Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 891, 136. löggjafarþing 259. mál: réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar (heildarlög).
Lög nr. 40 6. apríl 2009.

Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.


I. KAFLI
Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um réttindi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Líffæragjafi: Einstaklingur sem er á lífi og gengst undir læknismeðferð í því skyni að gefa öðrum einstaklingi líffæri.
  2. Líffæragjöf: Læknismeðferð sem einstaklingur gengst undir í því skyni að gefa öðrum einstaklingi líffæri.
  3. Launamaður: Hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
  4. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
  5. Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
  6. Samfellt starf: Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljast til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–e-lið 2. mgr. 9. gr.


II. KAFLI
Stjórnsýsla.

4. gr.

Yfirstjórn.
     Félags- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn greiðslna til líffæragjafa samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

Framkvæmdaraðili.
     Félags- og tryggingamálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara.
     Kostnaður vegna framkvæmdar á lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

6. gr.

Umsókn um greiðslur.
     Líffæragjafi skal sækja um greiðslur skv. III kafla til framkvæmdaraðila skv. 5. gr. Umsókn líffæragjafa sem er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., skal meðal annars fylgja vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um óvinnufærni líffæragjafans, staðfesting frá vinnuveitanda um að líffæragjafinn hafi lagt niður störf og launagreiðslur fallið niður, sem og staðfesting á starfstímabili hans. Umsókn líffæragjafa í námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., skal meðal annars fylgja vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um að viðkomandi verði að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar og vottorð frá skóla um að líffæragjafi hafi gert hlé á námi og um fyrri námsvist. Framkvæmdaraðila er heimilt að óska eftir að aðrar upplýsingar fylgi með umsókn líffæragjafa um greiðslur samkvæmt lögum þessum telji framkvæmdaraðili slíkt nauðsynlegt. Umsókn skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og undirrituð af líffæragjafanum.
     Framkvæmdaraðila er heimilt að óska eftir umsögn frá þeim aðilum sem hann telur ástæðu til hverju sinni vegna einstakra umsókna um greiðslur samkvæmt lögum þessum.
     Skattyfirvöld, sjúkratryggingastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun skulu láta framkvæmdaraðila í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.

7. gr.

Kæruheimild.
     Heimilt er að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi líffæragjafa sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
     Kæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
     Úrskurðarnefndin skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að nefndinni berst mál til úrskurðar.
     Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

III. KAFLI
Réttindi líffæragjafa.

8. gr.

Skilyrði fyrir réttindum líffæragjafa á vinnumarkaði.
     Líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., sem verður óvinnufær vegna líffæragjafar getur átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 10. gr. í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila.
     Líffæragjafi getur átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. hafi hann verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði, sbr. 6. tölul. 3. gr., áður en hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar. Til þess að finna vinnuframlag líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Enn fremur er skilyrði að líffæragjafinn sé óvinnufær, sbr. þó 11. gr., og að fyrir liggi vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um hvenær líffæragjafinn varð óvinnufær vegna líffæragjafarinnar sem og í hversu langan tíma hann er óvinnufær. Þá er skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar sem og þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.
     Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

9. gr.

Þátttaka á vinnumarkaði.
     Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi 8. gr. felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.
     Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:
  1. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
  2. sá tími sem líffæragjafi fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði hann skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,
  3. sá tími sem líffæragjafi fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði hann sótt um þá til sjúkratryggingastofnunar samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi hann látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
  4. sá tími sem líffæragjafi nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss,
  5. sá tími sem líffæragjafi fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði hann sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

     Vinnumálastofnun, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar, metur hvort líffæragjafi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði hann skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til atvinnuleysisbóta fer samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar.
     Sjúkratryggingastofnun, sbr. lög um sjúkratryggingar, metur hvort líffæragjafi hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði hann sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. c-lið 2. mgr. Um rétt til sjúkradagpeninga fer samkvæmt ákvæðum laga um sjúkratryggingar.
     Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hvort líffæragjafi hefði átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. III. kafla laganna hefði hann sótt um slíkar greiðslur. Um rétt til greiðslnanna fer samkvæmt ákvæðum laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

10. gr.

