Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1985, 139. löggjafarþing 676. mál: fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.
Lög nr. 135 27. september 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 74/1996, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum sem gerður var í Strassborg 25. janúar 1988 og bókun um breytingu á honum sem gerð var í París 27. maí 2010. Samningurinn og bókunin eru prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Þegar samningurinn og bókunin er um ræðir í 1. gr. hafa öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þeirra hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.

Bókun
um breytingu á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.
INNGANGSORÐ
Aðildarríki Evrópuráðsins og aðildarlönd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem undirritað hafa bókun þessa,

þar sem samningurinn um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sem gerður var 25. janúar 1988 (hér á eftir nefndur „samningurinn“), var gerður áður en gengið var frá samkomulagi um alþjóðlega samþykkta viðmiðun um miðlun upplýsinga í skattamálum;

þar sem nýjar ytri aðstæður fyrir samvinnu hafa skapast eftir að lokið var við gerð samningsins;

þar sem æskilegt er að lokið verði við marghliða samning til að sem flest ríki geti notið þess ávinnings sem hinar nýju aðstæður fyrir samvinnu skapa og unnið jafnframt eftir ítarlegustu alþjóðlegum viðmiðunum um samvinnu á sviði skattamála;

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. gr.
  1. Sjöunda forsendan í inngangsorðum samningsins falli brott og í stað hennar komi eftirfarandi:
  2. „eru því ákveðið þeirrar skoðunar að ríki skuli gera ráðstafanir eða veita upplýsingar, með hliðsjón af nauðsyn þess að standa vörð um upplýsingaleynd, og með tilliti til alþjóðasamninga um friðhelgi einkalífsins og streymi persónulegra upplýsinga,“
  3. Eftirfarandi bætist við á eftir sjöundu forsendu í inngangsorðum samningsins:
  4. „telja að nýjar ytri aðstæður fyrir samvinnu hafi skapast og að æskilegt sé að marghliða samningur sé aðgengilegur til að sem flest ríki geti notið þess ávinnings sem hinar nýju aðstæður fyrir samvinnu skapa og unnið jafnframt eftir ítarlegustu alþjóðlegu stöðlum um samvinnu á sviði skattamála,“.

II. gr.
     4. gr. samningsins falli brott og í stað hennar komi eftirfarandi:
„4. gr. – Almennt ákvæði.
1. Aðildarríki skulu skiptast á öllum upplýsingum, einkum þeim sem kveðið er á um í þessum hluta, sem fyrirsjáanlega skipta máli fyrir stjórnvöld við að beita eða framfylgja landslögum um þá skatta sem fjallað er um í samningi þessum.
2. Fellur brott.
3. Sérhvert aðildarríki getur í yfirlýsingu til annars hvors vörsluaðilans skýrt frá því að samkvæmt landslögum sé stjórnvöldum þess heimilt að láta mann, sem heimilisfastur er þar í landi eða hefur þar ríkisfang, vita áður en upplýsingar, sem hann varða, eru veittar skv. 5. og 7. gr.“

III. gr.
  1. Í stað „og“ í b-lið 1. mgr. 18. gr. samningsins komi „eða“.
  2. Í stað tilvísunar til „19. gr.“ í f-lið 1. mgr. 18. gr. samningsins komi tilvísun til „g-liðar 2. mgr. 21. gr.“

IV. gr.
19. gr. samningsins falli brott.

V. gr.
21. gr. samningsins falli brott og í stað hennar komi eftirfarandi:
„21. gr. – Persónuvernd og takmarkanir aðstoðarskyldu.
1. Ekkert í samningi þessum skal hafa áhrif á réttindi og réttarvernd sem aðilum er veitt samkvæmt lögum eða stjórnsýsluvenju aðstoðarríkisins.
2. Með þeirri undantekningu sem í 14. gr. getur skulu ákvæði samnings þessa ekki túlkuð þannig að lögð sé á aðstoðarríkið skylda til að:
  1. gera ráðstafanir sem ekki samrýmast lögum eða stjórnsýsluvenjum þess sjálfs eða lögum eða stjórnsýsluvenjum beiðniríkisins;
  2. gera ráðstafanir sem mundu vera andstæðar allsherjarreglu (ordre public);
  3. veita upplýsingar sem ekki er unnt að afla samkvæmt lögum eða stjórnsýsluvenjum þess sjálfs eða lögum eða stjórnsýsluvenjum beiðniríkisins;
  4. veita upplýsingar sem afhjúpa mundu leyndarmál á sviði viðskipta, kaupsýslu, iðnaðar, verslunar eða sérfræðistarfa, eða viðskiptaferli, eða upplýsingar sem væri andstætt allsherjarreglu (ordre public) að afhjúpa;
  5. veita stjórnsýsluaðstoð ef og að svo miklu leyti sem það telur skattlagninguna í beiðniríkinu vera andstæða meginreglum um skattlagningu eða ákvæðum samnings til að komast hjá tvísköttun eða einhvers annars samnings sem aðstoðarríkið hefur gert við beiðniríkið;
  6. veita stjórnsýsluaðstoð í því skyni að beita eða framfylgja ákvæði skattalaga beiðniríkisins eða hvers konar kröfu þar að lútandi, sem mismunar ríkisborgara aðstoðarríkisins, samanborið við ríkisborgara beiðniríkisins við sömu aðstæður;
  7. veita stjórnsýsluaðstoð ef beiðniríkið hefur ekki gert allar eðlilegar ráðstafanir sem því eru tiltækar samkvæmt lögum þess og stjórnsýsluvenjum, nema í þeim tilvikum þegar slíkar ráðstafanir hefðu í för með sér óhóflega erfiðleika;
  8. veita aðstoð við innheimtu þegar stjórnsýsluálag á það ríki er óhóflegt í hlutfalli við þann ávinning sem félli beiðniríkinu í skaut.

