Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 570, 138. löggjafarþing 82. mál: stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki (heildarlög).
Lög nr. 152 29. desember 2009.

Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.
     Markmið þessara laga er að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf með því annars vegar að veita nýsköpunarfyrirtækjum rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni og hins vegar að hvetja til þess að menn og lögaðilar fjárfesti í þeim að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til viðurkenndra nýsköpunarfyrirtækja, þó ekki til eftirtalinna aðila:
  1. Háskóla, opinberra stofnana (náttúrustofa, sjálfseignarstofnana o.fl.) né opinberra hlutafélaga.
  2. Fyrirtækja sem ekki uppfylla skilyrði II. kafla.


3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Aukning hlutafjár: Hækkun hlutafjár í skilningi V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
  2. Framlag til nýsköpunar: Útlagður kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
  3. Hlutabréfakaup: Kaup á hlutabréfum til aukningar á hlutafé fyrirtækisins, sbr. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
  4. Nýsköpun: Starfsemi sem leiðir til nýrrar og endurbættrar afurðar, þjónustu eða ferlis og markaðslegs ávinnings.
  5. Nýsköpunarfyrirtæki: Lögaðilar skv. 1. og 3. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem vinna að nýsköpun.
  6. Opinber hlutafélög: Hlutafélög eða einkahlutafélög sem eru beint eða óbeint í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á vegum þeirra.
  7. Rannís: Rannsóknamiðstöð Íslands sem er ríkisstofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra.
  8. Rannsóknar- og þróunarkostnaður: Beinn kostnaður, svo sem vegna sérhæfðra starfsmanna, tækja, húsnæðis, aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu og aðfanga.
  9. Rannsóknir: Tilraunir eða fræðileg vinna sem innt er af hendi með það í huga að afla nýrrar þekkingar á undirstöðum fyrirbæra og atburða.
  10. Skattaðili: Aðili sem er skattskyldur skv. I. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og á rétt á frádrætti skv. 30. og 31. gr. sömu laga.
  11. Skattafsláttur: Frádráttur frá tekjuskattsstofni vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 30. og 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  12. Skattfrádráttur: Frádráttur frá álögðum tekjuskatti eða endurgreiðsla samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  13. Verkferlar: Skipulag þar sem gert er ráð fyrir þróunarstarfi í starfslýsingu starfsmanna sem hafa þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum og aðstöðu til starfsins.
  14. Viðskiptaáætlun: Greinargerð um viðskiptahugmynd fyrirtækis, starfsemi þess og möguleika.
  15. Þróun: Kerfisbundin vinna byggð á fyrirliggjandi þekkingu sem hefur fengist með rannsóknum eða hagnýtri reynslu og miðar að því að framleiða ný efni, vörur og tæki.


II. KAFLI
Umsóknarferli.

4. gr.

Umsóknir til Rannís.
     Umsóknir samkvæmt lögum þessum skulu sendar Rannís á þar til gerðu eyðublaði eða með öðrum sambærilegum hætti.
     Lögaðili sem óskar eftir staðfestingu Rannís á að teljast nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum þessum skal senda umsókn þess efnis til Rannís í síðasta lagi 1. september ár hvert. Tilgreina skal hvort sótt er um staðfestingu vegna skattfrádráttar, sbr. 5. gr., eða hlutafjáraukningar, sbr. 6. gr. Sami lögaðili getur sótt um hvort tveggja.

5. gr.

Staðfesting vegna skattfrádráttar.
     Rannís skal veita lögaðila staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki í skilningi þessa ákvæðis, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
  1. að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu og viðskiptaáætlun sé vel skilgreind, og
  2. að sýnt sé fram á með gögnum að varið verði a.m.k. 5 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili, og
  3. starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á.

     Ef keypt hefur verið rannsóknarvinna af öðrum viðurkenndum fyrirtækjum, háskólum eða stofnunum er Rannís heimilt að taka tillit til þess kostnaðar, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn.

6. gr.

Staðfesting vegna hlutafjáraukningar.
     Rannís skal veita lögaðila staðfestingu sem nýsköpunarfyrirtæki í skilningi þessa ákvæðis, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
  1. að rannsóknar- og þróunarkostnaður samkvæmt ársreikningum lögaðilans undanfarin tvö af þremur árum næst á undan umsóknarári hafi numið meira en 1,5% af rekstrartekjum eða rekstrarkostnaði eftir því hvor fjárhæðin er hærri, eða varið hafi verið a.m.k. 40 millj. kr. til rannsókna og þróunar á ári undanfarin tvö ár, og
  2. að verkferlar séu vel skilgreindir, þ.e. skipulag þar sem gert er ráð fyrir þróunarstarfi í starfslýsingu starfsmanna sem hafa þjálfun og reynslu af rannsóknarstörfum og aðstaða sé til starfsins, og
  3. að hluthafafundur hafi tekið ákvörðun um aukningu hlutafjár skv. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og
  4. að upplýsingagjöf til fjárfesta verði tryggð í þeim tilgangi að vernda fjárfesta, tryggja eðlilega þátttöku nýsköpunarfyrirtækja á markaði og stuðla að eðlilegri verðmyndun og seljanleika.

     Ef keypt hefur verið rannsóknarvinna af öðrum viðurkenndum fyrirtækjum, háskólum eða stofnunum er Rannís heimilt að taka tillit til þess kostnaðar, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn.
     Hafi rannsóknar- og þróunarkostnaður ekki verið sérgreindur í ársreikningi skal umsækjandi gera ítarlega grein fyrir honum með öðrum sannanlegum hætti.

7. gr.

