Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 539, 138. löggjafarþing 75. mál: Siglingastofnun Íslands (gjaldtökuheimild og sala sérhæfðrar þjónustu).
Lög nr. 154 29. desember 2009.

Lög um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. og 6. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein sem verður 3. gr. a og orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tekjur Siglingastofnunar Íslands.
     Siglingastofnun Íslands aflar sér tekna á eftirfarandi hátt:
  1. Með innheimtu þjónustugjalda sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
  2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna á starfssviði stofnunarinnar, þ.m.t. útgáfu starfsleyfa og atvinnuskírteina og veitingu undanþágna til starfa á skipum.
  3. Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna.
  4. Með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði.
  5. Með gjaldtöku sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.

     Siglingastofnun Íslands skal greina kostnað allra verkefna, hvort sem fjármögnun byggist á sértekjum eða framlögum úr ríkissjóði. Kostnaðargreining tekur til alls kostnaðar.
     Gjöld skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem samgönguráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Til sérlaga skv. 1. tölul. 1. mgr. teljast lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002, lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, lög um köfun, nr. 31/1996, lög um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, lög um siglingavernd, nr. 50/2004, hafnalög, nr. 61/2003, lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, og lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað sem hlýst af því að veita viðkomandi þjónustu vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu siglinga, auk ferða og uppihalds. Fjárhæð gjalda tekur mið af kostnaði sem hlýst af eftirliti og þjónustu í hverju tilviki.
     Gjöld skv. 4. tölul. 1. mgr. skulu ákvörðuð í viðmiðunargjaldskrá sem Siglingastofnun setur. Þann hluta starfsemi Siglingastofnunar Íslands sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald taka mið af markaðsverði. Sala á þjónustu samkvæmt þessari málsgrein skal byggjast á samningum.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 2009.