Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1379, 133. löggjafarþing 638. mál: sóttvarnalög (stjórnsýsluleg staða sóttvarnalæknis o.fl.).
Lög nr. 43 27. mars 2007.

Lög um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi fjalla um sjúkdóma og sjúkdómsvalda sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill, svo og aðrar alvarlegar næmar sóttir. Með sjúkdómum er átt við sjúkdóma eða smitun sem smitefni, örverur eða sníkjudýr valda og einnig alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar eiturefna og geislavirkra efna. Lögin taka einnig til óvenjulegra og óvæntra atburða sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar meðal þjóða heims.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eða sjúkdómar af völdum eiturefna og geislavirkra efna eru skráningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. Af skráningarskyldum smitsjúkdómum eru þeir sjúkdómar tilkynningarskyldir sem ógnað geta almannaheill. Einnig skal tilkynna um sérhverja þá atburði sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar á meðal þjóða heims, þ.m.t. atburði sem eru af óþekktri orsök eða uppruna.
  3. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Skráin tekur til sjúkdóma, sjúkdómsvalda og atburða, sbr. 2. gr., ónæmisaðgerða, sbr. 1. tölul. 5. gr., og sýklalyfjanotkunar, sbr. 3. tölul. 5. gr., og er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum.


3. gr.

     Á eftir orðinu „Umhverfisstofnunar“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Geislavarna ríkisins.

4. gr.

     11. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn á undan greininni:
3. Skyldur heilbrigðisfulltrúa, heilbrigðisnefnda, dýralækna, Geislavarna ríkisins, Landbúnaðarstofnunar og Umhverfisstofnunar.
     Heilbrigðisfulltrúar, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, dýralæknar og starfsmenn Landbúnaðarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Geislavarna ríkisins skulu tilkynna viðkomandi yfirlækni heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr., eða sóttvarnalækni jafnskjótt og þeir hafa orðið varir við hugsanlega smithættu eða hættu vegna eiturefna eða geislavirkra efna. Yfirlæknir heilsugæslu, sbr. 4. mgr. 4. gr., eða sóttvarnalæknir skal á sama hátt tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd, dýralækni, Landbúnaðarstofnun, Umhverfisstofnun eða Geislavörnum ríkisins, eftir því sem við á, strax og þeim verður kunnugt um smithættu eða hættu af völdum eiturefna eða geislavirkra efna. Sóttvarnalæknir skal gefa heilbrigðisnefndum nauðsynlegar upplýsingar og ráð og hafa eftirlit með því að til viðeigandi ráðstafana sé gripið.
     Ráðherra skipar sérstaka samstarfsnefnd til að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu eða hættu sem stafar af dýrum, matvælum, starfsemi, vatni, skolplögnum, loftræstingu eða öðru í umhverfinu sem getur dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum, eiturefnum eða geislavirkum efnum sem ógna heilsu manna. Í nefndinni sitja sóttvarnalæknir, sem jafnframt er formaður, tveir fulltrúar tilnefndir af Landbúnaðarstofnun og skal annar vera sérfróður um matvælaöryggi en hinn um smitsjúkdóma í dýrum, einn frá Geislavörnum ríkisins og tveir frá Umhverfisstofnun og skal annar vera sérfróður um matvælaöryggi en hinn um eiturefni. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndinni er heimill aðgangur að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin skal gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta hættu af völdum smits, eiturefna eða geislavirkra efna. Að öðru leyti skal framkvæmd vera í samræmi við lög þessi og, eftir því sem við á, sérlög um einstaka eftirlitsaðila.

5. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Ráðherra ákveður að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns.

6. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Um sóttvarnaráðstafanir, sem grípa má til vegna hættu á farsóttum frá útlöndum eða frá Íslandi til útlanda, skal setja reglugerð í samræmi við efni þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, svo sem alþjóðaheilbrigðisreglugerðar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Sóttvarnalæknir er tengiliður Íslands við samsvarandi tengilið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í samræmi við ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

7. gr.

     Við 4. mgr. 14. gr. laganna bætist: í samræmi við 23., 30.–32. og 45. gr. alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

8. gr.

     Við 17. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Læknisskoðun sem gerð er vegna umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi og er í samræmi við verklagsreglur sóttvarnalæknis skal greiðast að fullu af vinnuveitanda eða þeim sem sækir um dvalar- eða atvinnuleyfi. Leiði frekari læknisskoðun í ljós þörf fyrir frekari sértækar rannsóknir þá greiðir viðkomandi eða sjúkratrygging hans kostnað við þau heilsufarslegu vandamál sem greinast fyrstu sex mánuðina sem dvalið er í landinu. Vinnuveitandi greiðir læknisrannsókn sem hann óskar sérstaklega eftir.
     Ef aðgerðir sóttvarnalæknis eru vegna hættu á farsóttum frá útlöndum eða frá Íslandi til útlanda og til þeirra er gripið á grundvelli alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem Ísland er aðili að, skulu ákvæði þeirra samninga gilda um greiðsluþátttöku sjúklinga.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.