Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1473, 131. löggjafarþing 738. mál: fjarskipti (fjarskiptaáætlun o.fl.).
Lög nr. 78 24. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Samgönguráðherra leggur á þriggja ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun sem leggur grunn að framþróun íslensks samfélags með því að bjóða bestu, ódýrustu og öruggustu rafrænu samskiptin með beitingu fjarskipta- og upplýsingatækni. Í fjarskiptaáætlun skal skilgreina markmið stjórnvalda sem stefna skuli að og gera grein fyrir ástandi og horfum í fjarskiptamálum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir næstu sex ár. Þá skal í fjarskiptaáætlun meta og taka tillit til þarfa annarra þátta samfélagsins fyrir bætt fjarskipti.
     Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
  1. ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og samgönguráðuneytisins um stefnumótun í fjarskiptamálum,
  2. auka samkeppnishæfni Íslands og samkeppni á fjarskiptamarkaði,
  3. stuðla að framþróun atvinnulífs á sviðum sem tengjast fjarskiptum,
  4. ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
  5. ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
  6. tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn.

     Við gerð fjarskiptaáætlunar skal taka mið af því að fjármunir nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf á úrbótum í landinu í heild og í einstökum landshlutum. Áætlun um fjáröflun og útgjöld fjarskiptaáætlunar skal skipt á tvö þriggja ára tímabil og hana skal endurskoða á þriggja ára fresti.
     Samgönguráðherra skipar fjarskiptaráð til þriggja ára í senn og er hlutverk þess m.a.:
  1. að vera samráðsvettvangur hagsmunaaðila um bætt fjarskipti,
  2. að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um fjarskiptamál,
  3. að veita ráðuneytinu umsagnir um fjarskiptamál, breytingar á löggjöf, stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda og fjarskiptaáætlun,
  4. að beita sér fyrir samvinnu við þá aðila, félög og samtök er um fjarskiptamál og öryggi fjalla,
  5. annað sem ráðherra felur því.

     Samgönguráðherra skipar tvo fulltrúa í fjarskiptaráð án tilnefningar. Skal annar vera formaður en hinn varaformaður. Aðra fulltrúa í ráðinu skipar ráðherra úr hópi helstu hagsmunaaðila eftir tilnefningu í samræmi við reglur sem hann setur þar um.

2. gr.

     Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Fjarskiptafyrirtæki skulu án endurgjalds tryggja þar til bærum yfirvöldum aðgang að búnaði til hlerunar símtala og annarrar löglegrar gagnaöflunar í fjarskiptanetum sínum eða fjarskiptaþjónustu.
     Fjarskiptafyrirtækjum sem hafa umtalsverðan markaðsstyrk í aðgangi og upphafi símtala í almennum talsíma- eða farsímanetum ber að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum annarra fjarskiptafyrirtækja um aðgang að búnaði til að fullnægja skyldu skv. 6. mgr. Gjöld fyrir aðgang skulu byggjast á kostnaði, þ.m.t. eðlilegri arðsemi af bundnu fjármagni. Náist ekki samkomulag um aðgang getur aðili vísað málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar sem ákveður hvort aðgangur skuli veittur og á hvaða verði.

3. gr.

     1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
     Ef fjarskiptafyrirtæki telur að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 20. gr., sé rekin með tapi og því ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur það sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Við útreikninga á kostnaði við alþjónustu skal m.a. taka mið af markaðsávinningi af því að veita þjónustuna. Nánar skal kveðið á um útreikninga á kostnaði við alþjónustu í reglugerð um alþjónustu, sbr. 20. gr.

4. gr.

     5. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
     Um álagningu og innheimtu, þ.m.t. fyrirframgreiðslu, jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 90/2003, en varðandi viðurlög er sérstaklega vísað til XII. kafla þeirra laga.

5. gr.

     Við 35. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ákvörðun um reikisamning skv. 3. mgr. verður ekki beitt til aðgangs að GSM-farsímastöð sem sett er upp til viðbótar útbreiðslu farsímanets fyrr en tveimur árum eftir að hún er tekin í notkun.

6. gr.

     Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Fjarskiptafyrirtæki sem býður internetþjónustu er skylt að gera áskrifendum sínum, þeim að kostnaðarlausu og ef þeir þess óska, sýnilegt hvenær þeir eru að greiða fyrir gagnaflutning erlendis frá.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 3. mgr. 47. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Fjarskiptafyrirtæki skulu setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði þessarar greinar og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja.


8. gr.

     Við 45. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Póst- og fjarskiptastofnun setur að öðru leyti reglur um skráningu notenda sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum. Að því er varðar farsímakort, sem ekki eru skráð á nafn, er stofnuninni heimilt að setja reglur um skráningu þeirra í samstarfi við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki í því skyni að stuðla að auknu öryggi við notkun farsíma.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 47. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu).
  2. Á eftir orðunum „um fjarskipti skal“ í lokamálslið kemur: að öðru leyti.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „skal leyfisbréfið“ í 3. málsl. kemur: að jafnaði.
  2. Lokamálsliður orðast svo: Ekki þarf leyfisbréf fyrir lágaflsbúnaði sem vinnur á samræmdum tíðnisviðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt að nota megi fyrir slíkan búnað.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  4.      Seljendum leyfisskylds þráðlauss búnaðar ber að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun hver sé kaupandi búnaðarins á því formi og með þeim hætti sem stofnunin samþykkir.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. 5. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Bannað er að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja. Svæði þetta skal vera mílufjórðungs belti hvorum megin við fjarskiptastrenginn. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri innan sömu fjarlægða frá fjarskiptastrengjum.
  2. Í stað orðsins „sæstreng“ í 7. mgr. kemur: fjarskiptastreng.
  3. Í stað orðsins „sæstrengi“ í 8. mgr. kemur: fjarskiptastrengi.
  4. Í stað orðsins „sæstrengsins“ í 9. mgr. kemur: fjarskiptastrengsins.


12. gr.

     Í stað orðanna „umtalsverða markaðshlutdeild“ í 11. tölul. 3. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: umtalsverðan markaðsstyrk.
     Í stað orðanna „umtalsverða hlutdeild“ tvívegis í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: umtalsverðan markaðsstyrk.
     Í stað orðsins „markaðshlutdeildar“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: markaðsstyrks.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 5. gr. laga þessara gilda aðeins um GSM-farsímastöðvar sem settar eru upp eftir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.