Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 703, 133. löggjafarþing 419. mál: tollalög (ökutæki á erlendum skráningarnúmerum, EES-reglur).
Lög nr. 146 15. desember 2006.

Lög um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.


1. gr.

     Skilgreining á orðinu „tollmiðlari“ í 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     4., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
  1. Vegna ökutækja til tímabundinnar notkunar hér á landi í eftirtöldum tilvikum:
    1. Af bifreiðum sem eru skráðar erlendis eða keyptar nýjar og óskráðar hér á landi ef innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis, hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er jafnframt skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða eftir atvikum keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins til tímabundinnar dvalar. Hver sá sem ætlar að dveljast hér á landi í ár eða styttri tíma telst dvelja hér á landi tímabundið.
    2. Af eftirvögnum, skráðum erlendis, sem notaðir eru til flutnings vara til og frá landinu.
    3. Af hópbifreiðum sem ferðaskrifstofur eða aðrir sem hafa atvinnu af slíkum fólksflutningum flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið enda verða þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
    4. Af tengitækjum, svo sem hjólhýsum og tjaldvögnum, eða öðrum ökutækjum sem ferðamenn flytja til landsins, enda eigi þau ekki undir a-lið, í allt að 12 mánuði. Það er skilyrði að tækin séu ætluð til eigin nota ferðamanns á ferðalagi hér á landi.
  2. Af innfluttu eldsneyti sem rúmast í innbyggðum eldsneytisgeymum ökutækis og innfluttum varahlutum í ökutæki, uppfylli innflytjandi þess skilyrði 4. tölul.
  3. Af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum til fólks- og/eða vöruflutninga eða sérstakra nota, sem flutt eru til landsins tímabundið, þó ekki lengur en í 12 mánuði, enda séu skilyrði 4. tölul. ekki uppfyllt. Aðflutningsgjöld skulu reiknuð af leiguverði fyrir tæki í stað tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir skal reikna toll af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla laga þessara fyrir hvern byrjaðan mánuð frá komu tækis til landsins.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. 6. mgr. orðast svo:
  2.      Tollstjórinn í Reykjavík ákveður form rammaskeytis fyrir aðflutningsskýrslu og hvernig tæknilegri útfærslu SMT- og VEF-tollafgreiðslu skuli háttað að öðru leyti.
  3. 7. mgr. fellur brott.


4. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     Taka skal í einu lagi til tollmeðferðar vörur sem skráðar eru í einu sendingarnúmeri, nema annað leiði af ákvæðum laga þessara.
     Ráðherra getur með reglugerð heimilað skiptingu sendinga til tollmeðferðar þegar aðstæður þykja mæla með því að slíkt sé heimilt og bundið heimildina þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg til þess að tryggja að skiptingin hafi ekki áhrif á fjárhæð aðflutningsgjalda sem greiða ber af viðkomandi vörum.

5. gr.

     Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
     Bráðabirgðatollafgreiðsla gegn fjártryggingu, sbr. 1. mgr., er enn fremur heimil þegar nauðsynlegt reynist að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru skv. 14.–17. gr. eða um önnur atriði sem lög þessi taka til, enda þyki að mati tollstjóra ekkert því til fyrirstöðu að innflytjandi leysi vöruna til sín.

6. gr.

     Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. og 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
  1. 2. mgr. fellur brott.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Tollstjórinn í Reykjavík getur afturkallað starfsleyfi til tollmiðlunar uppfylli tollmiðlari ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.


8. gr.

     2. mgr. 88. gr. laganna orðast svo:
     Farmflytjendur sem ekki reka afgreiðslugeymslur í eigin nafni skulu eiga nægan aðgang að geymslum sem reknar eru á grundvelli leyfis skv. 1. mgr.

9. gr.

     2. mgr. 95. gr. laganna orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óveruleg aðvinnsla á vörum heimil í tollvörugeymslu, svo sem einföld umpökkun, merking, samsetning, prófun og þrif, enda leiði aðvinnslan ekki til breyttrar tollflokkunar vöru.

10. gr.

     Í stað orðanna „7. eða 8. gr.“ í 1. mgr. 176. gr. laganna kemur: 6. eða 7. gr.

11. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.