Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1507, 139. löggjafarþing 186. mál: meðhöndlun úrgangs (skilakerfi fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir og EES-reglur).
Lög nr. 58 1. júní 2011.

Lög um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Við bætast eftirfarandi skilgreiningar í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
    1. Framleiðandi og innflytjandi rafhlaðna og rafgeyma: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,
      1. framleiðir og selur rafhlöður eða rafgeyma, eða
      2. flytur rafhlöður eða rafgeyma inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.
    2. Meðferð úrgangs: meðhöndlun úrgangs önnur en endanleg förgun.
    3. Námuúrgangsstaður: staður í námu þar sem spilliefni sem notuð eru eða til falla við námuvinnsluna eru meðhöndluð sem úrgangur.
    4. Rafhlaða eða rafgeymir: uppspretta raforku sem myndast við beina umbreytingu efnaorku og samanstendur af einu einhlaði eða fleiri eða einu endurhlaði eða fleiri.
  2. Eftirfarandi skilgreiningar orðast svo:
    1. Raf- og rafeindatæki: búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið og er hannaður til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1500 volt þegar um er að ræða jafnstraum, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum.
    2. Raf- og rafeindatækjaúrgangur: raf- og rafeindatæki sem fleygt er, í heild eða að hluta, þar á meðal íhlutir, undireiningar og aukahlutir.
  3. Í stað tilvísunarinnar „sbr. 20. gr.“ í skilgreiningunum Spilliefni og Úrgangur kemur: sbr. 29. gr.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 3. og 4. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra gefur út til tólf ára í senn almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt. Umhverfisstofnun vinnur tillögu að áætluninni og leggur fyrir ráðherra, að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og fleiri aðila eftir því sem við á. Áætlunin skal taka mið af lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu og aðgerðir eða stefnumörkun til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun. Umhverfisstofnun skal auglýsa drög að landsáætlun í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Almenningi skal tryggður aðgangur að áætluninni, m.a. á vefsetri Umhverfisstofnunar. Meta skal áætlunina á a.m.k. sex ára fresti og endurskoða hana eftir þörfum.
         Sveitarstjórn skal semja og staðfesta áætlun sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja markmiðum landsáætlunar, sbr. 3. mgr. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og gerð grein fyrir því hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum landsáætlunar. Sveitarstjórnir hafa heimild til að gera sameiginlega áætlun fyrir sín svæði eða svæði einstakra sorpsamlaga. Við gerð áætlunarinnar skal auglýsa hana í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Kynna skal áætlunina í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, þegar við á. Almenningi skal tryggður aðgangur að áætluninni og hún skal aðgengileg á netinu. Meta skal áætlunina á a.m.k. sex ára fresti og gera breytingar á henni sé þörf á. Áætlunin skal auglýst eins og hér að framan greinir á a.m.k. sex ára fresti, hvort sem henni hefur verið breytt eður ei.
  3. 2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Sveitarstjórn ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: útgefandi.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir förgunarstaði úrgangs. Heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi fyrir aðrar móttökustöðvar og aðra meðferð úrgangs samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. þó 3. og 4. málsl. Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir söfnunar- og móttökustöðvar ef þær eru reknar í nánum landfræðilegum tengslum við förgunarstaði. Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir meðhöndlun spilliefna, aðra en flutning, en söfnunar- og móttökustöðvum sem heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi er þó heimilt að taka á móti tilteknum spilliefnum frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum enda verði ekki um aðra meðhöndlun að ræða en söfnun og geymslu til skamms tíma.
  4. Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: útgefanda starfsleyfis.
  5. Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: Útgefandi.
  6. Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 5. mgr. kemur: útgefanda starfsleyfis.
  7. Í stað orðanna „gefa út starfsleyfi fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram“ í 6. mgr. kemur: auglýsa tillögu að starfsleyfi fyrr en niðurstaða mats á umhverfisáhrifum liggur fyrir.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sbr. 32. og 33. gr.“ kemur: sbr. 42. og 43. gr.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Umhverfisstofnun getur óskað eftir upplýsingum um magn, tegund og uppruna úrgangs frá rekstraraðila, skilakerfi og frá félagi sem sér um söfnun og endurvinnslu umbúða sem falla undir lög nr. 52/1989, um ráðstöfun gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.


5. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „sbr. 22. gr.“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: sbr. 31. gr.

6. gr.

     Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Rafhlöður og rafgeymar, með fjórum nýjum greinum, 20.–23. gr., svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:
     
     a. (20. gr.)
Skyldur sveitarfélaga og söluaðila.
     Söfnunarstöðvar sem sveitarstjórnir sjá um að starfræktar séu í sveitarfélagi, sbr. ákvæði 5. mgr. 4. gr., skulu hafa aðstöðu fyrir móttöku á rafhlöðum og rafgeymum frá heimilum eins og nánar er kveðið á um í reglugerð. Ber söfnunarstöðvum að taka við slíkum úrgangi gjaldfrjálst.
     Sveitarfélög skulu veita leiðbeiningar um hvernig beri að flokka rafhlöður og rafgeyma og skila þeim til söfnunarstöðva sveitarfélaga og upplýsa um að rafhlöður og rafgeymar mega ekki fara með öðrum úrgangi.
     Þeim sem selja rafhlöður og rafgeyma og dreifa þeim ber að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum á sölu- eða dreifingarstað gjaldfrjálst og tryggja viðeigandi ráðstöfun.
     
     b. (21. gr.)
Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á rafhlöðum og rafgeymum.
     Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á þeim rafhlöðum og rafgeymum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn.
     Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun á rafhlöðum og rafgeymum, að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva, og fjármagna upplýsingagjöf samkvæmt ákvæðum 22. gr. Framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með því að vörurnar beri úrvinnslugjald samkvæmt lögum um úrvinnslugjald.
     Seljandi rafhlaðna og rafgeyma sem falla undir lög þessi og seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð framleiðanda og innflytjanda samkvæmt lögum þessum.
     
     c. (22. gr.)
Upplýsingaskylda framleiðenda og innflytjenda.
     Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma skulu í upplýsingum sem ætlaðar eru kaupanda upplýsa um hvar sé heimilt að skila rafhlöðum og rafgeymum, að rafhlöður og rafgeymar megi ekki fara með öðrum úrgangi, að hægt sé að skila rafhlöðum og rafgeymum án greiðslu og að ábyrgst sé að úrgangurinn verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Jafnframt skal upplýsa um áhrif rafhlaðna og rafgeyma á heilsu manna og umhverfi. Loks skulu notendur upplýstir um merkingu á rafhlöðum og rafgeymum og hvað þær þýða.
     
     d. (23. gr.)
Skráning framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna og rafgeyma.
     Úrvinnslusjóður skal halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma hér á landi.

7. gr.

     Við lögin bætist nýr kafli, V. kafli, Sérákvæði um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, með fimm nýjum greinum, 24.–28. gr., svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:
     
     a. (24. gr.)
Útgáfa starfsleyfis.
     Námuúrgangsstaður er förgunarstaður og skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir.
     Ef rekstraraðili námuúrgangsstaðar hyggst gera breytingar á rekstrinum sem varðað geta starfsleyfið eða flytja reksturinn ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun um það með hæfilegum fyrirvara. Umhverfisstofnun metur innan fjögurra vikna frá móttöku tilkynningar hvort nauðsynlegt er að gefa út nýtt starfsleyfi vegna þeirra breytinga sem rekstraraðili hefur tilkynnt um.
     Ef forsendur breytast er Umhverfisstofnun heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en gert var ráð fyrir þegar leyfið var gefið út, breytingar verða á rekstrinum vegna tækniþróunar eða breytingar á reglum um mengunarvarnir.
     Ef fyrirhugaður námuúrgangsstaður er háður mati á umhverfisáhrifum skal ekki auglýsa tillögu að starfsleyfi fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram.
     
     b. (25. gr.)
Umsókn um starfsleyfi.
     Umsókn um starfsleyfi fyrir námuúrgangsstað skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. fylgja úrgangsáætlun, sbr. 26. gr., og starfsleyfistrygging, sbr. 28. gr.
     
