.
     Skaðabótamál skal höfða að vali stefnanda:
  1. á heimilisvarnarþingi flytjanda eða þar sem flytjandi hefur aðalskrifstofu sína eða útibú,
  2. þar sem flutningssamningur var gerður eða
  3. á ákvörðunarstað.

     Ef um andlát, líkamsmeiðsl eða heilsutjón farþega er að ræða má höfða mál á þeim varnarþingum sem um getur í 2. mgr. eða fyrir dómstól í aðildarríki Montreal-samningsins þar sem farþegi átti aðalaðsetur eða fast aðsetur er slys varð. Það er þó enn fremur háð þeim skilyrðum að flytjandi hafi með höndum flutning farþega í lofti til eða frá því ríki, annaðhvort með sínum eigin loftförum eða loftförum annars flytjanda samkvæmt viðskiptasamningi, og viðsemjandi samningsbundna flytjandans annist flutning í lofti til eða frá þessu ríki annaðhvort frá eigin starfsstöð eða starfsstöð sem hann hefur á leigu frá þriðja flytjanda samkvæmt samningi.
     Beita skal eftirgreindum hugtakaskýringum:
  1. viðskiptasamningur: samningur, sem ekki er umboðssamningur, gerður milli flytjenda sem varðar sameiginlega þjónustu þeirra að farþegaflutningum í lofti,
  2. aðalaðsetur eða fast aðsetur: einn fastur og varanlegur dvalarstaður farþega er slys verður; þjóðerni farþega skal ekki vera ákvörðunarástæða í þessu samhengi.

     Leyst skal úr öllum réttarfarságreiningi samkvæmt lögum þess ríkis þar sem mál er höfðað.
     
     bb. (116. gr.)
Gagnfær flutningur.
     Ef fleiri flytjendur en einn eiga hver á eftir öðrum að annast flutning sem fellur undir ákvæði þessa kafla skal hver flytjandi fylgja ákvæðum hans um flutninginn er hann tekur við farþegum, farangri eða farmi. Skal hver hlutaðeigandi flytjandi talinn aðili að flutningssamningi að því marki sem samningur varðar þann hluta flutnings sem flytjanda ber að annast.
     Við þær aðstæður sem lýst er í 1. mgr. getur farþegi, eða þeir er taka við réttindum hans, beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist þann hluta flutningsins þar sem tjón eða töf varð, enda hafi sá flytjandi sem annaðist upphafsáfanga flutningsins eigi með beinum samningi tekið á sig víðtækari ábyrgð en hvað varðar eigin flutningsþátt.
     Hvað varðar tjón við flutning á farangri eða farmi getur farþegi eða sendandi þó jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist upphafsáfanga flutningsins og sá sem rétt á til afhendingar farangurs eða farms getur jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem tók að sér lokaáfanga flutnings. Aðilar geta að auki beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist flutninginn er tjón varð. Ábyrgir flytjendur bera óskipta ábyrgð gagnvart farþega, sendanda eða viðtakanda.
     
     cc. (117. gr.)
Fjölþátta flutningur.
     Nú fer flutningur að nokkru fram með loftfari og að nokkru með öðru flutningstæki og taka ákvæði þessa kafla einungis til þess hluta flutnings sem fram fer í lofti.
     Taka má upp í ákvæði samnings um flutning í lofti skilmála er varða aðrar tegundir flutnings.
     
     dd. (118. gr.)
Flutningur sem framkvæmdur er af öðrum en samningsbundnum flytjanda.
     Bæði flytjandi sem gert hefur flutningssamninginn (samningsbundinn flytjandi) og flytjandi sem að hluta eða öllu leyti annast flutninginn (flytjandi í raun) skulu teljast flytjendur samkvæmt ákvæðum þessa kafla, enda framkvæmi flytjandi í raun flutninginn samkvæmt heimild frá samningsbundna flytjandanum. Álitið skal að slík heimild sé fyrir hendi, nema annað sannist.
     Ef flytjandi í raun framkvæmir allan eða hluta flutningsins samkvæmt flutningssamningi milli samningsbundins flytjanda og aðila skulu báðir flytjendur, sá raunverulegi og sá samningsbundni, teljast flytjendur samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Sá flytjandi er gert hefur flutningssamninginn skal talinn flytjandi allan loftflutninginn en sá sem framkvæmir flutninginn í raun skal talinn flytjandi á þeim hluta loftflutningsins er hann annast.
     