3. Ef beiðniríkið fer fram á upplýsingar í samræmi við samning þennan skal aðstoðarríkið beita þeim aðferðum sem það hefur yfir að ráða til að afla þeirra upplýsinga sem óskað er eftir, jafnvel þótt aðstoðarríkið þurfi ekki á þeim að halda vegna eigin skattamála. Sú skuldbinding sem felst í fyrri málslið er með fyrirvara um takmarkanir, sem felast í samningi þessum, en í engu tilviki skal skýra þær takmarkanir, einkum hvað varðar 1. og 2. mgr., þannig að þær heimili aðstoðarríki að synja um upplýsingar af þeirri ástæðu einni að það sjálft hafi enga þörf fyrir þær.
4. Í engu tilviki skal túlka ákvæði samnings þessa, einkum hvað varðar 1. og 2. mgr., þannig að þau heimili aðstoðarríki að synja um upplýsingar af þeirri ástæðu einni að þær séu í vörslu banka, annarrar fjármálastofnunar, tilnefnds aðila eða umboðs- eða fjárvörsluaðila, eða af þeirri ástæðu að þær tengjast hagsmunum eiganda í aðila.“

VI. gr.
Eftirfarandi komi í stað 1. og 2. mgr. 22. gr. sem falli brott:
„1. Öllum upplýsingum, sem aðildarríki fær samkvæmt samningi þessum, skal haldið leyndum og skulu þær verndaðar á sama hátt og upplýsingar, sem fengnar eru samkvæmt lögum þess sjálfs, og, að því marki sem þörf krefur til að tryggja að persónulegar upplýsingar séu verndaðar með fullnægjandi hætti, í samræmi við þær verndarráðstafanir sem aðildarríkið, sem lagði þær fram, kann að tilgreina eftir því sem landslög þess útheimta.
2. Hvað sem öðru líður skulu slíkar upplýsingar aðeins látnar í té aðilum eða yfirvöldum (þar á meðal dómstólum og stjórnsýslu- eða eftirlitsaðilum) sem sjá um að leggja á, innheimta eða fullnusta skatta hjá því aðildarríki, eða leita fullnustu, lögsækja eða ákvarða um áfrýjun vegna þeirra, eða hafa eftirlit með framangreindu. Aðeins framangreindir aðilar eða yfirvöld mega nota þessar upplýsingar og þá aðeins í framangreindum tilgangi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. mega þeir láta þær uppi í opnum réttarhöldum eða í dómsúrlausnum varðandi þá skatta.“

VII. gr.
Eftirfarandi komi í stað 2. mgr. 27. gr. samningsins sem falli brott:
„2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta þau aðildarríki sem aðild eiga að Evrópusambandinu nýtt sér, í gagnkvæmum samskiptum sín á milli, hugsanlega aðstoð, sem kveðið er á um í samningnum, að svo miklu leyti sem sú aðstoð hefur í för með sér víðtækari samvinnu en sú sem í boði er samkvæmt gildandi reglum Evrópusambandsins.“

