Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 887, 141. löggjafarþing 381. mál: loftslagsmál (skráningarkerfi losunarheimilda, EES-reglur).
Lög nr. 141 28. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál (skráningarkerfi losunarheimilda).


1. gr.

     Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna í viðeigandi stafrófsröð:
  1. Miðlægur stjórnandi skráningarkerfisins: Aðili sem er tilnefndur af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skv. 20. gr. tilskipunar 2003/87/EB, með síðari breytingum, til að hafa umsjón með starfrækslu skráningarkerfis Evrópusambandsins.
  2. Viðskiptavettvangur: Marghliða viðskiptakerfi sem leiðir saman kaupendur og seljendur losunarheimilda.


2. gr.

     Í stað orðanna „sbr. 22. gr.“ í lokamálslið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: sbr. VI. kafla.

3. gr.

     Í stað orðanna „dregið verulega úr henni“ í 3. málsl. 6. mgr. 8. gr. laganna kemur: veruleg minnkun hefur orðið á framleiðslugetu.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um úthlutun skv. 1. mgr. byggða á upplýsingum um sögulega starfsemi rekstraraðila og skiptingu viðkomandi starfsstöðva í starfsstöðvarhluta. Umhverfisstofnun skal tilkynna rekstraraðilum um fyrirhugaða ákvörðun með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og gefa rekstraraðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ákvörðunin er kæranleg til ráðherra innan tveggja vikna frá því að hún er tekin.
  3. 8. mgr. orðast svo:
  4.      Ef þörf er á skal lækka úthlutun til hvers rekstraraðila skv. 1. mgr. í samræmi við almennan leiðréttingarstuðul. Stuðullinn skal fundinn út með því að bera saman annars vegar heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við viðmið sem fram koma í 1. mgr., án þess að tillit sé tekið til leiðréttingarstuðuls kolefnisleka, og hins vegar árlegan hámarksfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda fyrir staðbundna starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Almennur leiðréttingarstuðull skal tryggja að fyrrnefndi fjöldinn sé ekki meiri en sá síðarnefndi. Heimilt er að endurskoða stuðulinn árlega í samræmi við þessa málsgrein.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „umtalsverða framleiðsluaukningu“ í b-lið 2. mgr. kemur: verulega aukningu á framleiðslugetu; og í stað orðsins „framleiðsluaukningu“ í lok stafliðarins kemur: aukningu.
  2. Í stað orðsins „framleiðsluaukningar“ tvívegis í 3. mgr. og í 7. mgr. kemur: aukningar á framleiðslugetu.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Orðin „hefur runnið út eða“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
  2. Í stað orðanna „dregur verulega úr starfsemi“ í 5. málsl. 3. mgr. kemur: minnkar verulega framleiðslugetu.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið skal á um nánari skilyrði þess að starfsemi teljist hætt eða að veruleg minnkun teljist hafa orðið á framleiðslugetu hafi verið dregið úr henni, skyldu rekstraraðila til að skila nauðsynlegum upplýsingum, aðferðafræði við útreikning leiðréttrar úthlutunar og með hvaða hætti úthlutun skuli leiðrétt, þar á meðal í kjölfar endurskoðunar á almennum leiðréttingarstuðli. Heimilt er að krefjast þess að upplýsingar frá rekstraraðilum séu vottaðar af óháðum vottunaraðila.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun, hráefnanotkun eða vöktunaraðferðum rekstraraðila, ef breytingar verða á reglum sem um vöktunaráætlun gilda eða ef vöktunaráætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar skv. 5. mgr. skal rekstraraðili, að eigin frumkvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers kyns breytingar á vöktunaráætlun og eru verulegar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar. Rekstraraðilum er heimilt að uppfæra vöktunaráætlun án þess að gefa þurfi út nýtt losunarleyfi.
  3. 3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
  4. Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: miðað við mestu mögulegu losun í viðkomandi starfsemi.
  5. Í stað orðsins „staðfestingu“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: yfirferð.
  6. Í stað orðanna „draga verulega úr starfsemi“ í 6. mgr. kemur: minnka verulega framleiðslugetu.