     c. (26. gr.)
Úrgangsáætlun.
     Rekstraraðili námuúrgangsstaðar skal gera úrgangsáætlun sem miðar að því að lágmarka úrgang og kveður á um meðhöndlun og þá sérstaklega endurnýtingu eða förgun á námuúrgangi. Við áætlunargerð skal hafa sjálfbærni í huga.
     Úrgangsáætlun skal hið minnsta innihalda upplýsingar um flokkun námuúrgangsstaðarins, þar sem það á við, og röksemdir fyrir henni, tegund og magn úrgangs sem áætlað er að falli til, einnig upplýsingar um áhrif úrgangsins á umhverfi og heilsu manna, greinargerð um aðgerðir til að draga úr áhættu ef einhver er, áætlun um eftirlit og vöktun, upplýsingar um lokun, um aðgerðir í kjölfar lokunar, um aðgerðir til að draga úr hættu á mengun vatns, lofts og jarðvegs, sem og niðurstöður könnunar á áhrifasvæði námuúrgangsstaðarins.
     
     d. (27. gr.)
Viðbragðsáætlun.
     Fyrir námuúrgang sem flokkast sem hættulegur skal rekstraraðili staðarins gera viðbragðsáætlun vegna hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna og setja fram aðgengilegar upplýsingar um þá hættu.
     Námuúrgangsstaður skal flokkaður sem hættulegur ef:
  1. líkur eru á að hrun haugs eða stíflubrestur á námuúrgangsstaðnum geti valdið stórslysi samkvæmt áhættumati sem gert er fyrir staðinn, en í því skal m.a. tekið tillit til umfangs námuúrgangsstaðarins, einnig fyrirhugaðs framtíðarumfangs, staðsetningar hans og umhverfisáhrifa frá honum, eða
  2. á staðnum er úrgangur sem yfir ákveðnum mörkum flokkast sem spilliefni, eða
  3. á staðnum eru efni eða efnablöndur sem yfir ákveðnum mörkum flokkast sem hættuleg.

     Viðbragðsáætlun skal liggja fyrir áður en starfsleyfi er gefið út.
     
