Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 639, 140. löggjafarþing 371. mál: svæðisbundin flutningsjöfnun (heildarlög).
Lög nr. 160 23. desember 2011.

Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um veitingu flutningsjöfnunarstyrkja til einstaklinga eða lögaðila sem stunda framleiðslu á vöru, í samræmi við ákvæði laganna, vegna framleiðslu sem fellur undir C-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í þessum lögum merkir:
  1. Byggðakort: Kort af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur með ákvörðun nr. 378/06/COL samþykkt fyrir árin 2008–2013 þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki. Ákvörðunin var birt 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11.
  2. Flutningsjöfnun: Aðgerð sem miðar að því að jafna flutningskostnað framleiðanda sem greiðir hærri kostnað vegna flutnings á vöru en aðrir og staðsettur er fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn.
  3. Flutningsjöfnunarstyrkur: Styrkur sem veittur er framleiðendum sem greiða hærri kostnað við flutning á vöru til eða frá styrksvæðum en aðrir og staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn.
  4. Flutningskostnaður: Sá kostnaður sem stofnað er til vegna flutnings vöru innan landamæra. Virðisaukaskattur eða hvers konar endurgreiðsla af hendi flytjanda telst ekki til flutningskostnaðar. Að sama skapi ber að draga frá flutningskostnaði aðra styrki sem veittir hafa verið vegna flutninga. Þá telst kostnaður vegna hleðslu og geymslu á vöru ekki til flutningskostnaðar.
  5. Flutningsaðili: Sá sem með samningi tekur að sér vöruflutning fyrir annan, eiganda, sendanda eða móttakanda vörunnar.
  6. Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem stundar framleiðslu á vöru.
  7. Framleiðsla: Ummyndun efnis í nýjar afurðir sem falla undir C-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008.
  8. Fullunnin vara: Vara sem er tilbúin til nýtingar eða neyslu.
  9. Hálfunnin vara: Ílag sem notað er við framleiðslu.
  10. Staðsetning fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn: Framleiðandi telst staðsettur fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn ef fjarlægðin er a.m.k. 245 km.
  11. Vara: Fullunnin eða hálfunnin vara.


II. KAFLI
Flutningsjöfnunarstyrkir.

4. gr.

Styrksvæði.
     Til styrksvæða teljast þau svæði þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti.
     Styrksvæðin skiptast í tvö svæði: Sveitarfélögin Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur, eins og þau eru skilgreind 1. janúar 2012, tilheyra svæði 2. Önnur sveitarfélög landsins tilheyra svæði 1, svo fremi að þau uppfylli skilyrði 1. mgr.

5. gr.

Skilyrði styrkveitinga.
     Styrkir eru veittir til framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar.
     Rétt til flutningsjöfnunarstyrkja vegna framleiðslu á styrksvæðum eiga einstaklingar sem stunda atvinnurekstur og eru með lögheimili á styrksvæði og lögaðilar sem eru með starfsemi og heimilisfesti á styrksvæði.
     Ávallt skal velja hagkvæmustu flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða lofti.
     Flutningsjöfnunarstyrkir eru veittir vegna flutnings:
  1. frá styrksvæði ef framleiðslan er annaðhvort fullunnin eða hálfunnin vara, þ.e. vara sem hefur farið í gegnum ákveðið framleiðsluferli á styrksvæðinu, eða
  2. til styrksvæðis á hrávöru eða hálfunninni vöru, þ.e. vöru sem vantar til að endanleg framleiðsla á vöru geti átt sér stað á styrksvæðinu.

     Eingöngu eru greiddir flutningsjöfnunarstyrkir ef vara er flutt með flutningsaðila, sbr. 5. tölul. 3. gr. Framleiðanda er þó heimilt að flytja vöru sína sjálfur svo fremi að kostnaði vegna flutnings vöru til eða frá styrksvæði sé haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði í bókhaldi hans. Einnig ber að halda sölutölum hvers styrksvæðis aðgreindum.
     Ekki eru veittir styrkir til aðila sem skulda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi.
     Ekki eru veittir styrkir til einstaklinga eða lögaðila sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir dagsetningu umsóknar.
     Ekki eru veittir flutningsjöfnunarstyrkir vegna útflutnings.

6. gr.

