Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1996, 139. löggjafarþing 674. mál: Stjórnarráð Íslands (heildarlög).
Lög nr. 115 23. september 2011.

Lög um Stjórnarráð Íslands.


I. KAFLI
Um Stjórnarráð Íslands.

1. gr.

     Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og ráðuneyti þeirra mynda Stjórnarráð Íslands. Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði. Sá ráðherra sem forseti Íslands hefur skipað til forsætis í ríkisstjórn Íslands nefnist forsætisráðherra.
     Ráðherrar starfa í umboði Alþingis. Forsætisráðherra er skylt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillaga um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn er forsætisráðherra skylt að gera tillögu til forseta um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti.

2. gr.

     Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.
     Stjórnarráð Íslands hefur aðsetur í Reykjavík.

II. KAFLI
Um skipun ráðherra og verkaskiptingu á milli þeirra.

3. gr.

     Forseti Íslands skipar forsætisráðherra. Forseti Íslands skipar aðra ráðherra samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Forseti Íslands veitir forsætisráðherra og ráðuneyti hans sem og einstökum ráðherrum lausn frá embætti samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

4. gr.

     Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.
     Við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta skv. 1. mgr. skal þess jafnan gætt, að teknu tilliti til skiptingar Stjórnarráðsins í ráðuneyti skv. 2. gr., að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti.
     Heimilt er að fela sama ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma.
     Komi upp vafi eða ágreiningur um það undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir sker forsætisráðherra úr.

5. gr.

     Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.

III. KAFLI
Um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra.

6. gr.

     Ríkisstjórnarfundi skal halda um eftirfarandi mál:
  1. Nýmæli í lögum, þ.e. lagafrumvörp sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi sem stjórnarfrumvörp, og önnur málefni sem bera á upp fyrir forseta Íslands til staðfestingar, þ.m.t. tillögur til þingsályktana.
  2. Mikilvæg stjórnarmálefni. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt.
  3. Önnur mál sem ráðherrar óska eftir að bera þar upp.

     Á ríkisstjórnarfundum skal skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess til umræðna um mikilvæg málefni og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt mikilsverð málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar.
     Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórnarfundum.

7. gr.

     Forsætisráðherra felur starfsmanni forsætisráðuneytisins að gegna störfum ritara ríkisstjórnar.
     Í fundargerðir ríkisstjórnar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða, og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra. Undan skal þó fella þau atriði fundargerðar sem hafa að geyma upplýsingar sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna og almannahagsmuna og skulu þau færð í sérstaka trúnaðarmálabók.
     Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra þegar staðfesting liggur fyrir. Komi fram athugasemd við fundargerð frá ráðherra skal hún skráð í fundargerð næsta fundar.
     Allir fundir ríkisstjórnarinnar skulu hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns. Hljóðritanir þessar skulu gerðar opinberar að 30 árum liðnum frá fundi.
     Um störf ríkisstjórnar fer að öðru leyti eftir starfsreglum sem ríkisstjórnin setur sér.

8. gr.

     Forsætisráðherra ber að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra, sbr. 4. gr., sé eins skýr og kostur er. Ráðherrar skulu leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast. Forsætisráðherra skal beita sér fyrir því að stefna og aðgerðir ráðherra á einstökum sviðum séu samhæfðar ef á þarf að halda.

9. gr.

     Forsætisráðherra getur ákveðið, með samþykki ríkisstjórnar, að skipa ráðherranefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka.
     Forsætisráðherra stýrir fundum ráðherranefnda eða felur öðrum ráðherra að stýra fundum ráðherranefndar.
     Þótt ráðherra hafi tekið mál upp í ráðherranefnd leysir það hann ekki undan skyldu til að bera mál upp í ríkisstjórn, sbr. 6. gr.

10. gr.

     Í fundargerðir ráðherranefndar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða, og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra.
     Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra, eða þeim ráðherra sem forsætisráðherra hefur falið að stýra ráðherranefnd, og dreift til annarra ráðherra í ráðherranefnd þegar staðfesting liggur fyrir. Komi fram athugasemd við fundargerð frá ráðherra skal hún skráð í fundargerð næsta fundar.
     Forsætisráðherra setur reglur um störf ráðherranefnda að höfðu samráði við ríkisstjórn.

