Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1124, 138. löggjafarþing 616. mál: Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum).
Lög nr. 46 26. maí 2010.

Lög um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 49/2009, um Bjargráðasjóð.

1. gr.

     Orðin „allt að 80 millj. kr. á ári“ í b-lið 5. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (A.)
     Þrátt fyrir ákvæði 53.–55. gr. er Matvælastofnun heimilt að ákveða að beingreiðslur skv. X. kafla verði greiddar til lögbýlis samkvæmt greiðslumarki þess óháð framleiðslu á lögbýlinu, þó ekki lengur en til fardaga 2012, ef framleiðsluskilyrði á lögbýlinu hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða, enda sé a.m.k. annað þessara skilyrða einnig uppfyllt:
  1. Greiðslumark lögbýlis, að hámarki eins og það var við upphaf náttúruhamfara, er lagt inn til geymslu, sbr. 3. mgr. 53. gr. Beingreiðslur eru greiddar skráðum handhafa réttar til beingreiðslna með jöfnum framlögum þannig hann verði jafnsettur öðrum sem njóta greiðslnanna.
  2. Framleiðandi gerir samkomulag við framleiðanda á öðru lögbýli um tímabundna nýtingu á greiðslumarki lögbýlisins (en ekki aðilaskipti). Þar skal kveðið á um að mjólk verði lögð inn í afurðastöð í nafni þess lögbýlis þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast. Beingreiðslur skal greiða skráðum handhafa réttar til beingreiðslna á því býli. Skylt er að tilkynna þessa tilhögun fyrir fram til Matvælastofnunar.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð.
     
     b. (B.)
     Ráðherra er heimilt að víkja frá ásetningshlutfalli skv. 3. mgr. 39. gr. á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012 á býlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða.
     Matvælastofnun er heimilt að ákveða að sauðfjárframleiðendur sem búa á býlum þar sem svo hagar til sem að framan greinir, með þeim afleiðingum að búskapur hefur dregist saman eða fallið niður um tíma, geti haldið venjulegri gæðastýringargreiðslu úr ríkissjóði skv. 41. gr. á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012. Við ákvörðun greiðslnanna er heimilt að taka mið af því framleiðsluári þegar afurðir voru mestar á árunum 2007–2009. Krafa framleiðanda um ákvörðun gæðastýringargreiðslna samkvæmt þessu ákvæði skal sett fram eigi síðar en í lok viðkomandi framleiðsluárs.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, m.a. hvernig skuli staðið að úttekt á framleiðsluskilyrðum.

III. KAFLI
Gildistaka.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 2010.