Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1449, 132. löggjafarþing 664. mál: höfundalög (lækkun fylgiréttargjalds, EES-reglur).
Lög nr. 97 13. júní 2006.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.


1. gr.

     25. gr. b laganna orðast svo:
     Höfundur á rétt til þóknunar við endursölu upprunalegs eintaks listaverks, þar með talið olíu-, akrýl-, tempera-, vatnslita-, gvass- og pastelmálverka, myndverka og teikninga sem gerðar eru með annarri tækni, grafískra listaverka, svo sem steinprents, koparstungu, ætingar, og tréþrykks, höggmynda, textílverka, gler- og mósaíkmynda, keramik-, postulíns-, silfur- og gullverka sem teljast til listiðnaðar og ljósmyndaverka (fylgiréttargjald). Gjaldið fellur á eintök listaverka sem gerð eru í einu eða fleiri eintökum af höfundi sjálfum eða með heimild hans. Gjaldið nær ekki til mannvirkja.
     Standa ber skil á fylgiréttargjaldi við endursölu þegar um er að ræða seljanda, kaupanda eða miðlara sem starfa á listaverkamarkaði, þar með talið uppboðshús, listaverkagallerí og listaverkasala. Seljanda eða miðlara ber að standa skil á gjaldinu. Þegar aðeins kaupandi listaverks starfar á listaverkamarkaði ber þó honum einum að skila gjaldinu. Gjaldið skal aldrei nema hærri fjárhæð í íslenskum krónum en sem samsvarar 12.500 evrum.
     Gjaldið skal vera í íslenskum krónum og reiknast miðað við sölugengi evru á söludegi þannig:
  1. 10% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar að hámarki 3.000 evrum,
  2. 5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 3.000,01 evru upp í 50.000 evrur,
  3. 3% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur,
  4. 1% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur,
  5. 0,5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur,
  6. 0,25% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar fjárhæð umfram 500.000 evrur.

     Rétturinn til endurgjalds skv. 1. mgr. er kræfur uns höfundaréttur rennur út, sbr. 43. gr. Réttur þessi er bundinn við höfundinn og er óframseljanlegur. Að höfundi látnum erfist rétturinn þó til skylduerfingja. Ef réttur höfundar til endurgjalds erfist ekki til skylduerfingja eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til samtaka rétthafa skv. 5. mgr.
     Fylgiréttargjald verður aðeins innheimt af samtökum rétthafa sem hafa hlotið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Samtökin annast innheimtu gjalda skv. 1. mgr. og skil á þeim til höfunda, að frádregnu hæfilegu endurgjaldi vegna innheimtunnar. Krafa rétthafa á hendur samtökunum er gjaldkræf innan þriggja ára frá lokum þess árs er endursala fór fram. Fyrning kröfu rofnar við skriflega greiðsluáskorun frá rétthafa.
     Seljendur, miðlarar og kaupendur skv. 2. mgr. skulu:
  1. senda sex mánaða uppgjör ásamt skilagrein til samtaka þeirra sem getið er í 5. mgr. miðað við 1. janúar og 1. júlí ár hvert vegna endursölu listaverka, sem falla undir 1. mgr., á næstliðnum sex mánuðum, staðfest af löggiltum endurskoðanda, og
  2. eftir kröfu frá samtökunum senda innan fjögurra vikna allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja greiðslu gjaldsins þegar slík krafa kemur fram innan þriggja ára frá endursölu listaverks.

     Berist uppgjör eða upplýsingar um endursölu listaverka skv. 6. mgr. ekki til samtaka þeirra sem getið er í 5. mgr. innan 30 daga frá því að sérstakri áskorun þar um er beint til gjaldskylds aðila skal samtökunum heimilt að áætla innheimt fylgiréttargjald hjá viðkomandi aðila vegna endursölu listaverka. Slík áætlun er aðfararhæf.
     Ákvæði þessarar greinar taka ekki til listaverka sem seld eru á listmunauppboðum, en um gjaldtöku í þeim tilvikum gilda sérákvæði laga um verslunaratvinnu. Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar skulu sett í reglugerð.

2. gr.

     2. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna orðast svo: Aðili skv. 2. mgr. 25. gr. b lætur hjá líða að senda samtökum þeim sem getið er um í 5. mgr. 25. gr. b upplýsingar skv. 6. mgr. 25. gr. b.

3. gr.

     Lög þessi innleiða endursöluákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.