VIII. gr.
  1. Eftirfarandi málsgreinum verði skeytt aftan við 28. gr. samningsins:
  2. „4. Sérhvert aðildarríki Evrópuráðsins eða sérhvert aðildarland Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem gerist aðili að samningnum eftir að bókunin um breytingu á samningi þessum öðlast gildi, en hún var lögð fram til undirritunar 27. maí 2010 („Bókunin frá 2010“), verður aðili að samningnum með áorðnum breytingum samkvæmt þeirri bókun, nema það láti í ljós aðra fyrirætlan í skriflegri orðsendingu til annars hvors vörsluaðilans.
    5. Eftir að bókunin frá 2010 öðlast gildi getur sérhvert ríki, sem hvorki á aðild að Evrópuráðinu né OECD, óskað eftir að vera boðið að undirrita og fullgilda samninginn eins og honum var breytt með bókuninni frá 2010. Sérhver beiðni í þessa veru skal bera utanáskrift annars vörsluaðilans sem framsendir hana aðildarríkjunum. Vörsluaðilinn skal einnig upplýsa ráðherranefnd Evrópuráðsins og ráð OECD. Aðildarríkin að samningnum taka ákvörðun, með samhljóða samþykki og á vettvangi samræmingarnefndarinnar, um að bjóða ríkjum, sem þess óska, aðild að samningnum. Gagnvart hverju því ríki sem fullgildir samninginn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010 og í samræmi við þessa málsgrein, öðlast hann gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal um fullgildingu er afhent öðrum vörsluaðilanna til vörslu.
    6. Ákvæði samnings þessa, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, gilda um stjórnsýsluaðstoð sem tengist skattskyldum tímabilum sem hefjast 1. janúar eða síðar á því ári sem næst er á eftir því ári sem samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, öðlaðist gildi gagnvart aðildarríki, eða, ef ekki er um skattskylt tímabil að ræða, um stjórnsýsluaðstoð sem tengist skattlagningu 1. janúar eða síðar á því ári sem næst er á eftir því ári sem samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, öðlaðist gildi gagnvart aðildarríki. Tvö eða fleiri aðildarríki geta gert með sér gagnkvæmt samkomulag um að samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, gildi um stjórnsýsluaðstoð í tengslum við fyrri skattskyld tímabil eða skattlagningu.
    7. Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr., að því er varðar skattamál þar sem fram kemur ásetningshegðun sem leiðir til saksóknar samkvæmt hegningarlögum beiðniríkis, skulu ákvæði samnings þessa, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, gilda frá þeim degi er þau öðlast gildi gagnvart aðildarríki að því er varðar fyrri skattskyld tímabil eða skattlagningu.“
  3. Eftirfarandi staflið verði skeytt fyrir aftan e-lið 1. mgr. 30. gr. samningsins:

    1.     „f.    að beita ákvæði 7. mgr. 28. gr. eingöngu vegna stjórnsýsluaðstoðar, sem varðar skattskyld tímabil sem hefjast 1. janúar eða síðar á þriðja ári næst á undan því ári sem samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, öðlaðist gildi gagnvart aðildarríki, eða, ef ekki er um skattskyld tímabil að ræða, vegna stjórnsýsluaðstoðar sem varðar skattlagningu 1. janúar eða síðar á þriðja ári næst á undan því ári sem samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókuninni frá 2010, öðlaðist gildi gagnvart aðildarríki.“
  4. Orðin „ásamt sérhverju aðildarríki að samningi þessum“ bætist aftan við orðin „aðildarlöndum OECD“ í 1. mgr. 32. gr. samningsins.

IX. gr.
  1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir undirritunaraðila samningsins. Hún er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Undirritunaraðili getur ekki fullgilt, staðfest eða samþykkt bókun þessa nema hann hafi áður fullgilt, staðfest eða samþykkt samninginn eða geri það jafnhliða. Afhenda ber öðrum vörsluaðilanna skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.
  2. Bókun þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fimm aðildarríki að samningnum hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af bókuninni í samræmi við ákvæði 1. mgr.
  3. Bókunin öðlast gildi gagnvart hverju því aðildarríki að samningnum sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af henni, á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki er afhent til vörslu.

X. gr.
  1. Sá vörsluaðili sem gerð, tilkynning eða orðsending hefur verið afhent hjá skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins, aðildarlöndum OECD og hverju aðildarríki að samningnum, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun þessari, um eftirfarandi:
    1. sérhverja undirritun;
    2. afhendingu sérhvers skjals um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu;
    3. hvern gildistökudag bókunar þessarar samkvæmt ákvæðum IX. gr.;
    4. sérhverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu varðandi bókun þessa.
  2. Vörsluaðilinn, sem veitir orðsendingu viðtöku eða sendir út tilkynningu samkvæmt ákvæðum 1. mgr., skal upplýsa hinn vörsluaðilann um það.
  3. Vörsluaðilarnir skulu senda aðildarríkjum Evrópuráðsins og aðildarlöndum OECD staðfest endurrit af bókun þessari.
  4. Þegar bókun þessi öðlast gildi skv. IX. gr. skal annar vörsluaðilinn ganga frá texta samningsins, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun þessari, og senda öllum aðildarríkjum að samningnum staðfest endurrit af honum með áorðnum breytingum samkvæmt bókun þessari.

Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókunina.

Gjört í París 27. maí 2010 í tveimur eintökum á ensku og frönsku og eru báðir textarnir jafngildir. Skal annað eintakið afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins og hitt í skjalasafni OECD.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.