11. gr.

     Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.
     Forsætisráðherra setur reglur um skráninguna.

IV. KAFLI
Um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

12. gr.

     Ráðherra fer með yfirstjórn stjórnvalda sem hafa á hendi framkvæmd stjórnarmálefna er undir ráðuneyti hans heyra, enda leiði ekki af lögum að stjórnvald skuli vera sjálfstætt gagnvart ráðherra.
     Í yfirstjórn skv. 1. mgr. felst m.a. að ráðherra getur gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og meðferð eigna, sbr. þó 3. mgr. 13. gr., enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót.
     Ráðherra er heimilt að láta í té óbindandi álit sem þýðingu geta haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans, enda leiði ekki af lögum eða eðli máls að honum sé það óheimilt.

13. gr.

     Ráðherra skal hafa eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans.
     Ráðherra skal enn fremur hafa almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum þeirra sjálfstæðu stjórnvalda sem heyra stjórnarfarslega undir hann. Eftirlit með sjálfstæðum stjórnvöldum tekur ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum.
     Hafi eign á vegum stjórnvalds verið lögð undir annan ráðherra, sbr. 4. gr., en þann sem stjórnvald heyrir stjórnarfarslega undir fer sá ráðherra með almennt eftirlit með þeirri eign, sbr. 15. gr.

14. gr.

     Ráðherra getur krafið stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu.
     Ráðherra getur krafið sjálfstæð stjórnvöld, sem heyra stjórnarfarslega undir hann, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem þörf er á til að sinna eftirliti skv. 13. gr. og öðrum lögmæltum skyldum ráðherra.
     Ef nauðsynlegt reynist í þessu sambandi að afhenda ráðherra upplýsingar sem almennar eða sérstakar þagnarskyldureglur taka til eru hann og ráðuneyti hans bundin þagnarskyldu með sama hætti og í þeim reglum greinir.

15. gr.

     Ráðherra skal hafa almennt eftirlit með þeim eignum ríkisins, þar á meðal eign í einkaréttarlegum lögaðilum, sem til viðkomandi ráðherra hafa verið lagðar.

V. KAFLI
Um innra skipulag ráðuneyta og starfsmannahald.

16. gr.

     Ráðuneytisstjórar stýra ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra. Í forföllum ráðuneytisstjóra gegnir staðgengill störfum ráðuneytisstjóra. Staðgengill ráðuneytisstjóra skal koma úr röðum skrifstofustjóra samkvæmt ákvörðun ráðuneytisstjóra.
     Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins skal jafnframt því embætti gegna störfum ritara ríkisráðs Íslands.

17. gr.

     Ráðherra skal skipuleggja ráðuneyti sitt með því að skipta því upp í skrifstofur og skal hverri skrifstofu stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.

18. gr.

     Ráðherra skipar ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra að fengnu mati hæfnisnefndar, sbr. 19. gr. Aðrir starfsmenn eru ráðnir.
     Ráðherra setur ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni ráðherra erindisbréf og ráðuneytisstjórar setja skrifstofustjórum erindisbréf, þar sem meðal annars skal kveðið á um starfssvið þeirra og starfsskyldur. Forsætisráðuneytið skal gefa út leiðbeinandi erindisbréf fyrir ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og aðstoðarmenn ráðherra í Stjórnarráði Íslands.

19. gr.

     Við skipun í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum skv. 18. gr., sbr. þó 21. gr., skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið.
     Niðurstaða hæfnisnefndar er ráðgefandi við skipun í embætti. Forsætisráðherra setur reglur um hæfnisnefndir þar sem m.a. er fjallað um skipun nefndar, hæfi nefndarmanna svo og verkefni og málsmeðferð.

20. gr.

     Ráðherra skal leita álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt.
     Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun.

21. gr.

