Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1195, 135. löggjafarþing 577. mál: Norðurlandasamningur um hjúskap, ættleiðingu og lögráð (lagaval í málum er varða fjármál hjóna).
Lög nr. 52 5. júní 2008.

Lög um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.


1. gr.

     Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulag, sem undirritað var í Stokkhólmi 26. janúar 2006 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og prentað er sem fylgiskjal með lögum þessum, um breytingar á samningi sömu ríkja frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem staðfestur var með lögum nr. 29 8. september 1931.

2. gr.

     Þegar samkomulag það sem um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þess hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.

Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931.
     
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:
I.
     Á samningnum milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931, eru gerðar eftirfarandi breytingar:
     
      3. gr. hljóði svo:
     Að því er snertir fjármál hjóna, sem eiga, og áttu við stofnun hjónabandsins, ríkisfesti í samningsríki, skal beita lögum þess samningsríkis þar sem þau tóku sér heimilisfesti þegar þau gengu í hjónaband.
     Hafi bæði hjónin síðar tekið sér heimilisfesti í öðru samningsríki og búið þar í að minnsta kosti tvö ár skal í staðinn beita lögum þess ríkis. Hafi bæði hjónin fyrr á hjónabandsárum sínum átt heimilisfesti þar, eða eigi þau ríkisfesti í því ríki, skal þó beita lögum þess ríkis um leið og þau taka sér þar heimilisfesti.
     
      Ný grein, 3. gr. a, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
     Hjón, sem 3. gr. á við um, geta gert með sér samkomulag um að um fjármál þeirra skuli beita lögum samningsríkis þar sem annað hvort þeirra á heimilisfesti eða ríkisfesti þegar samkomulagið er gert. Slíkt samkomulag um lagaval má einnig gera fyrir hjónaband.
     Hafi annað hvort eða bæði hjónin tekið sér heimilisfesti í öðru samningsríki á hjónabandstímanum geta þau einnig gert með sér samkomulag um að beita skuli lögum þess samningsríkis þar sem þau áttu síðast bæði heimilisfesti samtímis.
     
      Ný grein, 3. gr. b, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
     Um heimild annars hvors hjóna til að ráða yfir fasteign, samsvarandi eign eða bústað, sem er í einhverju samningsríkjanna, skal jafnan fara eftir lögum þess ríkis.
     
      Ný grein, 3. gr. c, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
     Ef skipt er um lög, sem beitt er um fjármál hjóna, hefur það engin áhrif á réttarverkan löggerninga sem áður voru gerðir.
     Um gildi ákvæða kaupmála fer eftir lögum þess samningsríkis, sem á að beita um fjármál hjónanna, þegar slíkt álitamál kemur upp.
     
      4. gr. hljóði svo:
     Samkomulag um lagaval eða kaupmála hjóna, sem 3. gr. og 3. gr. a eiga við um, skulu skoðuð gild í öllum samningsríkjunum hvað form þeirra snertir hafi þau, þegar þau voru gerð, uppfyllt formskilyrði:
  1. þeirra laga sem skv. 3. gr. og 3. gr. a átti að beita um fjármál hjónanna, eða
  2. laga samningsríkis þar sem bæði hjónin eða annað hvort þeirra átti ríkisfesti.

     Innihaldi lögin ekki formskilyrði hvað snertir samkomulag um lagaval fer um gildi þess samkvæmt formskilyrðum kaupmála.
     Sérhvert ríkjanna getur, gagnvart þriðja manni, gert það að skilyrði fyrir gildi samkomulags um lagaval eða kaupmála að samkomulagið eða kaupmálinn sé skráður samkvæmt lögum þess.
     
      Ný grein, 4. gr. a, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
     Hafi hjón, sem 3. gr. á við um, síðar tekið sér heimilisfesti í ríki, sem ekki er samningsríki, er ekki unnt að beita ákvæðum samningsins um fjármál þeirra.
II.
     Ákvæðum þessa samkomulags skal ekki beitt ef hjúskap hjónanna er lokið eða hjónin eru skilin að borði og sæng áður en það öðlast gildi.
III.
     Samkomulaginu verður ekki beitt í Færeyjum eða á Grænlandi, en unnt er að láta það öðlast gildi þar, að undangengnum samningaviðræðum danska fjölskyldu- og neytendaráðuneytisins og dómsmálaráðuneyta hinna samningsríkjanna, með þeim frávikum sem sérstakar færeyskar eða grænlenskar aðstæður geta gefið tilefni til.
IV.
     Samningsríkin geta gerst aðilar að samkomulagi þessu með
  1. undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu, eða
  2. undirritun með fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu ásamt eftirfarandi fullgildingu eða staðfestingu.

     Fullgildingarskjöl skulu varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu.
     Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar er hefst tveimur mánuðum eftir að öll samningsríkin hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjalanna til vörslu og hvenær samkomulagið öðlast gildi.
V.
     Frumrit þessa samkomulags skal varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur hverju samningsríki í té staðfest endurrit.
     Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar, sem hafa fullt umboð, undirritað samkomulag þetta.
     Gjört í Stokkhólmi hinn 26. janúar 2006 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og að því er sænskuna varðar í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð, og eru allir textarnir jafngildir.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2008.