Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1471, 131. löggjafarþing 699. mál: loftferðir (EES-reglur).
Lög nr. 75 24. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. C-liður orðast svo: Það hafi leyfi frá samgönguráðherra eða þeim sem hann felur leyfisveitinguna til ferðar um íslenskt yfirráðasvæði.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Leyfi skv. c-lið 1. mgr. má binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast og eru slík leyfi afturkallanleg án fyrirvara. Samgönguráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd leyfisveitinga.


2. gr.

     1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Loftfar skal eigi skrásetja nema það hafi tegundarskírteini sem Flugmálastjórn Íslands eða Flugöryggisstofnun Evrópu hefur gefið út eða metið gilt.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
  1. Orðin „smíði loftfara, búnaðar, tækja og varahluta þeirra og“ og „eða framleiðendum“ í 1. mgr. falla brott.
  2. Orðin „framleiðendur og“ í 2. mgr., „framleiðenda og“ í 4. mgr., „framleiðendum og“ í 5. mgr. og „framleiðandi eða“ í 6. mgr. falla brott.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um lofthæfi, þ.m.t. um vottun loftfara, íhluta og búnaðar, um viðurkenningu á viðhaldsstöðvum og skilyrði hennar og um hæfniskröfur til starfsfólks á þessu sviði.


4. gr.

     Í stað orðsins „flugliða“ í 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: flugmanna.

5. gr.

     47. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tilkynningarskylda.
     Öll flugslys, flug- eða flugumferðaratvik önnur en þau sem tilkynna ber til rannsóknarnefndar flugslysa, sbr. lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, skulu tilkynnt til Flugmálastjórnar Íslands. Á þetta m.a. við um flug- eða flugumferðaratvik eða önnur þau atvik sem, ef ekki leiðrétt, hefðu valdið hættu fyrir loftfar, farþega þess og farm eða aðra utan þess eða ef hætta hefur vofað yfir flugvelli eða flugleiðsögubúnaði eða rekstri þeirra.
     Tilkynningarskylda skv. 1. mgr. hvílir á flugstjóra eða öðrum starfsmönnum flugrekanda eða skráðum umráðanda loftfars í loftfaraskrá ef fyrrnefndum aðilum er eigi unnt að sinna þeirri skyldu. Jafnframt hvílir hún á starfsmönnum á flugvelli, flugumferðarstjórum, viðhaldsaðilum eða öðrum starfsmönnum í öryggistengdum störfum og ber þeim tafarlaust að sjá um að tilkynnt sé og að gefa síðan skýrslu svo fljótt sem verða má.
     Samgönguráðherra er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningarskylduna, m.a. um til hvaða atvika tilkynningar skuli ná, að skyldan taki til fleiri aðila, um form úrvinnslu, tímamörk og birtingu skýrslna á grundvelli tilkynninga og annað er máli kann að skipta til að rekja megi orsakir atvika.
     Samgönguráðherra er einnig heimilt að setja reglur um að þeir aðilar sem tilkynningarskyldir eru skv. 2. mgr. geti tilkynnt hvers kyns truflanir á starfsemi, rekstri, stjórn eða viðhaldi loftfars eða flugleiðsöguþjónustu sem áhrif gætu haft á flugöryggi án þess að það hafi leitt til tilkynningarskylds atviks.

6. gr.

     Á eftir 47. gr. laganna kemur ný grein, 47. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Gagnagrunnur um tilkynnt atvik.
     Upplýsingar um atvik sem tilkynningarskyld eru skv. 47. gr. skulu varðveittar í sérstökum gagnagrunni til að auðvelda úrvinnslu upplýsinga til eflingar flugöryggi. Óheimilt er að setja í gagnagrunninn upplýsingar um nafn tilkynnanda.
     Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingum eða tilkynningum sem berast skv. 47. gr. Þetta á ekki við um upplýsingar sem veittar eru til erlendra ríkja, stofnana eða samtaka á grundvelli alþjóðasamninga eða skuldbindinga ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi. Heimilt er að veita rekstraraðila aðgang að upplýsingum er varða starfsemi hans.
     Samgönguráðherra er heimilt að setja nánari reglur um gagnagrunninn, m.a. um aðgang og úrvinnslu á grundvelli gagna í honum.