     ee. (119. gr.)
Sameiginleg ábyrgð.
     Athafnir og athafnaleysi raunverulegs flytjanda og starfsmanna hans og umboðsmanna sem eru innan verksviðs þeirra hvað varðar flutning flytjanda í raun skal fara með sem aðgerðir og aðgerðaleysi samningsbundins flytjanda.
     Athafnir og athafnaleysi samningsbundins flytjanda og starfsmanna hans og umboðsmanna sem eru innan verksviðs þeirra, og varða flutning flytjanda í raun, skal farið með sem aðgerðir og aðgerðaleysi flytjanda í raun. Allt að einu skal raunverulegur flytjandi ekki ábyrgur umfram þær reglur vegna slíkra athafna og athafnaleysis sem greinir í 102., 108. og 110. gr. Hvers konar samkomulag þar sem samningsbundinn flytjandi tekst á hendur ríkari ábyrgð en lög þessi leggja honum á herðar, eða samningsbundinn flytjandi fellur frá réttindum eða vörnum sem lög þessi heimila, eða samningsbundinn flytjandi samþykkir sérstaka yfirlýsingu um hagsmuni, sbr. 2. og 3. mgr. 108. gr., skal ekki binda flytjanda í raun, nema hann hafi samþykkt það sérstaklega.
     
     ff. (120. gr.)
Kvartanir og fyrirmæli.
     Kvartanir bornar fram við flytjanda eða fyrirmæli honum gefin samkvæmt ákvæðum þessa kafla skulu hafa sömu þýðingu hvort sem þeim er beint til samningsbundna flytjandans eða hins raunverulega flytjanda. Fyrirmæli þau sem lýst er í 96. gr. skulu hins vegar því aðeins gild að þeim sé beint til samningsbundna flytjandans.
     
     gg. (121. gr.)
Ábyrgð starfsmanna og umboðsmanna.
     Nú er um að ræða flutning sem framkvæmdur er af raunverulegum flytjanda og er þá starfsmönnum og umboðsmönnum hans og samningsbundins flytjanda heimilt, ef þeir sanna að þeir hafi haldið sig innan verksviðs síns, að bera fyrir sig þær varnir sem flytjanda sjálfum er heimilt að bera fyrir sig, nema sannað sé að þeir hafi hagað sér með þeim hætti að takmörkun á bótaábyrgð verði beitt samkvæmt lögum þessum.
     Sé flutningur framkvæmdur af hinum raunverulega flytjanda skulu samanlagðar bætur frá honum, samningsbundna flytjandanum, starfsmönnum og umboðsmönnum ekki verða hærri en sem nemur hæstu upphæð sem hverjum flytjanda yrði samkvæmt lögum þessum gert að inna af hendi. Hver bótaskyldur aðili svarar aðeins til bóta að því hámarki sem fyrir hann gildir.
     
     hh. (122. gr.)
Málshöfðunarreglur.
     Sé flutningur framkvæmdur af raunverulegum flytjanda skal bótakröfum beint að vali stefnanda hvort sem er gegn samningsbundnum flytjanda eða flytjanda í raun, saman eða hvorum fyrir sig.
     Sé aðeins einum flytjanda stefnt skal sá flytjandi eiga rétt til að krefjast samlagsaðildar annarra flytjenda að málinu, enda sé sú krafa sett fram eigi síðar en í greinargerð. Skal þá sakaukasök eða sakir höfða innan eins mánaðar frá því að krafa um samlagsaðild var sett fram að viðlagðri frávísun aðalsakar.
     Mál til heimtu bóta skv. 1. og 2. mgr. skal höfða að vali stefnanda, í aðildarríki Montreal-samningsins, annaðhvort á varnarþingi samningsbundins flytjanda, eins og greinir í 115. gr., eða fyrir dómstól sem hefur lögsögu þar sem flytjandi í raun hefur heimilisvarnarþing eða aðalstarfsstöð sína.
     
     ii. (123. gr.)
Áskilnaður eða fyrirvari um ábyrgð.
     Ógildur er áskilnaður eða fyrirvari sem miðar að því að leysa samningsbundinn flytjanda eða flytjanda í raun undan ábyrgð eða kveður á um frekari ábyrgðartakmarkanir en greinir í Montreal-samningnum og lögum þessum.
     Ekkert í 118.–122. gr. skal hafa áhrif á réttindi og skyldur flytjenda sín á milli, þ.m.t. réttinn til endurkröfu eða skaðabóta.
     
     jj. (124. gr.)
Aukagjald.
     Viðbótarfjárhæðin sem flytjandi getur krafist í samræmi við 2. og 3. mgr. 108. gr., þegar farþegi eða sendandi gefur sérstaka yfirlýsingu um mikilvægi þess að fá farangur eða farm sinn afhentan á áfangastað, skal ákvörðuð samkvæmt gjaldskrá. Hún skal miðuð við þann aukakostnað sem hlýst af því að flytja og tryggja viðkomandi farangur eða farm umfram takmarkanir á bótafjárhæðum í tilvitnuðum ákvæðum. Gjaldskráin skal vera aðgengileg farþegum og sendendum farms.
     
     kk. (125. gr.)
Upplýsingaskylda.
     Allir flytjendur sem selja eða annast loftflutninga á Íslandi eða til og frá landinu skulu láta farþegum í té skriflega á öllum sölustöðum, þ.m.t. við símsölu og við sölu á netinu, upplýsingar um:
  1. helstu ákvæði sem gilda um bótaábyrgð á farþegum og farangri þeirra, þ.m.t. mörk bótaábyrgðar á lífs- og líkamstjóni og eyðileggingu, tapi eða skemmdum á farangri, auk tafa,
  2. frest til að gera kröfu um bætur og
  3. möguleika á því að setja fram sérstaka yfirlýsingu varðandi farangur á öllum sölustöðum.