8. gr.

     Á eftir 3. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjárhæð losunargjalds skv. 3. mgr. vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2013 skal vera 1.338 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar.

9. gr.

     Í stað orðanna „eftirlitsáætlun vegna vöktunar á tonnkílómetrum“ í 2. málsl. 4. mgr. 18. gr. og 2. málsl. 7. mgr. 19. gr. laganna kemur: vöktunaráætlun vegna tonnkílómetra.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „eftirlitsáætlun vegna vöktunar á losun“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: vöktunaráætlun vegna losunar.
  2. Í stað orðanna „eftirlitsáætlun vegna vöktunar á tonnkílómetrum í starfsemi sinni“ í 1. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: vöktunaráætlun vegna tonnkílómetra.
  3. Í stað orðsins „eftirlitsáætlana“ í 4. mgr. kemur: vöktunaráætlana.
  4. Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun eða vöktunaraðferðum flugrekanda, ef breytingar verða á reglum sem um vöktunaráætlanir gilda eða ef vöktunaráætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar skv. 7. mgr. skal flugrekandi, að eigin frumkvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers kyns breytingar á vöktunaráætlun og eru verulegar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar.
  5. Við 1. málsl. 6. mgr. bætist: miðað við mestu mögulegu losun í viðkomandi starfsemi.
  6. Í stað orðsins „eftirlitsáætlana“ í 2. málsl. 7. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í málsgreininni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: vöktunaráætlana.


11. gr.

     Í stað 22. gr. laganna koma átta nýjar greinar, 22. gr. og 22. gr. a – 22. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (22. gr.)
Landsstjórnandi.
     Umhverfisstofnun er landsstjórnandi Íslands í skráningarkerfi sem er starfrækt samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Umhverfisstofnun hefur umsjón með reikningum skráningarkerfisins sem eru í eigu ríkisins og einkaaðila sem lúta lögsögu íslenska ríkisins. Í umsjón með reikningum felst m.a. að stofna og loka reikningum, stýra aðgangi að þeim og veita notendum skráningarkerfisins upplýsingar og aðstoð.
     
     b. (22. gr. a.)
Reikningar.
     Eftirfarandi aðilum er skylt að eiga reikning í skráningarkerfinu:
  1. rekstraraðilum skv. 7. gr.,
  2. flugrekendum skv. 15. gr., og
  3. vottunaraðilum sem tekið hafa að sér vottun skýrslna fyrir aðila skv. a- og b-lið.

     Eftirfarandi aðilum er heimilt að eiga reikning í skráningarkerfinu og eiga losunarheimildir:
  1. uppboðshaldara, uppboðsvettvangi eða milligönguaðila sem getið er í reglugerð um uppboð losunarheimilda skv. 28. gr.,
  2. viðskiptavettvangi sem er tengdur skráningarkerfinu,
  3. einstaklingum sem þess óska og hafa fasta búsetu á Íslandi, og
  4. lögaðilum sem eru skráðir á Íslandi.

     Sækja skal um stofnun reiknings til Umhverfisstofnunar. Umsækjandi um stofnun reiknings skal leggja fram nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt því sem Umhverfisstofnun krefst og kveðið er á um í reglugerð um skráningarkerfið.
     Umhverfisstofnun getur, í þeim tilgangi að gæta öryggis skráningarkerfisins, hafnað umsókn aðila um stofnun reiknings í skráningarkerfinu:
  1. ef hann veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar,
  2. ef aðili eða forsvarsmaður aðila er grunaður um eða hefur á síðustu fimm árum verið dæmdur fyrir misferli með losunarheimildir, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi sem reikningurinn gæti eða hefur verið notaður í,
  3. ef Umhverfisstofnun hefur ástæðu til að ætla að reikningurinn geti verið nýttur við misferli með losunarheimildir, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi, eða
  4. í samræmi við ákvæði annarra laga.

