Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 616, 138. löggjafarþing 286. mál: rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 (skilafrestur skýrslu, meðferð á Alþingi o.fl.).
Lög nr. 146 30. desember 2009.

Lög um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. 4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skýrslunni skal skilað fyrir lok janúar 2010.
  2. Í stað 2. og 3. mgr. koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Alþingi kýs níu þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Nefndin skal skila tillögum sínum á núverandi löggjafarþingi.
         Um þingmannanefndina gilda ákvæði þingskapa um fastanefndir, eftir því sem við á, en nefndin setur sér að öðru leyti verklagsreglur. Hún gefur Alþingi skýrslu um störf sín, sbr. 26. og 31. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur lagt fram tillögur að öðrum þingmálum eftir því sem efni máls krefur og fylgt eftir ábendingum í skýrslunni um úrbætur á reglum með því að vísa þeim til viðkomandi fastanefndar ef ástæða er til.
         Ef nefndin telur nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um einstök atriði getur hún falið einum eða fleiri sérfróðum aðilum að rannsaka þau og gefa sér skýrslu um niðurstöðuna. Reglur II., III. og VI. kafla laga þessara gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.
         Nefndin skal svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til þess hvort einhverjum hluta rannsóknargagna verði skilað síðar til Þjóðskjalasafns en áætlað er, sbr. 5. mgr. 17. gr., út af fyrirhugaðri framhaldsrannsókn. Þeir sem annast framhaldsrannsókn eiga aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur aflað að því marki sem nauðsynlegt er í þágu rannsóknarinnar.
         Kosning þingmannanefndarinnar hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.


2. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 18. gr. og orðast svo:
     Rannsóknarnefndin afhendir Þjóðskjalasafni Íslands þá gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum hennar, sbr. 5. mgr. 17. gr. Rannsóknarnefndin tekur ákvörðun um hverjum af þeim gögnum sem nefndin hefur safnað ber að skila sem gagnagrunni samkvæmt þessu ákvæði og hvaða upplýsingar koma þar fram. Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að gera samning við aðra ríkisstofnun á grundvelli 30. gr. fjárreiðulaga um að rækja starfsskyldur safnsins um ákveðinn tíma samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
     Þegar rannsóknarnefndin afhendir gagnagrunna til Þjóðskjalasafns skal hún merkja þá eftir því hvort um er að ræða gagnagrunn með ópersónugreinanlegum upplýsingum eða persónugreinanlegum. Þjóðskjalasafni er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum í persónugreinanlegum gagnagrunnum nema að því marki sem reglur upplýsingalaga um aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga leyfa. Þjóðskjalasafni Íslands er hins vegar heimilt að afhenda afrit af þeim gagnagrunnum sem hafa að geyma ópersónugreinanlegar upplýsingar og upplýsingar sem verða ekki raktar til nafngreindra fyrirtækja.
     Taka skal sérstakt afrit af gagnagrunnunum til fræðilegra rannsókna. Þjóðskjalavörður ákveður hvort afmá beri persónuauðkenni úr gagnagrunnunum eða nota aðrar aðferðir til þess að vernda persónuupplýsingar. Persónuvernd úrskurðar um ágreining sem rís um ákvarðanir hans.
     Þjóðskjalavörður getur heimilað aðgang að afriti skv. 3. mgr. í öruggri aðstöðu safnsins til þess að gera fræðilega rannsókn, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
  1. ábyrgðarmaður rannsóknar og aðrir sem sjá um tölvuvinnslu á hans vegum heiti því að gæta þagmælsku um þær persónugreinanlegu upplýsingar sem þeir fá aðgang að sem og fjárhagsupplýsingar sem rekja má til nafngreindra fyrirtækja og undirriti skriflega yfirlýsingu þar um,
  2. þær upplýsingar sem er veittur aðgangur að má ekki fara með út úr húsnæði safnsins og ekki birta í rannsóknaniðurstöðum á persónugreinanlegan hátt eða þannig að þær verði raktar til nafngreindra fyrirtækja,
  3. virtar séu í hvívetna öryggisreglur sem þjóðskjalavörður skal setja um gagnagrunnana í samræmi við ákvæði 11. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

     Þjóðskjalavörður getur sett frekari skilyrði um hvernig haga beri aðgangi að gagnagrunnunum að fenginni umsögn Persónuverndar, m.a. til þess að tryggja öryggi gagnanna.
     Í umsókn ábyrgðarmanns skal gera ítarlega grein fyrir markmiði rannsóknarinnar, fræðilegu gildi hennar og hvernig staðið verði að framkvæmd hennar.
     Ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda að öðru leyti um gagnagrunna um bankahrunið, þ.m.t. eftirlit og úrræði Persónuverndar.
     Ábyrgðarmaður rannsóknar, sem óskar eftir að gera fræðilega rannsókn á gagnagrunnum um bankahrunið, skal greiða fyrir allan kostnað sem hlýst af framkvæmd rannsóknarinnar og eftirliti með því að reglum og skilmálum sé fylgt. Þurfi Þjóðskjalasafn að kalla til sérfræðing við framkvæmd eða eftirlit með rannsókninni skal ábyrgðarmaður rannsóknar jafnframt greiða þann kostnað samkvæmt reikningi, þar á meðal kostnað sem til fellur vegna eftirlits Persónuverndar.
     Ef maður, sem fengið hefur leyfi til þess að gera fræðilega rannsókn, eða annar aðili sem vinnur að rannsókninni brýtur ákvæði 4. eða 5. mgr. varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar það að gera rannsókn án leyfis eða á annan hátt en sótt var um.
     Nú brýtur maður 4. eða 5. mgr. af ásetningi eða gáleysi og má þá dæma hann til að greiða þeim sem upplýsingarnar varða bætur fyrir fjártjón og miska.

3. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 19. gr. og orðast svo:
     Kröfum í einkamáli og málum skv. 2. og 3. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, út af atriðum er koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða öðrum skýrslum eða frásögnum í tengslum við rannsóknina, verður ekki beint gegn þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni. Sama gildir ef mál er höfðað út af málsmeðferð í tilefni af henni. Íslenska ríkið ber ábyrgð á athöfnum þeirra eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Verði mál höfðað fyrir erlendum dómstóli gegn einstaklingi sem unnið hefur að rannsókninni, þrátt fyrir 1. málsl., greiðir íslenska ríkið allan kostnað hans við rekstur málsins og aðrar áfallnar kröfur af því tilefni.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. desember 2009.