     Hvað varðar flytjendur með útgefin flugrekstrarleyfi utan EES og aðildarríkja EFTA tekur ákvæði þetta eingöngu til loftflutnings til, frá og innan Íslands.
     Nú býður flytjandi farþegum rýmri bótarétt en lög þessi kveða á um og skal þá þeim aukna rétti lýst.
     Ferða- og samningsskilmálar skulu ávallt vera farþegum til reiðu á einfaldan og skýran hátt á vefsíðu og söluskrifstofum flytjanda, hjá umboðsaðilum hans, ferðaskrifstofum og við innritunarborð til brottfarar.
     Ráðherra skal heimilt að kveða nánar á um upplýsingaskyldu flytjanda með reglugerð.
     
     ll. (126. gr.)
Bætur vegna umframskráningar og niðurfellingar flugs.
     Flytjendum, sem fljúga til eða frá landinu eða innan Íslands, skal skylt að greiða bætur til farþega sem vísað er frá flugi vegna umframskráningar og niðurfellingar flugs, enda hafi farþegi farseðil í fullu gildi, staðfesta farskráningu með fluginu sem um ræðir og hafi komið til skráningar á tilskildum tíma.
     Flytjendum skal ekki skylt að greiða bætur til farþega sem vísað er frá ef farþegi ferðast endurgjaldslaust eða á afsláttarverði sem ekki stendur almenningi til boða.
     Nánar skal kveðið á um bætur vegna umframskráningar og niðurfellingar flugs og um frávísun farþega, fyrirkomulag bótagreiðslna, ferðatilhögun, upphæð bóta og aðrar úrbætur til handa farþega með reglugerð.
     
     mm. (127. gr.)
Lagaskil.
     Í kafla þessum skal flutningur talinn vera milli landa samkvæmt flutningssamningi þegar brottfararstaður og ákvörðunarstaður eru innan tveggja samningsríkja Montreal-samningsins og gildir það einnig þótt hlé verði á flutningnum eða skipt sé um loftfar. Sé brottfararstaður og ákvörðunarstaður innan landsvæða sama samningsríkis skal flutningurinn talinn vera milli landa ef lenda þarf innan annars ríkis á leiðinni, enda þótt það ríki sé eigi aðili að Montreal-samningnum. Ekki skal flutningur án slíkrar viðkomu teljast millilandaflutningur.
     Flutningur, sem framkvæmdur er af mörgum flytjendum hverjum á eftir öðrum, skal talinn óslitinn samkvæmt lögum þessum ef aðilar flutningssamnings hafa litið svo á að um einn og sama flutninginn sé að ræða, hvort sem einn eða fleiri samningar hafa verið um það gerðir, og það breytir ekki stöðu flutningssamningsins þótt einn þáttur flutnings eða fleiri hafi alfarið verið innan landsvæðis sama ríkisins.
     Með Montreal-samningnum í lögum þessum er átt við samning um alþjóðaloftflutninga sem gerður var í Montreal 28. maí 1999. Skulu ákvæði Montreal-samningsins og lög þessi að öllu leyti ganga framar eftirgreindum reglum sem gilda um loftflutninga milli landa sem aðildarríki Montreal-samningsins eru aðilar að:
  1. Varsjársamningnum sem gerður var um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa í Varsjá 12. október 1929,
  2. bókun sem undirrituð var í Haag 28. september 1955,
  3. viðbótarsamningi um samræmingu tiltekinna reglna um loftflutninga milli landa sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi annast, sem undirritaður var í Gvadalajara 18. september 1961,
  4. bókuninni um breytingar á Varsjársamningnum frá 1929 og Haag-bókuninni frá 1955 sem undirrituð var í Gvatemala 8. mars 1971,
  5. viðbótarbókunum nr. 1–3 og 4 sem undirritaðar voru í Montreal 25. september 1975, eða
innan yfirráðasvæðis aðildarríkis Montreal-samningsins sem er aðili að einum eða fleiri gerningum sem um getur í a–e-lið hér að framan.
     Nú er brottfarar- eða ákvörðunarstaður í ríki sem ekki er aðili að Varsjársamningnum frá 1929 og skal þá ákvæðum kaflans beitt gagnvart slíku flugi.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 131. gr. laganna:
  1. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Vátryggingarfjárhæðir skulu tryggja bætur samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
  2. 4. mgr. fellur brott.


5. gr.

     4. og 5. mgr. 139. gr. laganna falla brott.

6. gr.

     Á eftir 145. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn tekur þátt í starfi Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) með það m.a. að markmiði að auka öryggi í flugi, draga úr mengun frá flugvélum og koma að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda í starfi stofnunarinnar.
     Samgönguráðherra skal setja reglugerð, sbr. 1. mgr., sem felur í sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002, um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, verði innleidd í íslenskan rétt.

7. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I–IV í lögunum falla brott.

8. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.