     Reikningseigendum er óheimilt að afsala eignarhaldi sínu á reikningum í skráningarkerfinu til annarra aðila. Reikningseiganda vörslureiknings rekstraraðila er þó heimilt að afsala eignarhaldi sínu á þeim reikningi til annars aðila við aðilaskipti að starfsstöð sem reikningurinn tengist.
     
     c. (22. gr. b.)
Viðurkenndir fulltrúar og viðurkenndir viðbótarfulltrúar.
     Þegar óskað er eftir stofnun reiknings skal umsækjandi skv. 22. gr. a tilnefna að minnsta kosti tvo viðurkennda fulltrúa fyrir hvern reikning. Að minnsta kosti annar þessara fulltrúa skal hafa fasta búsetu á Íslandi þegar um er að ræða aðila sem getið er í 2. mgr. 22. gr. a. Þegar um er að ræða reikning vottunaraðila er þó einungis krafist að minnsta kosti eins viðurkennds fulltrúa. Viðurkenndur fulltrúi skal hafa frumkvæði að aðgerðum fyrir hönd reikningseiganda í skráningarkerfinu.
     Ef umsækjandi skv. 22. gr. a eða reikningseigandi hyggst heimila viðskiptavettvangi aðgang að reikningi sínum skal hann tilnefna sem viðurkenndan fulltrúa aðila sem þegar hefur verið samþykktur sem viðurkenndur fulltrúi reiknings viðskiptavettvangsins.
     Heimilt er að tilnefna einn eða fleiri viðurkennda viðbótarfulltrúa fyrir hvern reikning. Auk samþykkis viðurkennds fulltrúa skv. 1. mgr. er samþykki viðurkennds viðbótarfulltrúa áskilið fyrir aðgerðum á viðkomandi reikningi, þó ekki þegar um er að ræða skil á losunarheimildum skv. 9. og 17. gr. Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að ekki sé þörf á samþykki viðurkennds viðbótarfulltrúa fyrir annars konar aðgerðum.
     Viðurkenndir fulltrúar og viðurkenndir viðbótarfulltrúar skulu hafa náð hafa að minnsta kosti 18 ára aldri. Sami einstaklingur má ekki vera viðurkenndur fulltrúi og viðurkenndur viðbótarfulltrúi sama reiknings. Einstaklingur má vera viðurkenndur fulltrúi eða viðurkenndur viðbótarfulltrúi fleiri en eins reiknings.
     Þegar umsækjandi skv. 22. gr. a eða reikningseigandi tilnefnir aðila sem viðurkenndan fulltrúa eða viðurkenndan viðbótarfulltrúa skal hann leggja fram nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt því sem Umhverfisstofnun krefst og kveðið er á um í reglugerð ráðherra.
     Reikningseiganda er hvenær sem er heimilt að skipta um viðurkennda fulltrúa eða viðurkennda viðbótarfulltrúa eða bæta fleiri slíkum við ef tilnefning nýrra aðila uppfyllir skilyrði þessarar greinar.
     Umhverfisstofnun getur, í þeim tilgangi að gæta öryggis skráningarkerfisins, hafnað tilnefningu aðila sem viðurkennds fulltrúa eða viðurkennds viðbótarfulltrúa:
  1. ef veittar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar,
  2. ef viðkomandi aðili er grunaður um eða hefur á síðustu fimm árum verið dæmdur fyrir misferli með losunarheimildir, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi sem reikningurinn gæti eða hefur verið notaður í, eða
  3. í samræmi við ákvæði annarra laga.

