Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 242, 141. löggjafarþing 180. mál: kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna (aðstoð við atkvæðagreiðslu).
Lög nr. 111 16. október 2012.

Lög um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna (aðstoð við kosningu).


I. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 3. mgr. 63. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ef svo háttar um hagi kjósanda er greinir í 3. mgr. og hann óskar eftir að fulltrúi, sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði skal kjörstjóri gera hlé á atkvæðagreiðslunni þar til aðrir kjósendur, sem kunna að vera viðstaddir, hafa lokið við að greiða atkvæði. Fulltrúi kjósandans skal víkja frá. Kjörstjóri skal strax taka beiðni kjósanda til úrskurðar. Kjörstjóri skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur. Geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra þennan vilja sinn skal kjörstjóri heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Kjörstjóri skal geta um ákvörðun sína á skrá skv. 1. mgr. og tilgreina ástæður fyrir henni. Ákvörðun kjörstjóra er endanleg. Heimili kjörstjóri fulltrúa kjósanda að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna skal atkvæðagreiðslu haldið áfram og aðstoðarinnar getið á fylgibréfinu. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli við atkvæðagreiðsluna. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
     Við atkvæðagreiðslu skv. 4. mgr. eiga ákvæði 62.–67. gr. við um fulltrúa kjósandans.

2. gr.

     Við 86. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ef svo háttar um hagi kjósanda er greinir í 1. mgr. og hann óskar eftir að fulltrúi, sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði í kjörklefanum skal hlé gert á kjörfundi þar til aðrir kjósendur, sem kunna að vera í kjörfundarstofu, hafa lokið við að greiða atkvæði. Fulltrúi kjósandans skal víkja úr kjörfundarstofunni. Kjörstjórn eða hverfiskjörstjórn þar sem kjördeildir eru fleiri en ein skal strax taka beiðni kjósanda til úrskurðar. Hverfiskjörstjórn er heimilt að úrskurða um ósk kjósandans með honum utan kjörfundarstofu svo kjörfundur geti haldið áfram með öðrum kjósendum. Kjörstjórn skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur. Geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Ákvörðun kjörstjórnar skal bókuð í kjörbókina með tilgreindum ástæðum. Ákvörðun kjörstjórnar er endanleg. Heimili kjörstjórn fulltrúa að aðstoða kjósandann í kjörklefanum skal kjörfundi haldið áfram. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
     Við atkvæðagreiðsluna eiga ákvæði 79. gr., 81.–85. gr. og 87. gr. við um fulltrúa kjósandans.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 126. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „utankjörfundarkjörstjóri“ í b-lið kemur: eða fulltrúi kjósanda.
  2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef fulltrúi kjósanda skv. 63. eða 86. gr. gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.


II. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.

4. gr.

     Við 63. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ef svo háttar um hagi kjósanda er greinir í 1. mgr. og hann óskar eftir að fulltrúi, sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði í kjörklefanum skal hlé gert á kjörfundi þar til aðrir kjósendur, sem kunna að vera í kjörfundarstofu, hafa lokið við að greiða atkvæði. Fulltrúi kjósandans skal víkja úr kjörfundarstofunni. Kjörstjórn eða hverfiskjörstjórn þar sem kjördeildir eru fleiri en ein skal strax taka beiðni kjósanda til úrskurðar. Hverfiskjörstjórn er heimilt að úrskurða um ósk kjósandans með honum utan kjörfundarstofu svo kjörfundur geti haldið áfram með öðrum kjósendum. Kjörstjórn skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur. Geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Ákvörðun kjörstjórnar skal bókuð í kjörbókina með tilgreindum ástæðum. Ákvörðun kjörstjórnar er endanleg. Heimili kjörstjórn fulltrúa að aðstoða kjósandann í kjörklefanum skal kjörfundi haldið áfram. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
     Við atkvæðagreiðsluna eiga ákvæði 55. gr., 57.–62. gr. og 64. gr. við um fulltrúa kjósandans.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „utankjörfundarkjörstjóri“ í b-lið kemur: eða fulltrúi kjósanda.
  2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef fulltrúi kjósanda skv. 63. gr. gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. október 2012.