Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1443, 132. löggjafarþing 615. mál: vegabréf (ný gerð vegabréfa, nýr útgefandi o.fl.).
Lög nr. 72 14. júní 2006.

Lög um breyting á lögum um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Útlendingastofnun gefur út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna, sbr. 59. gr. laga nr. 96 15. maí 2002:
  1. Í stað orðsins „Útlendingastofnun“ í 1. mgr. kemur: Þjóðskrá.
  2. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Sýslumenn, lögregla og önnur stjórnvöld taka við umsóknum um vegabréf eftir því sem ráðherra ákveður.
         Þjóðskrá getur falið öðrum að annast einstök verkefni við framleiðslu og skráningu upplýsinga í vegabréfabók.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Tekin skal stafræn mynd af umsækjanda sem varðveitt skal í vegabréfinu. Heimilt er að nota mynd sem umsækjandi leggur fram sjálfur á rafrænu formi, enda uppfylli hún kröfur sem gerðar eru til stafrænna mynda í vegabréfum. Umsækjandi skal jafnframt leggja fram önnur nauðsynleg gögn.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Dómsmálaráðherra getur ákveðið að fingraför umsækjanda skuli skönnuð og varðveitt í vegabréfinu.


4. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldrið er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.

5. gr.

     2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Gildistími almenns vegabréfs skal vera fimm ár frá útgáfudegi en heimilt er að lengja þann tíma eftir því sem ákveðið skal í reglugerð. Gildistími annarra vegabréfa skal ákveðinn í reglugerð.

6. gr.

     Í stað orðsins „Útlendingastofnun“ í 1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 59. gr. laga nr. 96 15. maí 2002, kemur: Þjóðskrá.

7. gr.

     8. gr. laganna, sbr. 59. gr. laga nr. 96 15. maí 2002, orðast svo:
     Þjóðskrá heldur skrá, skilríkjaskrá, um öll útgefin vegabréf og önnur skilríki sem Þjóðskrá er falið að annast útgáfu eða framleiðslu á. Í skilríkjaskrá eru skráðar og varðveittar þær upplýsingar sem safnað er til útgáfu á skilríkjum, þ.m.t. upplýsingar um lífkenni skv. 2. og 3. mgr. 3. gr. Í skilríkjaskrá eru einnig skráðar upplýsingar um útgefin, glötuð og stolin skilríki og heimilt er að skrá þar einfaldar tilvísanir til annarra gagna vegna þeirra aðstæðna sem fjallað er um í 7. gr.
     Opinberum stofnunum er heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu. Þjóðskrá og lögreglu er heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera.
     Stjórnvöldum er heimilt að birta erlendum stjórnvöldum upplýsingar úr skránni sem varða glötuð og stolin skilríki.

8. gr.

     Í stað orðsins „Útlendingastofnun“ í 9. gr. laganna, sbr. 59. gr. laga nr. 96 15. maí 2002, kemur: Þjóðskrá.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 15 14. apríl 2000:
  1. Við bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: kröfur sem gerðar eru til varðveislu, aldurs og forms stafrænna mynda af umsækjanda vegabréfs og skannaðra fingrafara hans, þar á meðal þau skilyrði sem uppfylla þarf samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
  2. E-liður, er verður f-liður, fellur brott og breytist röð annarra liða samkvæmt því.


10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.