     Viðurkenndum fulltrúum og viðurkenndum viðbótarfulltrúum er óheimilt að afsala þeirri stöðu sinni til annarra aðila.
     Umhverfisstofnun er heimilt að fella niður stöðu aðila sem viðurkenndur fulltrúi eða viðurkenndur viðbótarfulltrúi ef stofnunin telur að hafna hefði átt tilnefningu viðkomandi aðila samkvæmt þessari grein, einkum ef ljóst verður að upplýsingar sem afhentar voru vegna tilnefningarinnar voru rangar eða ófullnægjandi.
     Kærufrestur vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 9. mgr. er 30 virkir dagar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð eins fljótt og hægt er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.
     
     d. (22. gr. c.)
Upplýsingagjöf reikningseigenda.
     Umhverfisstofnun er heimilt að krefja aðila sem getið er í 22. gr. a og 22. gr. b um allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi skráningarkerfisins. Heimilt er að krefjast þess að slíkar upplýsingar séu uppfærðar vegna breyttra aðstæðna og gildi þeirra staðfest af viðkomandi aðilum með reglulegu millibili.
     Ef Umhverfisstofnun telur upplýsingar sem eru afhentar skv. 1. mgr. ófullnægjandi eða leiða í ljós að reikningseigandi, viðurkenndur fulltrúi eða viðurkenndur viðbótarfulltrúi uppfylli ekki lengur kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru með stoð í lögum þessum er stofnuninni heimilt að hafna því að uppfæra viðkomandi upplýsingar.
     
     e. (22. gr. d.)
Lokun reiknings.
     Umhverfisstofnun lokar reikningi eftirtalinna aðila í skráningarkerfinu í eftirtöldum tilvikum:
  1. allra annarra aðila en þeirra sem getið er í b- og c-lið, komi fram ósk um það frá viðkomandi aðila,
  2. rekstraraðila, ef starfsstöð sem reikningnum tengist hættir starfsemi sem getið er í I. viðauka eða ef losunarleyfi vegna hennar fellur niður,
  3. flugrekanda, ef hann hættir starfsemi sem getið er í II. viðauka eða við samruna tveggja eða fleiri flugrekenda,
  4. vottunaraðila, ef hann hættir starfsemi eða ef faggilding hans eða viðurkenning skv. VII. kafla rennur út eða fellur niður.

     Áður en reikningi er lokað skal reikningseiganda gefinn frestur í 40 virka daga til að flytja losunarheimildir af reikningnum á annan reikning í skráningarkerfinu. Ef reikningseigandi nýtir ekki þessa heimild skulu losunarheimildirnar fluttar á vörslureikning íslenska ríkisins í skráningarkerfinu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að loka reikningi ef aðgangi að honum hefur verið lokað tímabundið í samræmi við 22. gr. e ef ekki er leyst úr þeim annmörkum sem urðu tilefni lokunarinnar innan hæfilegs tíma og þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Ef um er að ræða vörslureikning rekstraraðila eða flugrekanda er Umhverfisstofnun þó einungis heimilt að koma í veg fyrir hvers kyns hreyfingar losunarheimilda á reikningum, en ekki að loka þeim. Reikningur skal ekki opnaður eða hreyfingar leyfðar að nýju nema Umhverfisstofnun telji að þeir annmarkar sem urðu tilefni lokunar eða takmörkunar á hreyfingum séu ekki lengur fyrir hendi.
     Kærufrestur vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 3. mgr. er 30 virkir dagar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð eins fljótt og hægt er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.
     Umhverfisstofnun er heimilt að loka vörslureikningi eða viðskiptareikningi aðila sem getið er í c- og d-lið 2. mgr. 22. gr. a ef engin innstæða er á reikningnum og engin hreyfing hefur verið á honum í eitt ár eða meira. Í slíkum tilvikum ber Umhverfisstofnun að tilkynna reikningseiganda að reikningi hans verði lokað bregðist hann ekki við innan 40 virkra daga og gefa honum kost á að óska formlega eftir því að reikningnum verði haldið opnum.
     Umhverfisstofnun lokar vörslureikningi rekstraraðila ef stofnunin telur sýnt að losunarheimildir á honum verði ekki framvegis notaðar til að efna skyldu rekstraraðila skv. 1. mgr. 9. gr. Áður en reikningi er lokað skal reikningseiganda gefinn frestur í 40 virka daga til að flytja losunarheimildir af reikningnum á annan reikning í skráningarkerfinu. Ef reikningseigandi nýtir ekki þessa heimild skulu losunarheimildirnar fluttar á vörslureikning íslenska ríkisins í skráningarkerfinu.
     Umhverfisstofnun lokar tímabundið vörslureikningi rekstraraðila ef starfsstöð sú sem tengist reikningi hefur verið undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir í samræmi við 14. gr. Umhverfisstofnun opnar reikninginn sama dag og starfsstöðin telst heyra undir gildissvið viðskiptakerfisins að nýju.
     Umhverfisstofnun lokar tímabundið vörslureikningi flugrekanda ef ljóst er að starfsemi hans heyrir ekki lengur undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Umhverfisstofnun opnar reikninginn sama dag og stofnuninni berast upplýsingar um að flugrekandi hafi hafið starfsemi að nýju sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfisins.
     
