Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1445, 131. löggjafarþing 697. mál: virðisaukaskattur o.fl. (vetnisbifreiðar).
Lög nr. 72 24. maí 2005.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

     Í stað orðanna „31. desember 2005“ í ákvæði X til bráðabirgða í lögunum kemur: 31. desember 2006.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Heimilt er að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af vetnisbifreiðum, svo og sérhæfðum varahlutum í þær, sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimild þessi nær eingöngu til vetnisbifreiða sem hafa í för með sér hverfandi mengun og gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

3. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Í stað upphæðarinnar „120.000“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 240.000.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, eru undanþegin gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum. Undanþága þessi gildir til 31. desember 2008.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Heimilt er að fella niður eða endurgreiða vörugjald af sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimildin gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Heimilt er að fella niður eða endurgreiða toll af sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Heimildin gildir til 31. desember 2008. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirgjafarinnar.

V. KAFLI

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.