Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1978, 139. löggjafarþing 704. mál: skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir).
Lög nr. 122 27. september 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir).


1. gr.

     Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Stjórn lífeyrissjóðs skal vera skipuð þremur einstaklingum hið fæsta. Hvort kyn skal eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í lífeyrissjóði skal tryggt að hlutfall hvors kynsins sé ekki lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í lífeyrissjóðum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust.

2. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
     Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn lífeyrissjóðs mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð. Starfsmönnum lífeyrissjóðs er ekki heimilt að sitja í stjórn hans.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur starfsmaður annars eftirlitsskylds aðila tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs ef hann er kosinn eða skipaður úr hópi sjóðfélaga. Undanþága þessi á þó ekki við um stjórnendur og lykilstarfsmenn eftirlitsskyldra aðila eða ef hinn eftirlitsskyldi aðili annast rekstur lífeyrissjóðs eða eignastýringu hans að hluta eða öllu leyti. Stjórnarseta samkvæmt þessari málsgrein skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði eða dragi úr trúverðugleika stjórnar lífeyrissjóðs. Skal þar m.a. horft til stöðu þeirra starfsmanna sem um ræðir hjá eftirlitsskyldum aðila.
     Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.
     Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn.
     Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.
     Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
     Lífeyrissjóður skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjóra. Tilkynningar þessar skulu berast Fjármálaeftirlitinu án tafar og þeim skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar til þess að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinarinnar sé fullnægt. Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvernig staðið skuli að hæfismati.
     Um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum skv. 6. tölul. 1. mgr. eru þó eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna öllum aðgengilegir.
  2. Á eftir 2. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 8. tölul. 1. mgr. eru eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með eignarhlutina. Ákvæði um að rekstrar- eða ábyrgðaraðili sjóðs um sameiginlega fjárfestingu skv. 8. tölul. 1. mgr. eigi forkaupsrétt á eignarhlut eða þurfi að samþykkja kaupanda að eignarhlut í sjóðnum teljast ekki hamla viðskiptum.


4. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. október 2011 fram til 1. júlí 2012 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi skv. II. kafla, til vörsluaðila skv. 3.–5. mgr. 8. gr. og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
     Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem hinn 1. október 2011 nemur samanlagt allt að 6.250.000 kr. óháð því hvort sú heildarfjárhæð séreignarsparnaðar er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 6.250.000 kr. er að ræða.
     Við ákvörðun fjárhæðar rétthafa til útborgunar skal draga frá hámarksfjárhæð, þ.e. allt að 6.250.000 kr., samanlagða fjárhæð þess séreignarsparnaðar sem þegar hefur verið greiddur út á grundvelli ákvæðisins eins og það hljóðaði fyrir 1. október 2011. Sé óskað eftir útgreiðslum samkvæmt ákvæði þessu fellur fyrra greiðslufyrirkomulag niður, en samanlögð heimil heildarfjárhæð útborgunar, allt að 6.250.000 kr., greiðist út í samræmi við ákvæði 2. mgr., sbr. fyrri málslið þessarar málsgreinar.
     Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 2. mgr. skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því í umsókn sinni.
     Vörsluaðilar séreignarsparnaðar taka ákvörðun um umsókn rétthafa skv. 2. mgr. og hafa umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans.
     Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu séreignarsparnaðar.
     Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.
     Um afgreiðslu umsókna, sem borist hafa í gildistíð eldra ákvæðis og óafgreiddar kunna að vera, skal fara eftir ákvæði þessu, svo breyttu, frá og með gildistöku þess.

5. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „1. apríl 2011“ í ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 1. júlí 2012.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði 1. gr. öðlast gildi 1. september 2013 og 4. og 5. gr. öðlast gildi 1. október 2011.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.