Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1438, 132. löggjafarþing 714. mál: úrvinnslugjald (verkaskipting Úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga o.fl.).
Lög nr. 106 14. júní 2006.

Lög um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Úrvinnslugjald sem lagt er á pappa-, pappírs- og plastumbúðir skal standa undir greiðslum við að ná tölulegum markmiðum, sbr. 3. mgr. 15. gr., um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna framangreindra umbúða.

2. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
     Fjárhæð úrvinnslugjalds vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða skal taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, sbr. 3. mgr. 3. gr., svo og greiðslur vegna flutninga umbúðaúrgangs innan lands.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. a laganna:
  1. Í stað „2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 4. mgr.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 2. og 3. mgr. og orðast svo:
  3.      Úrvinnslusjóður ákveður, í samræmi við áætlun sína um að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, fyrir hvaða tegundir umbúðaúrgangs sem úrvinnslugjald er lagt á, sbr. 3. mgr. 3. gr., hann greiðir.
         Margnota flutnings- og safnumbúðir sem fluttar eru úr landi til endurnotkunar hjá birgjum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Undanþágan er bundin því skilyrði að innflytjandi lýsi því yfir í aðflutningsskýrslu, með þeim hætti sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður, að umbúðirnar verði sannanlega fluttar úr landi til endurnotkunar hjá birgjum og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
  4. 3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
  5. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Pappa-, pappírs- og plastumbúðir í eftirtöldum tollskrárnúmerum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að innflytjandi gefi yfirlýsingu í aðflutningsskýrslu, sbr. 3. mgr., um að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
  6. Við 4. mgr. bætast eftirfarandi tollskrárnúmer: 3919.1000, 3920.1009.
  7. Á eftir 4. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar sem verða 7.–10. mgr. og orðast svo:
  8.      Innlendir framleiðendur greiða ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem notaðar eru utan um vörur sem sannanlega eru fluttar úr landi, sbr. 6. mgr.
         Framleiðendur og innflytjendur skulu við útgáfu sölureiknings tilgreina með skýrum hætti ef umbúðir eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Kaupandi skal staðfesta með móttökukvittun á viðkomandi reikningi að keyptar umbúðir fari til útflutnings. Endanleg yfirlýsing kaupanda er staðfest við greiðslu reiknings. Kaupandi er ábyrgur, gagnvart innheimtumönnum ríkissjóðs, fyrir því að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings.
         Skattstjóra er heimilt að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini til framleiðanda, innflytjanda og seljanda umbúða úr pappír, pappa eða plasti, sbr. 6. mgr. Forsenda heimildar er að umbúðirnar séu utan um vörur til útflutnings eða til nota utan um vörur er fara á innanlandsmarkað og að umsækjandi hafi atvinnu af innflutningi, framleiðslu eða sölu úrvinnslugjaldsskyldra umbúða. Skírteinið veitir handhafa þess heimild til að flytja inn eða kaupa innan lands umbúðir án úrvinnslugjalds. Sækja þarf um úrvinnslugjaldsskírteini á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
         Ef handhafi úrvinnslugjaldsskírteinis tekur til eigin nota vörur sem úrvinnslugjald hefur verið fellt niður af á grundvelli skírteinisins skal hann á næsta gjalddaga almenns uppgjörstímabils standa skil á úrvinnslugjaldi vegna þeirra nota.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sín á milli“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: við Úrvinnslusjóð.
  2. Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal umhverfisráðherra staðfesta samninginn.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Aðilar sem eru gjaldskyldir skv. 3. tölul. 1. mgr. skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en úrvinnslugjaldsskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem aðili hefur lögheimili.
  2. Á eftir orðinu „innheimtu“ í 4. mgr. kemur: gjaldskyldu, tilhögun bókhalds.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er að kæra álagningu gjalds innan 60 daga frá gjalddaga gjaldsins vegna innlendrar framleiðslu en tollafgreiðsludegi ef um innflutning er að ræða.
  2. Á eftir orðinu „skýrsla“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: vegna innlendrar framleiðslu.
  3. Í stað orðsins „kærufrests“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: gagnaöflunar.
  4. Í stað orðanna „101. gr. tollalaga, nr. 55/1987“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 118. gr. tollalaga, nr. 88/2005.


7. gr.

     Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
     Úrvinnslusjóði ber að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu.

8. gr.

     Í stað orðanna „ tollalaga, nr. 55/1987“ í 20. gr. laganna kemur: tollalaga, nr. 88/2005.

9. gr.

     Við 21. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglugerð um nánari útfærslu á greiðslu kostnaðar við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, sbr. 2. mgr. 3. gr.
     Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs setja reglugerð um hvernig standa skuli að greiðslum til að ná þeim tölulegu markmiðum sem sett eru um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða, sbr. 3. mgr. 3. gr.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 3. og 4. mgr. f-liðar 3. gr., er varða úrvinnslugjaldsskírteini, öðlast þó gildi 1. ágúst 2006.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.