7. gr.

     Á eftir 57. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi, ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (57. gr. a.)
Flugleiðsöguþjónusta o.fl.
     Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar-, fjarskipta- og ratsjárþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og flugupplýsingaþjónustu. Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu er hver sá opinber aðili, stofnun eða fyrirtæki sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir flugumferð. Flugleiðsöguþjónusta og búnaður hennar skal fullnægja kröfum og stöðlum sem samgönguráðherra setur í reglugerð eða gilda samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Nú vill aðili hefja starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og skal þá umráðamaður og/eða eigandi sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands minnst þremur mánuðum fyrir upphaf þjónustunnar.
     Að fullnægðum þeim kröfum og stöðlum sem Flugmálastjórn metur fullnægjandi skal gefa út starfsleyfi. Í leyfi skal m.a. koma fram nafn leyfishafa og gildistími ásamt takmörkunum og skilyrðum sem í leyfinu felast. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
     Flugmálastjórn Íslands, eða aðili sem hún samþykkir, skal hafa eftirlit með því að rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu uppfylli gerðar kröfur og sinni þeim skyldum sem hann tekur að sér. Stofnunin getur m.a. í því skyni beitt úrræðum 84. gr.
     Gjaldtaka Flugmálastjórnar Íslands fyrir starf stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal miðast við að eftirlitsskyldir aðilar standi undir kostnaði við starfið.
     Ákvæði greinarinnar gilda einnig um skólastarfsemi á sviði flugleiðsöguþjónustunnar eftir því sem við á.
     
     b. (57. gr. b.)
Flugafgreiðsla.
     Á flugvöllum sem eru opnir fyrir flugumferð í atvinnuskyni og þar sem fjöldi farþega og magn farms er yfir nánar tilgreindum mörkum skal heimilt að gera hlutaðeigandi leyfishafa að tryggja jafnt aðgengi að flugafgreiðslu í samræmi við reglur sem samgönguráðherra setur. Þar skal m.a. tiltaka lágmarksviðmið varðandi fjölda farþega og magn farmflutnings, takmörkun á fjölda þjónustuaðila og val á þeim, fyrirmæli um eigin afgreiðslu, um útboð þjónustu, bann við tiltekinni þjónustu eða takmarkanir á henni og aðskilnað í bókhaldi.
     
     c. (57. gr. c.)
Afgreiðslugeta flugvalla.
     Flugmálayfirvöld skulu taka til athugunar skipulag afgreiðslugetu flugvallar og bæta úr ef þess er kostur í samræmi við reglur sem samgönguráðherra setur:
  1. ef hún er ófullnægjandi fyrir núverandi eða áætlaða flugumferð á tilteknum tímabilum,
  2. þegar nýir flugrekstraraðilar eiga í erfiðleikum með að fá þar afgreiðslutíma,
  3. ef tilmæli þess efnis hafa borist frá flugrekstraraðilum sem sjá um meira en helming af flugumferð um flugvöllinn eða
  4. vegna tilmæla frá flugvallarstjórn.

