Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 935, 136. löggjafarþing 409. mál: fjármálafyrirtæki (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda).
Lög nr. 44 20. apríl 2009.

Lög um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „þeim sem annast skiptastjórn þrotabús fjármálafyrirtækis“ í 3. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 129/2008, kemur: bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð fjármálafyrirtækis eða skiptastjóra við gjaldþrotaskipti á búi þess.

2. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „103. gr.“ í niðurlagi 4. mgr. 63. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2004, kemur: 103. gr. a.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 98. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Hafi fjármálafyrirtæki verið veitt heimild til greiðslustöðvunar er nægilegt að birta fundarboð skv. 2. mgr. 13. gr. og 5. mgr. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. með auglýsingu sem birt er í að minnsta kosti tveimur dagblöðum hér á landi og í hverju þeirra ríkja þar sem útibú hafa verið rekin.
  3. 4., 5. og 6. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008, falla brott.


4. gr.

     100. gr. a laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Afhending fjármálafyrirtækis til bráðabirgðastjórnar.
     Eigi fjármálafyrirtæki í þeim fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár getur stjórn þess upp á sitt eindæmi leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Fjármálaeftirlitið skal án tafar taka afstöðu til slíkrar beiðni. Taki Fjármálaeftirlitið beiðnina til greina fellur úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og verður jafnframt óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Um leið skal Fjármálaeftirlitið skipa fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn þriggja eða fimm manna sem fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum þess og stjórn og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda hefði ella haft á hendi, sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 101. gr.
     Bráðabirgðastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag fjármálafyrirtækisins. Á meðan hún ræður yfir fyrirtækinu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustugerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal bráðabirgðastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni fyrirtækisins að brýna nauðsyn beri til.
     Yfirráðum bráðabirgðastjórnar yfir fjármálafyrirtæki lýkur sjálfkrafa þegar liðnir eru þrír mánuðir frá skipun hennar nema:
  1. bráðabirgðastjórn hafi þegar lagt fyrir héraðsdóm kröfu um að fyrirtækið verði tekið til slita skv. 3. tölul. 2. mgr. 101. gr., en hafi það verið gert stendur umboð hennar þar til afstaða hefur endanlega verið tekin til kröfunnar,
  2. fyrirtækinu hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, en umboð bráðabirgðastjórnar stendur þá þar til einn mánuður er liðinn frá því að þeirri heimild lýkur, eða
  3. bráðabirgðastjórn hafi áður með samþykki Fjármálaeftirlitsins haldið hluthafafund eða fund stofnfjáreigenda og fyrirtækinu þar verið kjörin ný stjórn til að leysa hana af hólmi.

     Ljúki yfirráðum bráðabirgðastjórnar yfir fjármálafyrirtæki sjálfkrafa með því að starfstími hennar er á enda án þess að það hafi verið tekið til slita skal starfsleyfi þess afturkallað þá þegar hafi því ekki áður verið kjörin ný stjórn skv. 3. tölul. 3. mgr.

5. gr.

     101. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skilyrði og upphaf slitameðferðar.
     Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum.
     Fjármálafyrirtæki skal tekið til slita:
  1. eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé sitt fram yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í 84. gr.,
  2. eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins, stjórnar fyrirtækisins eða bráðabirgðastjórnar ef skylt er að slíta því samkvæmt samþykktum þess,
  3. eftir kröfu stjórnar fyrirtækisins eða bráðabirgðastjórnar ef það getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar þess muni líða hjá innan skamms tíma,
  4. eftir kröfu stjórnar fyrirtækisins og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins ef ákveðið hefur verið að slíta því á hluthafafundi eða fundi stofnfjáreigenda, enda hafi tillaga um slit verið samþykkt þar með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða og af hluthöfum eða stofnfjáreigendum sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið var með atkvæði fyrir á fundi.

     Kröfu um slit fjármálafyrirtækis skal beint til héraðsdóms í því umdæmi þar sem það yrði sótt í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Krafan skal gerð úr garði og með hana farið fyrir dómi eins og kröfu um gjaldþrotaskipti.
     Þegar dómsúrlausn hefur gengið um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita skipar héraðsdómari því slitastjórn sem í skulu sitja allt að fimm menn. Við skipun hennar tekur hún við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. þó 3. mgr. 103. gr. Að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni.
     Við slit fjármálafyrirtækis skal frestdagur ákveðinn eftir sömu reglum og gilda við gjaldþrotaskipti, en þó þannig að hann getur jafnframt ráðist af þeim degi sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt fyrirtækinu frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða skipað því bráðabirgðastjórn skv. 100. gr. a eða ella af því að héraðsdómi berst krafa um slit skv. 2. mgr. ef ekkert hefur áður gerst til að marka frestdag.