Tilhögun greiðslna til líffæragjafa á vinnumarkaði.
     Tekjutengdar greiðslur skv. 8. gr. til líffæragjafa sem er launamaður, sbr. 3. tölul. 3. gr., skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem viðkomandi leggur niður störf vegna líffæragjafar. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- eða slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 2. mgr. 9. gr. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skal þó taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem líffæragjafi hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 9. gr. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
     Tekjutengdar greiðslur skv. 8. gr. til líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 4. tölul. 3. gr., skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem viðkomandi leggur niður störf vegna líffæragjafar. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr.
     Þrátt fyrir 1.–2. mgr. skal hámarksfjárhæð tekjutengdra greiðslna í hverjum mánuði aldrei nema hærri fjárhæð en 535.700 kr. Enn fremur skal lágmarksfjárhæð tekjutengdra greiðslna aldrei nema lægri fjárhæð en 134.300 kr.
     Útreikningar á tekjutengdum greiðslum skv. 1.–2. mgr. skulu byggjast á upplýsingum sem framkvæmdaraðili aflar um tekjur viðkomandi líffæragjafa úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Framkvæmdaraðili skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.
     Réttur til tekjutengdra greiðslna til líffæragjafa skv. 1. mgr. hefst frá og með þeim degi er fullar launagreiðslur í forföllum vegna líffæragjafar falla niður frá vinnuveitanda. Viðkomandi líffæragjafi skal leggja fram vottorð vinnuveitanda um að líffæragjafi hafi lagt niður störf og að launagreiðslur hafi fallið niður. Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa lagt niður störf þegar ekki er greitt reiknað endurgjald vegna starfa hans.
     Tekjutengdar greiðslur fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði skulu inntar af hendi eftir á, fyrsta virka dag hvers mánaðar, enda hafi líffæragjafi skilað inn nauðsynlegum gögnum til framkvæmdaraðila innan frests sem ákveðinn skal í reglugerð.
     Greiðslur frá vinnuveitanda eða öðrum aðilum til líffæragjafa, fyrir sama tímabil og greitt er fyrir, sem eru hærri en nemur mismun greiðslna samkvæmt lögum þessum og meðaltals heildarlauna líffæragjafans á viðmiðunartímabili skv. 1. eða 2. mgr. koma til frádráttar greiðslum samkvæmt ákvæði þessu. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum líffæragjafans. Hið sama gildir um greiðslur til líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur eftir því sem við getur átt.
     Fjárhæð hámarksgreiðslna og lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð greiðslna skal félags- og tryggingamálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.

11. gr.

Greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
     Þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. 8. gr. um óvinnufærni getur líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., sem kemur aftur til starfa eftir líffæragjöf í lægra starfshlutfalli en hann var í fyrir líffæragjöfina átt rétt á hlutfallslegum greiðslum skv. 8. og 10. gr. í samræmi við minnkað starfshlutfall. Líffæragjafi sem minnka þarf starfshlutfall sitt áður en til líffæragjafar kemur getur jafnframt átt rétt á hlutfallslegum greiðslum skv. 8. og 10. gr. í samræmi við minnkað starfshlutfall. Skilyrði er að ástæður þess að líffæragjafi er í lægra starfshlutfalli megi rekja til líffæragjafarinnar og skal líffæragjafi leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um að hann sé einungis fær um að sinna starfi sínu að ákveðnum hluta vegna líffæragjafar. Fullar greiðslur skulu miðast við starfshlutfall líffæragjafans á ávinnslutímabili skv. 2. mgr. 8. gr. Að öðru leyti gilda skilyrði 8. og 10. gr. um greiðslur til líffæragjafans samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
     Óski líffæragjafi eftir greiðslum skv. 1. mgr. skal greiða 80% af meðaltali heildarlauna skv. 1.–2. mgr. 10. gr., eftir því sem við á, í samræmi við það starfshlutfall sem hann minnkar við sig vinnu. Heimilt er sem því nemur að lengja greiðslutímabil sem líffæragjafi hefði ella átt rétt á greiðslum skv. 8. og 10. gr. hefði hann lagt niður störf að fullu.
     Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

12. gr.

