Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1283, 132. löggjafarþing 795. mál: Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar (stjórn og rekstur flugvallarins).
Lög nr. 34 15. maí 2006.

Lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.


1. gr.

     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er sérstök stofnun sem annast stjórnun, rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samræmi við ákvæði loftferðalaga og annarra laga eftir því sem við á. Aðsetur stofnunarinnar er þar sem utanríkisráðherra ákveður.
     Flugmálastjórn Íslands annast eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli.
     Sérstakur flugvallarstjóri stjórnar starfsemi og rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og ræður starfsmenn til stofnunarinnar.
     Utanríkisráðherra setur reglugerð þar sem kveðið er nánar á um skipulag og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

2. gr.

     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ber ábyrgð á að starfrækt sé slökkvilið á Keflavíkurflugvelli og annast framkvæmd eldvarnaeftirlits. Um starfsemi slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli gilda ákvæði laga nr. 75/2000, um brunavarnir, eftir því sem við getur átt.
     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er heimilt að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Um slíkt skal gera skriflegan samning sem skal tilkynna til Brunamálastofnunar.
     Utanríkisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um starfsemi slökkviliðs Keflavíkurflugvallar.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006 fyrir utan ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga um loftferðir, nr. 60 10. júní 1998:
  1. Við 1. mgr. 71. gr. a, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2000 og 1. gr. laga nr. 88/2004, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skulu tekjur af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.
  2. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 71. gr. b, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2000 og 2. gr. laga nr. 88/2004, kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Öryggisgjald vegna vopna- og öryggisleitar á Keflavíkurflugvelli skal þó greiðast til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Bjóða skal því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá eftirtöldum deildum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli: Slökkviliði, snjóruðnings- og brautadeild, rafeindadeild, voltadeild og verkfræðideild.
     Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli undirbýr og annast ráðningar í framangreind störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
     Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 2006.