6. gr.

     102. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Meðferð krafna o.fl.
     Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.
     Þegar fjármálafyrirtæki hefur verið skipuð slitastjórn skal hún tafarlaust gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun vegna slitanna. Um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa skal beitt sömu reglum og við gjaldþrotaskipti.
     Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Að því leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt þeim lögum af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita.
     Ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst, en fundir slitastjórnar til að fjalla um viðurkenningu lýstra krafna nefnast kröfuhafafundir. Telji slitastjórn við lok kröfulýsingarfrests að líkur séu til að eignir fyrirtækisins nægi að fullu fyrir skuldum þess er henni að svo stöddu ekki skylt að taka afstöðu til þess hvar einstakar kröfur kunni að standa í réttindaröð.
     Þegar kröfulýsingarfrestur er á enda skal slitastjórn leggja mat á hvort horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að standa við skuldbindingar þess. Skýrsla um þetta mat skal lögð fram og kynnt á fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests.
     Að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests er slitastjórn heimilt í einu lagi eða mörgu að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu að því marki sem tryggt er að eignir fjármálafyrirtækisins hrökkvi til að minnsta kosti jafnhárrar greiðslu allra annarra krafna sem standa eins í réttindaröð og ekki hefur endanlega verið hafnað við slitin. Þess skal þá gætt að allir kröfuhafar sem fara með viðurkenndar kröfur í sömu stöðu í réttindaröð fái greiðslu á sama tíma, en frá því má þó víkja með samþykki þeirra sem ekki fá greitt eða samkvæmt ákvörðun slitastjórnar ef kröfuhafi býðst til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst má telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar munu fá á síðari stigum, þar á meðal að teknu tilliti til þess hvort kröfur þeirra beri vexti fram að greiðslu.

7. gr.

     103. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis o.fl.
     Við slit fjármálafyrirtækis ráðstafar slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar. Rísi ágreiningur um slíkar ráðstafanir skal leyst úr honum eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     Slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð, nema sýnt megi telja að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda séu meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Í þessum tilgangi er slitastjórn heimilt að virða að vettugi ályktun kröfuhafafundar sem hún telur andstæða þessu markmiði.
     Slitastjórn skal boða til kröfuhafafundar í sama skyni og skiptastjóri heldur skiptafundi um bústjórn við gjaldþrotaskipti. Hafi slitastjórn komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu skv. 5. mgr. 102. gr. að horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir skuldbindingum þess skal slitastjórn samhliða kröfuhafafundum efna til funda með hluthöfum eða stofnfjáreigendum til að kanna hug þeirra um ráðstöfun hagsmuna þess.
     Ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu má krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti.

8. gr.

     Á eftir 103. gr. laganna kemur ný grein, 103. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Lok slitameðferðar.
     Hafi slitastjórn lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna á hendur fjármálafyrirtæki og eftir atvikum tekið frá fé til greiðslu krafna sem ágreiningur stendur um og komið eignum þess eftir þörfum í verð lýkur hún slitameðferð með því annaðhvort:
  1. að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda ef fundur þeirra sem slitastjórn hefur boðað til hefur samþykkt með atkvæðum þeirra sem ráða yfir að minnsta kosti 2/3 hlutum hlutafjár eða stofnfjár að fyrirtækið taki upp starfsemi á ný og kjörin hefur verið ný stjórn til að taka við því úr höndum slitastjórnar, enda hafi Fjármálaeftirlitið veitt samþykki sitt til þess og fyrirtækið fullnægir öðrum skilyrðum laga til að hefja aftur starfsemi, eða
  2. að greiða hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna samkvæmt frumvarpi til úthlutunar sem gert skal eftir ákvæðum XXII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en sé um sparisjóð að ræða skal þó eignum, sem standa eftir að lokinni greiðslu stofnfjárhluta, varið eftir samþykktum hans og er óheimilt að ráðstafa þeim til stofnfjáreigenda, sbr. 4. mgr. 63. gr.