     Í reglunum skal m.a. koma fram hvernig standa skuli að mati á afkastagetu, úthlutun afgreiðslutíma og breytingum þar á.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Óheimilt er að flytja hvers kyns hluti, tæki eða tól inn á haftasvæði flugverndar eða um borð í loftfar ef af getur stafað ógn eða hætta fyrir öryggi flugs og/eða farþega nema þeir teljist nauðsynlegir fyrir starfrækslu loftfarsins eða vegna skyldustarfa um borð. Samgönguráðherra skal setja reglugerð um bannaða hluti, um í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá banninu, um meðferð, geymslu og eyðingu þeirra og um miðlun upplýsinga til flugfarþega og eigenda farms.
  3. Á eftir orðunum „í farmi og farangri“ í 3. og 4. málsl. 2. mgr. kemur: pósti og rekstrarvörum; og orðið „hans“ í sömu málsliðum fellur brott.
  4. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Flugmálayfirvöldum er heimilt að setja reglur um takmarkaðan aðgang starfsmanna að flugvöllum og flugvallarsvæðum, vegna flugverndar, sem leiðir m.a. af athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um sakarferil. Athugunin skal framkvæmd af lögregluyfirvöldum samkvæmt beiðni frá viðkomandi flugvallaryfirvaldi.
         Samgönguráðherra setur reglur um flugvernd, hvaða aðilar séu eftirlitsskyldir, um flugverndaráætlun og um framkvæmd slíkrar áætlunar.


9. gr.

     78. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Hergögn og vopnaðir verðir.
     Hergögn má eigi flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra eða þess sem hann felur leyfisveitinguna samkvæmt reglum þar um. Bann þetta á ekki við um loftför Landhelgisgæslu Íslands eða íslenskra lögregluyfirvalda. Samgönguráðherra setur fyrirmæli um hvað telst hergögn og veitir almenna undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar í samráði við dómsmálaráðherra.
     Skotvopn og skotfæri eru hergögn samkvæmt þessari grein. Ríkislögreglustjóri setur í samráði við samgöngu- og dómsmálaráðherra reglur um meðferð þeirra um borð í íslenskum loftförum og loftförum innan íslenskrar lofthelgi, m.a. um hverjir megi bera þau og í hvaða tilvikum og hvernig að því skuli staðið.
     Samgönguráðherra getur ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmála- og utanríkisráðherra mæli með því.
     Samgönguráðherra er heimilt að banna eða setja reglur um flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi.

10. gr.

     Við 80. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samgönguráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð að nánar tiltekin flugstarfsemi skuli vegna almannaöryggis leyfisskyld þótt hún sé ekki rekin í atvinnuskyni.

11. gr.

     Á eftir 85. gr. laganna kemur ný grein, 85. gr. a, svohljóðandi:
     Samgönguráðherra er heimilt að setja frekari reglur til fyllingar ákvæðum þessa kafla þar sem fram komi skilyrði flugrekstrar, þ.m.t. þær fjárhagskröfur sem gerðar eru til flugrekenda. Þá er ráðherra heimilt að ákveða að hvaða marki kröfum til flugrekenda í flutningaflugi skuli beitt um aðra þætti flugstarfsemi í atvinnuskyni.

12. gr.

     Orðin „og lögum þessum“ í 2. mgr. 101. gr. laganna falla brott.

13. gr.

     Við 141. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Aðila sem tilkynnir, í samræmi við ákvæði 47. gr., innan 72 klst. um atvik sem ekki hafa leitt til flugslyss eða alvarlegs flug- eða flugumferðaratviks, verður ekki refsað eða hann beittur viðurlögum þótt um sé að ræða brot á ákvæðum laga þessara eða á reglum settum á grundvelli heimilda í lögum þessum, nema ásetningi, stórfelldu gáleysi, neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja sé til að dreifa.
     Tilkynningu um atvik sem ekki verður refsað fyrir, sbr. 2. mgr., skal ekki beitt sem sönnunargagni í opinberu máli.

14. gr.

     Á eftir 146. gr. laganna kemur ný grein, 146. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Styrkveitingar til áætlunarflugs.
     Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur um styrkveitingar til áætlunarflugs til jaðarsvæða eða á flugleiðum til flugvalla með litla flugumferð. Kveða skal nánar á um mat þarfar, fargjöld, útboð þjónustunnar og önnur kjör. Um fjárframlög fer samkvæmt samgönguáætlun og fjárlögum.

15. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Starfsleyfis á grundvelli a-liðar 7. gr. laga þessara (57. gr. a laganna) skal aflað eigi síðar en 1. júlí árið 2006.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.