Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1449, 131. löggjafarþing 309. mál: meðferð opinberra mála (sektarinnheimta).
Lög nr. 81 24. maí 2005.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 (sektarinnheimta).


1. gr.

     20. gr. laganna orðast svo:
     1. Ákærur, fyrirköll, kvaðningar og aðrar tilkynningar í opinberum málum skulu birtar af einum lögreglumanni eða öðrum starfsmanni lögreglustjóra, fangaverði eða öðrum starfsmanni Fangelsismálastofnunar eða stefnuvotti, nema þær séu birtar á dómþingi eða á annan hátt af dómara. Birting á ákæru og fyrirkalli skal fara fram fyrir þeim manni sjálfum sem í hlut á ef þess er kostur, en ella lögmanni hans samkvæmt umboði eða öðrum lögráða manni sem hefur fengið skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu. Kvaðningar og aðrar tilkynningar má birta á heimili eða dvalarstað þess sem þeim er beint að ef hann hittist ekki sjálfur fyrir. Sá sem birtingu annast vottar hana með áritun á skjal. Þeim sem tekur við birtingu skal afhent endurrit af því skjali í heild sinni sem birt er.
     2. Ef óvíst er um dvalarstað ákærða, en mál sætir þó lögsögu íslenskra dómstóla, má birta ákæru og fyrirkall í Lögbirtingablaði með ákvörðun um stað og stund til þinghalds og með hæfilegum fyrirvara.
     3. Þegar birta þarf dóm skv. 3. mgr. 133. gr. skal hann birtur á dómþingi. Ef svo stendur á sem í 2. mgr. segir má þó birta dóm í Lögbirtingablaði.

2. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „50.000 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 115. gr. a laganna kemur: 100.000 kr.

3. gr.

     Á eftir 115. gr. a laganna kemur ný grein, 115. gr. b, sem orðast svo:
     1. Nú stendur lögregla mann að broti sem hann gengst skýlaust við, skilyrði eru til að ljúka máli samkvæmt því sem segir í 115. gr. og lögregla telur að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 60.000 kr. Getur þá lögregla ákveðið viðurlög við broti samkvæmt reglugerð sem dómsmálaráðherra setur skv. 1. mgr. 115. gr. Lögregla gerir sakborningi ljós þau viðurlög sem við broti liggja og afleiðingar þess að sekt sé ekki greidd með því að afhenda honum skýrslu þar sem fram kemur stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það er framið, þau refsiákvæði sem það varðar við, hvaða sekt og vararefsing liggur við broti og að unnt sé að krefjast fjárnáms ef sekt greiðist ekki eða honum kunni að vera gert að afplána vararefsingu. Ef því er að skipta skal jafnframt kynna sakborningi og tiltaka í skýrslunni hversu mörgum punktum brotið varði samkvæmt reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Sakborningur undirritar skýrsluna og fær afhent afrit hennar. Lögregla getur boðið sakborningi að ljúka þegar máli með greiðslu sektar á vettvangi. Geri sakborningur það ekki skal honum settur tiltekinn frestur í skýrslunni til að greiða hana.
     2. Sekt sem ákveðin er skv. 1. mgr. má fullnægja með aðför eftir því sem segir í 2. mgr. 115. gr.

4. gr.

     3. mgr. 133. gr. laganna orðast svo:
     3. Ákærði skal kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu héraðsdóms sé þess kostur. Sæki ákærði þing telst dómur birtur fyrir honum. Nú verður dómur ekki birtur á þann hátt á dómþingi og ákærða eru þar gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna sem svarar til hærri fjárhæðar en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar og skal þá ákærandi birta honum dóm skv. 20. gr. Ella þarf ekki að birta dóm þótt ekki sé sótt þing af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 151. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þegar annars er þörf á að birta dóm skal sá sem birtir annast þetta.
  2. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ákærði skal lýsa yfir áfrýjun dóms í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, þegar birtingar hefur verið þörf skv. 3. mgr. 133. gr., en ella innan þess tíma frá uppkvaðningu hans.


6. gr.

     168. gr. laganna orðast svo:
     1. Í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur án dóms, skal ef það á við kveða á um skyldu ákærða til að greiða sakarkostnað sem tiltekinn er með ákveðinni heildarfjárhæð í dómi. Þar af skal sérstaklega greina þóknun verjanda og réttargæslumanns með tiltekinni fjárhæð.
     2. Ákærandi skal taka saman yfirlit yfir þau útgjöld sem hlotist hafa af málinu og teljast til sakarkostnaðar. Skal það yfirlit lagt fram á dómþingi áður en mál er tekið til dóms.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara breytist 4. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 82/1998, þannig að á eftir orðinu „lögreglustjóra“ kemur: eða lögreglumanni.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.