Uppsöfnun lífeyrisréttinda og stéttarfélagsgjöld.
     Líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., greiðir að lágmarki 4% af greiðslum skv. 8., 10. og 11. gr. í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiðir 8% mótframlag. Líffæragjafa er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.
     Líffæragjafa er heimilt að óska eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns og sér þá framkvæmdaraðili um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags.

13. gr.

Skilyrði fyrir réttindum líffæragjafa í námi.
     Líffæragjafi sem gerir hlé á námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., vegna líffæragjafar getur átt rétt á greiðslum skv. 1. mgr. 15. gr. í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila.
     Skilyrði eru meðal annars að líffæragjafinn hafi verið í námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann gerði hlé á námi vegna líffæragjafar. Enn fremur er skilyrði að líffæragjafi hafi ekki getað stundað nám sitt vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði þess sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina og að hann hafi þar af leiðandi þurft að gera hlé á námi sínu. Þá er það skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar sem og það tímabil sem greitt er fyrir.
     Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

14. gr.

Undanþágur frá skilyrðum fyrir réttindum líffæragjafa í námi.
     Heimilt er að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 13. gr. hafi líffæragjafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis eftir að hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning lögheimilis.
     Þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. 13. gr., um nám, sbr. 5. tölul. 3. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en líffæragjafi gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina, getur líffæragjafi sem uppfyllir ekki það skilyrði átt rétt á greiðslum skv. 13. og 15. gr. hafi hann verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Hið sama á við hafi líffæragjafi lokið a.m.k. einnar annar námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., og verið síðan í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi varað samfellt í a.m.k. sex mánuði.

15. gr.

Tilhögun greiðslna til líffæragjafa í námi.
     Greiðsla til líffæragjafa skv. 13. gr. skal nema 134.300 kr. á mánuði.
     Greiðslur skv. 1. mgr. reiknast frá og með þeim degi er líffæragjafi verður að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði þess sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina. Þær skulu inntar af hendi í samræmi við 6. mgr. 10. gr. Líffæragjafi skal leggja fram vottorð skóla um að hann hafi gert hlé á námi á önninni sem og um fyrri námsvist.
     Fjárhæð greiðslna skv. 1. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð greiðslna skal félags- og tryggingamálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.
     Greiðslur til líffæragjafa frá öðrum aðilum fyrir sama tímabil skulu koma til frádráttar greiðslum samkvæmt ákvæði þessu.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

16. gr.

Ósamrýmanleg réttindi.
     Líffæragjafi sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil. Sama á við um líffæragjafa sem fær lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.
     Líffæragjafi sem fær greiðslur í fæðingarorlofi eða fær greiddan fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof öðlast ekki jafnframt rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil. Sama á við um líffæragjafa sem fær greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

17. gr.

Skuldajöfnuður.
     Hafi líffæragjafi fengið hærri greiðslur en honum bar samkvæmt lögum þessum er heimilt að skuldajafna ofgreiddum greiðslum á móti inneign líffæragjafans vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fjármálaráðherra skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
     Um innheimtu ofgreidds fjár samkvæmt lögum þessum fer skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Félags- og tryggingamálaráðherra getur þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.

18. gr.

Reglugerðarheimild.
     Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

19. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010 og eiga ákvæði þeirra við um líffæragjafa sem verða óvinnufærir vegna líffæragjafar eftir gildistöku laganna enda séu skilyrði laganna uppfyllt.

Samþykkt á Alþingi 1. apríl 2009.