Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 766, 135. löggjafarþing 403. mál: þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður (aðstoðarmenn alþingismanna).
Lög nr. 8 13. mars 2008.

Lög um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað „13. gr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 14. gr.

2. gr.

     Við III. kafla laganna bætist ný grein, 10. gr., og breytist röð annarra greina samkvæmt því. Hin nýja grein ásamt fyrirsögn orðast svo:
Aðstoðarmenn alþingismanna.
     Alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann og skulu greiðslur til hans fara eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur og veitt er fé til á fjárlögum hvers árs. Í reglum forsætisnefndar má kveða á um að heimildin sé bundin tilteknum kjördæmum eða tiltekinni stöðu sem alþingismaðurinn hefur í flokki sínum.
     Laun aðstoðarmanns skulu fylgja þingfararkaupi hverju sinni og vera tilgreint hlutfall þess. Forsætisnefnd Alþingis setur reglur um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna.
      Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gilda ekki um aðstoðarmenn alþingismanna, en þó skal hafa hliðsjón af 6. gr. laganna. Þá gilda ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, ekki um aðstoðarmenn alþingismanna.

3. gr.

     Við 14. gr. laganna, er verður 15. gr., bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Forsætisnefnd Alþingis ákveður aðrar greiðslur samkvæmt lögum þessum og setur nánari reglur um þær.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. mars 2008.