Útreikningur flutningsjöfnunarstyrkja.
     Flutningsjöfnunarstyrkur reiknast sem hlutfall af flutningskostnaði, eins og nánar er kveðið á um í 2. mgr., að teknu tilliti til annarra styrkja sem veittir eru vegna flutnings, ef við á. Ekki eru greiddir flutningsjöfnunarstyrkir ef lengd ferðar er innan við 245 km.
     Framleiðandi á svæði 1, sbr. 2. mgr. 4. gr., fær 10% endurgreiðslu af flutningskostnaði á vöru ef lengd ferðar er a.m.k. 245 km. Framleiðandi á svæði 2, sbr. 2. mgr. 4. gr., fær 10% endurgreiðslu af flutningi á vörum ef lengd ferðar er 245–390 km en 20% ef lengd ferðar er meiri en 390 km.
     Flutningsjöfnunarstyrkir til hvers framleiðanda skulu aldrei vera hærri en sem nemur 200.000 evrum á þriggja ára tímabili. Við umreikning yfir í íslenskar krónur skal miða við gengi sem ESA gefur út og birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins og á vef stofnunarinnar. Við útreikning hámarksfjárhæðar skal reikna með aðra styrki sem framleiðandi hefur fengið frá opinberum aðilum. Í þessu sambandi eru þó undanskildir sérstakir styrkir er aðili hefur fengið samkvæmt styrkjareglum sem ESA hefur samþykkt.

III. KAFLI
Framkvæmd styrkveitinga.

7. gr.

Umsókn um og greiðsla flutningsjöfnunarstyrkja.
     Umsókn um flutningsjöfnunarstyrk skal skila til ráðuneytisins. Með umsókn skal fylgja greinargerð um flutningsjöfnun, líkt og nánar er kveðið á um í reglugerð, þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar og tekur endurgreiðsla vegna flutningskostnaðar mið af henni.
     Ráðuneytið leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru.
     Sækja skal um styrk fyrir eitt almanaksár í senn. Umsókn um styrk skal skila eigi síðar en 31. mars ár hvert vegna næstliðins almanaksárs. Styrkur er greiddur út eftir að umsókn um styrk hefur verið samþykkt.
     Umsækjendur bera ábyrgð á því að þær upplýsingar sem fram koma í umsókn séu réttar og skulu staðfesta að styrkurinn fari ekki fram úr hámarksfjárhæð sem kveðið er á um í 3. mgr. 6. gr.
     Styrkveitingar eru í formi endurgreiðslu gegn framlögðum reikningum.

8. gr.

Endurgreiðsla flutningsjöfnunarstyrks.
     Endurkrefja ber um flutningsjöfnunarstyrk ef í ljós kemur að styrkþegi hefur vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem hafa áhrif á styrkveitingu.
     Komi í ljós að fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks er komin umfram það hámark sem kveðið er á um í 3. mgr. 6. gr. skal endurkrefja styrkþega um flutningsjöfnunarstyrkinn í heild.
     Beri styrkþega að endurgreiða styrk skv. 1. eða 2. mgr. skal hann endurgreiða styrkinn með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal styrkþegi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er sannanlega var lögð fram krafa um endurgreiðslu.
     Vextir skv. 3. mgr. skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að styrkurinn var greiddur út. Það sama gildir um greiðslu dráttarvaxta skv. 4. mgr. ef endurgreiðslan fer fram innan 30 daga frá því að krafa um endurgreiðslu var gerð.

IV. KAFLI
Skýrslugjöf til Alþingis, reglugerðarheimild og gildistaka.

9. gr.

Skýrslugjöf til Alþingis.
     Ráðherra skal árlega gefa Alþingi skýrslu um þróun flutningskostnaðar, fjölda umsækjenda á styrktímabilinu, fjölda samþykktra styrkumsókna, heildarfjárhæð styrkveitinga og fjárhæð tíu hæstu styrkja, flokkað eftir tegund framleiðslu. Upplýsingarnar skulu jafnframt vera sundurliðaðar eftir framleiðslustarfsemi og styrksvæðum.

10. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna, svo sem um útreikning flutningsjöfnunarstyrkja, umsóknir um styrki, meðferð umsókna og greiðslu og endurgreiðslu styrkja.

11. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012 og falla úr gildi 31. desember 2012. Endurskoða skal ákvæði laga þessara innan árs frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2011.