Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1270, 135. löggjafarþing 579. mál: umferðarlög (gjald vegna vanrækslu á skoðun ökutækja).
Lög nr. 65 7. júní 2008.

Lög um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 67. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, 2.–5. mgr., svohljóðandi:
     Leggja skal á gjald að fjárhæð 15.000 kr. sem eigandi (umráðamaður) ökutækis skal greiða við almenna skoðun og endurskoðun hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar og endurskoðunar á réttum tíma samkvæmt þeim reglum um skoðun ökutækja sem ráðherra setur með stoð í 1. mgr.
     Heimilt er að lækka gjaldið um allt að 50% verði það greitt innan tiltekins frests eftir að það er lagt á. Einnig má hækka gjaldið um allt að 100% verði það ekki greitt við skoðun eða endurskoðun, sé þess krafist. Gjaldið getur að hámarki orðið 30.000 kr.
     Gjaldið nýtur lögveðs í viðkomandi ökutæki með sama hætti og gjald skv. a–f-lið 1. mgr. 108. gr., sbr. 2. mgr. 109. gr., en fellur þó ekki niður við eigendaskipti. Um fullnustuaðgerðir vegna innheimtu gjaldsins fer eftir 3. og 4. mgr. 109. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um álagningu og innheimtu gjaldsins, þar á meðal um frest varðandi lækkun gjalds, sbr. 3. mgr., og hver skuli annast innheimtu þess sé það ekki greitt við skoðun. Ráðherra er heimilt að fela öðru stjórnvaldi innheimtu gjalds í vanskilum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
  1. G-liður 1. mgr. fellur brott.
  2. Skammstöfunin „o.fl.“ í fyrirsögn greinarinnar fellur brott.


3. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 109. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði 2.–5. mgr. 67. gr. laganna gilda ekki um ökutæki sem færa skal til skoðunar fyrir 1. október 2008.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 2008.