     Um heimildir ráðherra til að flytja embættismenn á milli embætta innan Stjórnarráðs Íslands fer samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og öðrum lögum eftir því sem við á.
     Enn fremur er heimilt að starfsmenn sem ráðnir eru ótímabundið til starfa í ráðuneyti flytjist á milli ráðuneyta um afmarkaðan tíma eða varanlega enda liggi fyrir samþykki beggja ráðherra fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs.
     Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá bjóða hlutaðeigandi starfsmönnum að sinna þeim áfram í því ráðuneyti er tekur við málefninu. Við flutninginn verða ekki breytingar á starfskjörum starfsmanna.
     Ákvæði um auglýsingaskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um flutning embættismanna og starfsmanna samkvæmt þessari grein.
     Forsætisráðherra getur sett nánari reglur um tilhögun flutnings starfsmanna innan Stjórnarráðsins.

22. gr.

     Ráðherrum er heimilt að ráða til starfa í ráðuneyti sínu aðstoðarmann eða aðstoðarmenn. Aðstoðarmenn sem eru ráðnir til starfa í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en nemur tveimur fyrir hvern ráðherra en heimilt er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ákvæði um auglýsingaskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um ráðningu aðstoðarmanna. Aðstoðarmaður ráðherra gegnir störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur.
     Aðstoðarmaður ráðherra heyrir beint undir ráðherra. Meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Aðstoðarmanni ráðherra er óheimilt að rita undir stjórnvaldserindi fyrir hönd ráðherra.
     Um laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs um kjör skrifstofustjóra.
     Aðstoðarmaður ráðherra á rétt á biðlaunum í þrjá mánuði eftir að hann lætur af starfi. Hafi aðstoðarmaður áður verið ríkisstarfsmaður á hann rétt á að hverfa aftur til fyrra starfs síns eða annars starfs eigi lakara að föstum launum í þjónustu ríkisins. Þiggi fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra laun vegna annarra starfa á því tímabili sem hann á rétt á biðlaunum vegna fyrri starfa sinna sem aðstoðarmaður skerðast biðlaunin sem þeim launum nemur.

23. gr.

     Um réttindi og skyldur embættismanna og starfsmanna Stjórnarráðs Íslands fer að öðru leyti samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og öðrum lögum eftir því sem við á.

VI. KAFLI
Um siðferðileg viðmið í starfsemi Stjórnarráðs Íslands.

24. gr.

     Forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands. Við undirbúning reglnanna skal hafa samráð við starfsmenn sem í hlut eiga og leita eftir tillögum frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Einstökum ráðuneytum er heimilt að útfæra siðareglurnar nánar með hliðsjón af sérstökum verkefnum sem þau sinna. Heimilt er forsætisráðherra að setja sérstakar siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra, sbr. 22. gr.
     Ríkisstjórn samþykkir siðareglur fyrir ráðherra. Forsætisráðherra undirritar siðareglurnar fyrir hönd ríkisstjórnar og birtir þær. Við undirbúning þeirra skal leita eftir tillögum frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
     Siðareglur skal birta almenningi á aðgengilegan hátt.

25. gr.

     Forsætisráðherra skipar til þriggja ára í senn samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Í nefndinni eiga sæti formaður, skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Félags forstöðumanna ríkisstofnana, fulltrúi ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, tveir fulltrúar samtaka ríkisstarfsmanna og tveir aðrir valdir á grundvelli sérþekkingar sinnar á stjórnsýslu og siðfræðilegum efnum.
     Forsætisráðuneytið sér nefndinni fyrir starfsaðstöðu.
     Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru:
  1. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,
  2. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gefa stjórnvöldum ráð um túlkun þeirra,
  3. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,
  4. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu,
  5. að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum,
  6. að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi.

     Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal samhæfingarnefndin hafa reglulegt samráð við þau embætti.

VII. KAFLI
Málstefna.

26. gr.

     Forsætisráðherra mótar Stjórnarráðinu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi Stjórnarráðsins. Enn fremur skal koma fram hver gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt manna af erlendum uppruna til samskipta við Stjórnarráðið á annarri tungu en íslensku.
     Mál það sem er notað í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.

VIII. KAFLI
Önnur ákvæði.

27. gr.

     Forsætisráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

28. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 73/1969.
     Þrátt fyrir 1. mgr. skal ákvæði 4. mgr. 7. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, við gildistöku laga þessara án undanfarandi þingsályktunartillögu og fjöldi þeirra og heiti skulu vera óbreytt frá því sem er við gildistökuna.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. skal 5. gr. laga nr. 73/1969 halda gildi sínu til 1. maí 2012.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.