Samstarfsverkefni.
     Ef um er að ræða samstarfsverkefni fleiri en eins umsækjanda skal hver um sig hafa hlotið staðfestingu Rannís, sbr. 5. og/eða 6. gr.

8. gr.

Málsmeðferð.
     Sérstök fagnefnd Rannís skipuð reynslumiklum mönnum úr nýsköpunarmálum kemur að málsmeðferð samkvæmt lögum þessum.
     Rannís skal innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar taka ákvörðun um hvort lögaðili hljóti staðfestingu skv. 5. eða 6. gr. og tilkynna umsækjanda um þá ákvörðun.
     Rannís skal tilkynna til embættis ríkisskattstjóra um lögaðila sem uppfyllt hafa annars vegar skilyrði 5. gr. og hins vegar 6. gr.
     Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir lögaðila sem hlotið hafa staðfestingu Rannís og skal hún vera öllum aðgengileg.
     Um meðferð umsókna hjá Rannís fer eftir lögum þessum og öðrum lögum sem um stofnunina gilda.
     Ákvarðanir Rannís samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

9. gr.

Gildistími staðfestingar.
     Staðfesting Rannís skv. 5. og/eða 6. gr. skal miðast við umsóknarár og gildir fyrir það almanaksár. Umsókn um framlengingu staðfestingar skal lögð fram árlega eigi síðar en 1. apríl. Rannís skal taka umsókn um framlengingu til afgreiðslu innan tveggja mánaða frá móttöku hennar. Fallist Rannís á framlengingu gildir staðfestingin fyrir það ár.

III. KAFLI
Framkvæmd.

10. gr.

Skattfrádráttur.
     Nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hefur staðfestingu Rannís á tekjuárinu skv. 5. gr. á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 15 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti skal vera 50.000.000 kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðila, sbr. 2. mgr. 5. gr., skal hámark kostnaðar samtals vera 75.000.000 kr. Sé um að ræða samstarfsverkefni, sbr. 7. gr., skal sama hámark gilda fyrir verkefnið í heild en frádrætti skipt hlutfallslega milli nýsköpunarfyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.
     Skilyrði frádráttar er að kostnaði vegna hvers rannsóknar- og þróunarverkefnis sé haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis og að gögn séu aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, sbr. X. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     Kostnaður sem ekki fellur til í atvinnurekstri tengdum rannsóknum og þróun skapar ekki frádráttarrétt hjá söluaðila, enda færist slíkur kostnaður til frádráttar hjá kaupanda.
     Árlega skal gera grein fyrir kostnaði vegna rannsókna og þróunar í skattframtali á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Kostnaðargreinargerð skal árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um skiptingu og meðferð óbeins kostnaðar, þ.m.t. um fyrningu, fjármagnskostnað og launakostnað, sem til fellur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna í þessu sambandi.

11. gr.

Greiðsla skattfrádráttar.
     Skattfrádráttur skv. 10. gr. kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda lögaðila, sbr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps skal frádrátturinn greiddur út, að teknu tilliti til 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við ákvörðun á skattalegu tapi í þessu sambandi skal einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem það hlýtur staðfestingu skv. 5. gr.

12. gr.

Opinberar styrkveitingar og útseldar rannsóknir.
     Hafi lögaðili hlotið styrk frá opinberum aðila til sama nýsköpunarverkefnis og umsókn um skattfrádrátt skv. 5. gr. tekur til getur frádráttur skv. 1. mgr. 10. gr. að viðbættri styrkfjárhæð aldrei orðið hærri en 70% af hámarkskostnaði við verkefnið.

13. gr.

Kostnaður á umsóknarári.
     Á því rekstrarári sem nýsköpunarfyrirtæki fær staðfestingu Rannís á að skilyrði 5. gr. séu uppfyllt skal heimilt að telja til rannsóknar- og þróunarkostnaðar í skilningi laganna þau útgjöld sem beint tengjast viðkomandi verkefni og lagt hefur verið í á árinu. Kostnaður sem fellur til vegna umsóknar til Rannís telst ekki með í þessu sambandi.

14. gr.

Skattafsláttur vegna hlutafjáraukningar.
     Skattaðili sem kaupir hlutabréf í nýsköpunarfyrirtæki, sem hlotið hefur staðfestingu Rannís skv. 6. gr., getur dregið kaupverð þeirra hlutabréfa frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu innan þeirra marka sem um getur í 3. tölul. 1. mgr. B-liðar 30. gr. og 12. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sama gildir um nýsköpunarfyrirtæki, sbr. 1. málsl., heimilisfast innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir því sem við á sem hlotið hefur viðurkenningu sambærilegrar stofnunar og Rannís.
     Skattafsláttur skv. 1. mgr. er bundinn því skilyrði að um hlutafjáraukningu sé að ræða í viðkomandi nýsköpunarfyrirtæki, sbr. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

15. gr.

Takmarkanir á heildarfjárhæð opinberra styrkveitinga.
     Heildarfjárhæð opinbers stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum þessum takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Hafi lögaðili, sem hlotið hefur staðfestingu skv. 5. og/eða 6. gr., jafnframt notið annars opinbers stuðnings til sama rannsóknar- og þróunarverkefnis getur frádráttur skv. 1. mgr. 10. gr., að viðbættri annarri ríkisaðstoð, aldrei orðið hærri en leyfilegt hámarkshlutfall af styrkhæfum kostnaði vegna viðkomandi verkefnis eftir því sem nánar er kveðið á um í leiðbeinandi reglum um ríkisaðstoð til verkefna á sviði nýsköpunar eða rannsókna og þróunar.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

16. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara.

17. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010. Lögin skulu koma til endurskoðunar innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2009.