     e. (28. gr.)
Starfsleyfistrygging.
     Auk almennra skilyrða sem tilgreind eru í 8., 26. og 27. gr. er það skilyrði starfsleyfis fyrir námuúrgangsstað að rekstraraðili leggi fram fullnægjandi fjárhagslega tryggingu eða ábyrgð fyrir því að uppfylltar verði þær skyldur sem starfsleyfinu fylgja, þar á meðal um lokunar- og eftirlitsaðgerðir eftir lokun námuúrgangsstaðarins.
     Starfsleyfistrygging skal gilda í 30 ár eftir að námuúrgangsstað er lokað. Fjárhæð tryggingar skal tiltekin í starfsleyfi. Fjárhæð tryggingar skal vera í samræmi við umhverfisáhrif sem líklegt er að verði af starfseminni og þann kostnað sem fylgir því að byggja upp svæðið eftir lokun. Einnig skal taka mið af þeim kostnaði sem hlýst af vöktun og sýnatöku.
     Aðför má ekki gera í tryggingunni nema til fullnustu skyldu rekstraraðila til aðgerða í samræmi við starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna sem verður 29. gr.:
  1. Við bætast tveir nýir stafliðir, e- og f-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
    1. töluleg markmið um endurnýtingu og endurnotkun úrgangs og hlutverk Umhverfisstofnunar við að hafa eftirlit með því að sett markmið náist,
    2. hvaða úrgang heimilt er að meðhöndla á námuúrgangsstað, flokkun, hönnun og stjórnun námuúrgangsstaðar, kröfur um úrgangsáætlanir frá rekstraraðilum námuúrgangsstaðar og kröfur um starfsleyfistryggingu.
  2. E-liður, sem verður g-liður, orðast svo: nánari atriði um innihald landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs og áætlana sveitarstjórna skv. 4. gr.
  3. Í stað tilvísunarinnar „skv. 22. gr.“ í f-lið, sem verður h-liður, kemur: skv. 31. gr.
  4. Í stað tilvísunarinnar „skv. 24. gr.“ í h-lið, sem verður j-liður, kemur: skv. 33. gr.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna sem verður 30. gr.:
  1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Á hverri söfnunarstöð skal einungis starfa eitt skilakerfi.
  2. Í stað orðanna „gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu stýrinefndar og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: 11. gr.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna sem verður 31. gr.:
  1. Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Framleiðandi og innflytjandi bera ábyrgð á raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn. Tilgreina skal í reglugerð þau raf- og rafeindatæki sem falla undir þessi lög, tollskrárnúmer þeirra og flokkun.
  2. 2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem fellur til á landinu öllu. Þó er frátalin söfnun til söfnunarstöðva sveitarfélaga ef skilakerfi notast við þær við söfnun sína.
  3. Orðið „sveitarfélaga“ í 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  4. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Óheimilt er að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni raf- og rafeindatæki sem falla undir þessi lög nema framleiðandi og innflytjandi þess sé aðili að skilakerfi.
         Tollafgreiðsla raf- og rafeindatækis sem fellur undir þessi lög er háð því að innflytjandi og framleiðandi þess sé aðili að skilakerfi.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna sem verður 34. gr.:
  1. B-liður 1. mgr. orðast svo: tryggja söfnun og móttöku raf- og rafeindatækjaúrgangs alls staðar á landinu, svo sem frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga, og í samráði við sveitarfélögin.
  2. Á eftir 3. mgr., koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Safni skilakerfi raf- og rafeindatækjaúrgangi umfram hlutdeild sína í heildarmagni skv. 3. mgr. stofnast krafa á hendur skilakerfum sem hafa safnað undir hlutdeild sinni í heildarmagni. Tilgreina skal í reglugerð hvernig staðið skal að uppgjöri milli skilakerfa, þar á meðal um útreikning fjárkröfu milli skilakerfa og um einingarverð á hvert kíló eftir flokkum raf- og rafeindatækja. Stýrinefnd skal, að lágmarki ársfjórðungslega, reikna út markaðshlutdeild hvers skilakerfis og heildarmagn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem safnað hefur verið á tilteknu tímabili. Það ræðst af markaðshlutdeild skilakerfis, þ.e. hlutfalli af innflutningi og/eða framleiðslu raf- og rafeindatækja, hversu miklu skilakerfi ber að safna af raf- og rafeindatækjaúrgangi á því tímabili.
         Skilakerfi skal tryggja að söfnun og móttaka á raf- og rafeindatækjaúrgangi fari fram að lágmarki í hverju sveitarfélagi og í hverjum byggðarkjarna þar sem starfræktar eru móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir sambærilegan úrgang, t.d. spilliefni. Í öðrum byggðarkjörnum skulu sveitarfélög sjá til þess með samningi við skilakerfi að íbúar eigi þess kost að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Séu fleiri en eitt skilakerfi að störfum skal miða við að eitt skilakerfi starfi að lágmarki í hverju sveitarfélagi og í hverjum byggðarkjarna þar sem starfræktar eru móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir sambærilegan úrgang, t.d. spilliefni. Skilakerfi skal á vefsetri sínu birta upplýsingar um það hvar unnt er að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi.
         Eigi síðar en sex vikum eftir hver ársfjórðungamót skal skilakerfi gera stýrinefnd grein fyrir eftirfarandi atriðum fyrir undangengna þrjá mánuði:
    1. hvaða framleiðendur og innflytjendur eru aðilar að skilakerfinu,
    2. upplýsingar um heildarmagn raf- og rafeindatækja í kílóum sem hver og einn framleiðandi og innflytjandi hefur sett á markað eða tekið til eigin nota,
    3. upplýsingar um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs í kílóum sem safnað hefur verið,
    4. upplýsingar um ráðstöfun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

  4. Í stað tilvísunarinnar „2. málsl. 4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 2. málsl. 7. mgr.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna sem verður 35. gr.:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Stjórn Úrvinnslusjóðs, sbr. lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, gegnir jafnframt hlutverki stýrinefndar. Stýrinefndin starfar sjálfstætt.
  3. Í stað 1. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú eru fleiri en eitt skilakerfi að störfum og ekki næst samkomulag um landfræðilega skiptingu við starfsemi þeirra, og skal stýrinefnd þá leita hagkvæmra leiða til þess að söfnun, móttaka og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum fari fram með skynsamlegum hætti. Skal hún hafa að leiðarljósi að tryggt sé að söfnun fari fram að lágmarki í hverju sveitarfélagi og í hverjum byggðarkjarna þar sem starfræktar eru móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir sambærilegan úrgang, t.d. spilliefni.
  4. A-liður 4. mgr. orðast svo: hafa eftirlit með því að framleiðendur og innflytjendur séu aðilar að skilakerfi.
  5. B-liður 4. mgr. fellur brott og breytist röð annarra stafliða samkvæmt því.
  6. Í stað orðanna „sem fram kemur í viðauka I“ í d-lið 4. mgr. kemur: sbr. 31. gr.
  7. 2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Stofnuninni er heimilt að beita skilakerfi þvingunarúrræðum samkvæmt lögum þessum.
  8. Orðin „rekstri skráningarkerfis, sbr. 27. gr.“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.


