Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 848, 136. löggjafarþing 162. mál: tóbaksvarnir (EES-reglur, varúðarmerking og auglýsingar).
Lög nr. 33 2. apríl 2009.

Lög um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal um viðvörunartexta og viðvörunarmyndir, stærð þeirra og letur og annað sem máli kann að skipta, í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og ákvarðana sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur á grundvelli þeirrar tilskipunar.
  3. 1. málsl. 4. mgr. fellur brott.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Þetta nær þó ekki til upplýsinga um tóbaksvöru sem miðlað er til þeirra sem selja tóbak í heildsölu eða smásölu enda sé þess gætt að upplýsingarnar séu ekki aðgengilegar neytendum eða öðrum. Sama á við um auglýsingar í ritum sem prentuð eru og gefin út utan Evrópska efnahagssvæðisins enda séu þau fyrst og fremst ætluð til dreifingar utan svæðisins og megintilgangur þeirra ekki að auglýsa tóbaksvörur. Þá er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., að gefa út og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Bannað er jafnframt að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum.


3. gr.

     2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. mars 2009.