Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1351, 135. löggjafarþing 523. mál: fjarskipti (EES-reglur).
Lög nr. 118 16. september 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
  1. Evrópugjaldskrá: Gjaldskrá sem er ekki hærri en samræmist hámarksgjaldi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins.
  2. Reikisímtal í farsímaneti: Símtal úr farsíma sem reikiviðskiptavinur hringir frá farsímaneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farsímaneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af reikiviðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farsímaneti rekstraraðila hér á landi.


2. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Telji Póst- og fjarskiptastofnun í kjölfar markaðsgreiningar skv. 17. gr. að heildsölukvaðir eða ráðstafanir varðandi forval eða fast forval muni ekki skila tilætluðum árangri við að efla virka samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu er stofnuninni heimilt að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Slíkar kvaðir geta m.a. falist í að leggja skyldur á fyrirtæki um þak á smásöluverð, kostnaðartengda gjaldskrá og kostnaðarbókhald, að verð miðist við verð á sambærilegum mörkuðum, banni við mismunun milli notenda og banni við að binda mismunandi tegundir fjarskiptaþjónustu í einn heildarpakka skaði það samkeppni.

3. gr.

     35. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Hámarksverð í heild- og smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.
     Fjarskiptafyrirtæki, sem veita reikiþjónustu hér á landi, skulu sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikisímtal í farsímaneti, sem á sér upphaf eða lýkur innan Evrópska efnahagssvæðisins, sé ekki hærra en hámarksverð sem þar gildir.
     Samgönguráðherra setur reglugerð um reiki í almennum farsímanetum, þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
  1. Hámarksverð í heildsölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.
  2. Hámarksverð í smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.
  3. Hámarksverð fyrir SMS-, MMS-þjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum.
  4. Evrópugjaldskrá.
  5. Gagnsæi smásölu- og Evrópugjaldskrár.
  6. Viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar vegna reikiþjónustu í farsímanetum.
  7. Skyldur fjarskiptafyrirtækja til þess að verða við óskum reikiviðskiptavina um skipti milli reikigjaldskráa.
  8. Upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja um viðeigandi reikigjöld.


4. gr.

     Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að upplýsa notendur sína um þann kostnað sem hlýst af því að hringja úr tal- og farsímaneti þeirra í net annarra fjarskiptafyrirtækja hér á landi. Slíkar upplýsingar skulu uppfærðar eins og þörf krefur.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. mgr. kemur: tal- og farsímaþjónustu.
  2. Í stað orðsins „talsímanetum“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: tal- og farsímanetum.


6. gr.

      Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. málsl. 39. gr. laganna kemur: tal- og farsímaþjónustu.

7. gr.

     Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. málsl. 51. gr. laganna kemur: tal- og farsímaþjónustu.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „almenna talsímaþjónustu“ í 1. mgr. kemur: almenna tal- og farsímaþjónustu.
  2. Í stað orðanna „almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan“ í 1. mgr. kemur: almenna tal- og farsímanetið og almenna tal- og farsímaþjónustan.
  3. Í stað orðsins „talsímanetinu“ í 2. mgr. kemur: tal- eða farsímanetum.


9. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Tal- og farsímaþjónusta.

10. gr.

     Við 1. mgr. 65. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.

11. gr.

     2. mgr. 68. gr. laganna orðast svo:
     Ekki er gerð krafa um sérstaka þjálfun þeirra sem starfrækja þráðlausan búnað nema í þeim tilfellum að búnaðurinn gegni öryggishlutverki eða þegar sendiafl er umfram 100 W. Heimilt er að gefa út skírteini talstöðvavarðar sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útgáfu skírteinis talstöðvavarðar og hæfniskröfur í reglugerð.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. september 2008.