Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1507, 132. löggjafarþing 619. mál: almenn hegningarlög o.fl. (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot).
Lög nr. 74 14. júní 2006.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot).


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

1. gr.

     Við II. kafla A laganna bætist ný grein, 19. gr. d, svohljóðandi:
     Ef skilyrðum ákvæða þessa kafla er fullnægt er heimilt að láta lögaðila sæta refsiábyrgð fyrir brot á lögum þessum.

2. gr.

     1. málsl. 4. mgr. 210. gr. laganna, með áorðnum breytingum, orðast svo: Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.

3. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 257. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, orðast svo: Sömu refsingu varðar að senda, breyta, bæta við, þurrka út eða eyðileggja með öðrum hætti án heimildar gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

4. gr.

     Við b-lið 2. mgr. 87. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til aðgerða skv. b-lið 86. gr. er þó nægilegt að brot geti að lögum varðað tveggja ára fangelsi.

5. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 87. gr. a, svohljóðandi:
     1. Í þágu rannsóknar máls þar sem rafræn gögn geta haft sönnunargildi er lögreglu heimilt að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti.
     2. Fyrirmæli lögreglu skv. 1. mgr. geta eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Þar skal koma fram hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi. Fyrirmælin skulu ekki ná til annarra gagna en nauðsynleg eru fyrir rannsóknina, auk þess sem varðveisluskyldu skal markaður svo skammur tími sem unnt er og ekki lengri en 90 dagar.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 81 26. mars 2003.

6. gr.

     Við 47. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild.
     Starfsmenn fjarskiptafyrirtækis bera þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til skv. 6. mgr.

7. gr.

     Í stað orðanna „fangelsi allt að sex mánuðum“ í 1. mgr. 74. gr. laganna kemur: fangelsi allt að tveimur árum.

IV. KAFLI
Gildistaka.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.