13. gr.

     27. gr. laganna, sem verður 36. gr., orðast svo:
     Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja ber að skrá sig hjá Umhverfisstofnun a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir lög þessi er sett á markað, seld eða tekin til eigin nota hér á landi. Skilakerfi er heimilt að skrá þá framleiðendur og innflytjendur sem aðilar eru að skilakerfinu hjá Umhverfisstofnun.
     Umhverfisstofnun skal halda skrá með upplýsingum um alla framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja.
     Ráðherra er heimilt að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar að setja reglugerð um skráningu framleiðenda og innflytjenda. Í reglugerðinni skal fjallað um skyldu framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja til að skrá sig og skila upplýsingum um innflutning eða framleiðslu á raf- og rafeindatækjum til Umhverfisstofnunar og á hvaða hátt það skuli gert. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa, svo og annarra hagsmunaaðila, við gerð tillagna að reglugerð.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna sem verður 37. gr.:
  1. 1. og 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Telji stýrinefnd að einhver framleiði eða flytji inn raf- og rafeindatæki sem falla undir lögin en sé ekki aðili að skilakerfi skal hún tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnunin skal að fenginni tilkynningu gefa þeim sem um ræðir kost á að tjá sig um hvort hann framleiðir eða flytur inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir lögin.
  2. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðsins „Stýrinefnd“ í 2. og 3. mgr. kemur: Umhverfisstofnun sem og stýrinefnd.
  4. Í stað orðanna „sbr. viðauka I“ í 2. mgr. kemur: sbr. 31. gr.
  5. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Til að sannreyna framleiðslu-, innflutnings- og sölumagn raf- og rafeindatækja er Umhverfisstofnun sem og stýrinefnd heimilt að óska eftir gögnum um sölu raf- og rafeindatækja úr bókhaldi skilakerfa eða framleiðanda og innflytjanda. Löggiltur endurskoðandi skal staðfesta með undirskrift sinni að gögn og upplýsingar skv. 1. málsl. séu réttar. Skylt er að veita aðgang að umbeðnum gögnum innan 14 daga frá því að þeirra er óskað.
  7. Í stað orðanna „þeir fá“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: hún fær.


15. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna, sem verður 37. gr., kemur ný grein, 38. gr., sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gjaldtaka.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu, eftirlit og verkefni stofnunarinnar vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs. Upphæð gjalda skal nema kostnaði við veitta þjónustu og verkefni samkvæmt þessum kafla.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu, eftirlit og verkefni Úrvinnslusjóðs vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs. Upphæð gjalda skal nema kostnaði við veitta þjónustu og verkefni samkvæmt þessum kafla.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna sem verður 39. gr.:
  1. Í stað tilvísunarinnar „sbr. 21. gr.“ í a-lið kemur: sbr. 30. gr.
  2. Í stað tilvísunarinnar „sbr. ákvæði 23., 24. og 25. gr.“ í e-lið kemur: sbr. ákvæði 32., 33. og 34. gr.
  3. Orðin „sem falla undir viðauka I“ í f-lið falla brott.
  4. I-liður orðast svo: skrá yfir tollskrárnúmer raf- og rafeindatækja sem falla undir lög þessi og í hvaða vöruflokk þau falla.
  5. Við bætast tveir nýir stafliðir, l- og m-liður, svohljóðandi:
    1. uppgjör á milli skilakerfa, þar á meðal útreikning fjárkröfu milli skilakerfa og einingarverð fyrir hvert kíló, sbr. ákvæði 4. mgr. 34. gr.,
    2. fjölda og dreifingu móttökuaðstöðu fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang.


17. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „skv. 24. gr.“ í 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: skv. 33. gr.

18. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „skv. 22. gr.“ í 4. mgr. 33. gr. laganna kemur: skv. 31. gr.

19. gr.

     Á eftir 6. mgr. 38. gr. laganna, sem verður 48. gr., kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sinni skilakerfi fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang ekki tilmælum um úrbætur og um alvarlegt eða ítrekað tilvik er að ræða er Umhverfisstofnun heimilt að svipta skilakerfið leyfi til að starfa.

20. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna, sem verður 49. gr., orðast svo: Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis samkvæmt lögum þessum má kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin var tekin.

21. gr.

     Viðauki I við lögin fellur brott.

22. gr.

Innleiðing.
     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE sem vísað er til í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 frá 5. febrúar 2009, svo og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma sem vísað er til í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007.

23. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 2. mgr. d-liðar 10. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2012.

24. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum:
    1. 7. gr. laganna fellur brott.
    2. Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
      1. Orðin „einnota drykkjarvöruumbúðir með skilagjaldi úr áli, stáli, gleri og plastefnum, sbr. viðauka III“ í 1. tölul. 1. mgr. falla brott.
      2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      3.      Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á þeim rafhlöðum og rafgeymum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka X og XI. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun á rafhlöðum og rafgeymum að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva sveitarfélaga og verslana. Framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með því að vörurnar beri úrvinnslugjald.
    3. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    4.      Ráðherra skipar sex manna stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar. Fimm meðstjórnendur skulu skipaðir að fenginni tilnefningu eftirfarandi aðila: einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn sem Samtök iðnaðarins tilnefna, einn sem SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu tilnefna, einn sem Félag atvinnurekenda tilnefnir og einn sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir. Varaformaður sem ráðherra skipar, eftir tilnefningu stjórnar, skal koma úr hópi stjórnarmanna. Þurfi atkvæðagreiðslu um afgreiðslu mála ræður atkvæði formanns úrslitum falli atkvæði jöfn.
    5. Ákvæði til bráðabirgða I–III í lögunum falla brott.
    6. Viðauki III við lögin, Einnota drykkjarvöruumbúðir með skilagjaldi úr áli, stáli, gleri og plastefnum, fellur brott.
  2. Lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum:
  3.      Eftirfarandi breytingar verða á fylgiskjali I við lögin:
    1. 12. tölul. orðast svo: Förgunarstaðir fyrir úrgang.
    2. 13. tölul. orðast svo: Meðhöndlun og förgun spilliefna, þ.m.t. staðir fyrir námuúrgang.

  4. Lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum: 4. gr. laganna orðast svo:
  5.      Í reglugerð sem umhverfisráðherra setur skal kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara, m.a. um fjárhæð, innheimtu og endurgreiðslu skilagjaldsins, gerð og efnisval skilagjaldsskyldra umbúða fyrir drykkjarvörur og upphæð umsýsluþóknunar. Við ákvörðun umsýsluþóknunar skal við það miðað að félagið geti staðið undir kostnaði við starfsemina og skilað hluthöfum hóflegum arði af hlutafé.
         Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um bann við notkun og sölu einnota drykkjarvöruumbúða sem ekki er unnt eða torvelt er að endurnota eða endurnýta, kröfur um meðhöndlun notaðra drykkjarvöruumbúða og móttökuskilyrði, ákvæði um skyldu framleiðenda og innflytjenda til að merkja drykkjarvöruumbúðir, m.a. með strikamerkingum, lágmarksmarkmið um endurheimt drykkjarvöruumbúða, endurnýtingu og endurnotkun þeirra, sem félaginu ber að ná árlega, svo og um hlutverk Umhverfisstofnunar við að hafa eftirlit með því að sett markmið náist.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Umhverfisstofnun skal ljúka afgreiðslu starfsleyfa fyrir móttökustöðvar aðrar en förgunarstöðvar og starfsleyfa fyrir aðra meðferð úrgangs sem eru í vinnslu hjá stofnuninni við gildistöku laga þessara.

II.
     Fyrir námuúrgangsstað sem nýttur er við gildistöku laga þessara skal sótt um starfsleyfi eigi síðar en 1. janúar 2012. Að öðrum kosti skal honum lokað.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2011.