     Ljúka má slitameðferð samkvæmt því sem segir í 1. tölul. 1. mgr. þótt ekki sé lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna ef þeir kröfuhafar sem hafa ekki enn fengið fullnustu samþykkja það.
     Nægi eignir fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu krafna sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð getur slitastjórn þegar hún telur tímabært leitað nauðasamnings til að ljúka henni. Skal slitastjórn þá gera frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og boða til kröfuhafafundar til að bera það undir atkvæði. Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. sömu laga, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur hún kröfuhafafundi við þessar umleitanir. Fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt skal slitastjórn leita staðfestingar hans eftir reglum IX. kafla sömu laga. Ef nauðasamningur er staðfestur efnir slitastjórn eftir þörfum skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt honum og lýkur svo slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.
     Nú liggur fyrir að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til að leita nauðasamnings skv. 3. mgr. eða frumvarp að honum hefur ekki fengist samþykkt eða hafnað hefur verið kröfu um staðfestingu hans og skal þá slitastjórn krefjast þess fyrir héraðsdómi, þar sem hún var skipuð til starfa, að bú fyrirtækisins verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það sama getur kröfuhafi gert ef krafa hans hefur verið viðurkennd við slitameðferð og annaðhvort hafa nauðasamningsumleitanir slitastjórnar ekki borið árangur eða hann sýnir fram á að ekki séu lagaskilyrði til að leita nauðasamnings eða sá fjöldi kröfuhafa sé andvígur honum að útilokað sé að tekist geti að koma honum fram miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag fyrirtækisins. Til að hafa slíka kröfu uppi verður þó kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að koma fram gjaldþrotaskiptum fremur en að fyrirtæki verði áfram í slitameðferð.
     Sé bú fjármálafyrirtækis tekið til gjaldþrotaskipta skal það standa óraskað sem gert hefur verið við slitameðferð varðandi kröfur á hendur fyrirtækinu, þar á meðal innköllun til kröfuhafa og meðferð lýstra krafna, en skiptastjóri skal fá birta auglýsingu í Lögbirtingablaði um að búið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Um gjaldþrotaskiptin fer annars eftir almennum reglum að öðru leyti en því að ákvæði 2. mgr. 103. gr. gilda þar að breyttu breytanda, auk þess sem sá dagur sem dómsúrlausn gekk um að fjármálafyrirtækið væri tekið til slita skal við gjaldþrotaskiptin svara að því er varðar réttaráhrif til þess dags sem úrskurður gekk um þau.

9. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum, sbr. 4. gr. laga nr. 129/2008, fellur brott.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 3. gr. og 9. gr. laga þessara skulu 3. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008, og ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 129/2008, gilda áfram í upphaflegri mynd gagnvart fjármálafyrirtækjum sem njóta heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga, þar á meðal um framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar.

11. gr.

     Við gildistöku laga þessara fellur fyrri málsgrein ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008 brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Hafi Fjármálaeftirlitið fyrir gildistöku laga þessara skipað fjármálafyrirtæki skilanefnd á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008 og hún er enn að störfum, en fyrirtækið hefur ekki fengið heimild til greiðslustöðvunar, skal skilanefndin upp frá því sjálfkrafa verða bráðabirgðastjórn fyrirtækisins í skilningi 100. gr. a, sbr. 4. gr. laga þessara.

II.
     Um fjármálafyrirtæki sem njóta heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga skulu eftirfarandi sérreglur gilda:
  1. Heimild til greiðslustöðvunar skal haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara og má framlengja hana samkvæmt þeim reglum sem um ræðir í 2. mgr. 10. gr.
  2. Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, sbr. 1. efnismgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. laga þessara, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög þessi öðlast gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Þegar sú heimild rennur sitt skeið á enda skal fyrirtækið án sérstaks dómsúrskurðar sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir, en þó skal aðstoðarmaður hafa eftirlit með ráðstöfunum skilanefndar skv. 103. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga þessara.
  3. Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara. Verði sæti í skilanefnd laust eftir gildistöku laga þessara skal Fjármálaeftirlitið, ef þörf þykir á með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið, skipa mann til að taka við því.
  4. Til annarra verka slitastjórnar en um ræðir í 3. tölul. skal héraðsdómari eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipa fyrirtækinu slíka stjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga þessara. Þar skal jafnframt sjálfkrafa taka sæti sá sem gegnir starfi aðstoðarmanns fyrirtækisins við greiðslustöðvun og skal hann halda því sæti þótt henni ljúki.


III.
     Þrátt fyrir 5. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga þessara, skal frestdagur við slitameðferð á fjármálafyrirtæki ráðast af 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008 þegar það getur átt við.

IV.
     Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði getur Fjármálaeftirlitið gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhagserfiðleika og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, þar á meðal ef líkur eru á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis eru líklega fyrir hendi eða líkur standa til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár og önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins eru ekki líkleg til að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum einnig átt við að fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
     Við aðstæður eða atvik sem um ræðir í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun eða fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.
     Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga þessara um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga þessara ekki um þá ráðstöfun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
     Víki Fjármálaeftirlitið stjórn fjármálafyrirtækis í heild frá störfum skal því þegar í stað skipuð bráðabirgðastjórn. Ákvæði 100. gr. a gilda að öðru leyti um slíka stjórn og störf hennar.
     Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en það greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði.
     Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um framangreinda málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins.
     Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þessa ákvæðis.
     Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. júlí 2010.

Samþykkt á Alþingi 15. apríl 2009.