     f. (22. gr. e.)
Takmörkun aðgangs að reikningi.
     Umhverfisstofnun er heimilt að loka tímabundið aðgangi viðurkennds fulltrúa eða viðurkennds viðbótarfulltrúa að hvaða reikningi eða ferlum í skráningarkerfinu sem er ef stofnunin hefur ástæðu til að ætla að viðkomandi viðurkenndur fulltrúi hafi:
  1. reynt að öðlast aðgang að reikningum eða ferlum án heimildar,
  2. ítrekað reynt að öðlast aðgang að reikningi eða ferlum með því að nota rangt notandanafn og lykilorð, eða
  3. reynt að stefna í hættu öryggi, aðgengi, heilleika eða trúverðugleika skráningarkerfisins, miðlægs eftirlitsaðila eða gagna sem tengjast skráningarkerfinu eða miðlægum eftirlitsaðila.

     Umhverfisstofnun er heimilt að loka tímabundið aðgangi allra viðurkenndra fulltrúa eða viðurkenndra viðbótarfulltrúa að tilteknum reikningi í skráningarkerfinu ef:
  1. reikningseigandi lést án þess að löglegur arftaki væri til staðar eða, í tilviki lögaðila, ef hann líður undir lok,
  2. reikningseigandi hefur ekki greitt tilskilin gjöld,
  3. reikningseigandi hefur brotið gegn skilmálum sem gilda um viðkomandi reikning,
  4. reikningseigandi samþykkir ekki breytingar á skilmálum sem gilda um viðkomandi reikning,
  5. reikningseigandi hefur vanrækt að afhenda Umhverfisstofnun tilskildar upplýsingar skv. 22. gr. c,
  6. reikningseigandi hefur ekki tilnefnt tilskilinn fjölda viðurkenndra fulltrúa skv. 1. mgr. 22. gr. b,
  7. reikningseigandi uppfyllir ekki kröfu 1. mgr. 22. gr. b um að að minnsta kosti einn viðurkenndur fulltrúi hafi fasta búsetu á Íslandi, eða
  8. reikningseigandi uppfyllir ekki kröfu c- eða d-liðar 2. mgr. 22. gr. a um fasta búsetu eða skráningu á Íslandi.

     Umhverfisstofnun er heimilt að loka tímabundið aðgangi allra viðurkenndra fulltrúa eða viðurkenndra viðbótarfulltrúa og koma í veg fyrir að þeir geti hafið ferli á tilteknum reikningi:
  1. í tvær vikur að hámarki ef stofnunin hefur ástæðu til að ætla að reikningurinn hafi verið notaður eða muni verða notaður í tengslum við svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi, eða
  2. á grundvelli ákvæða annarra laga.

     Umhverfisstofnun er heimilt að loka tímabundið aðgangi að reikningi ef stofnunin telur að hafna hefði átt umsókn um stofnun reikningsins eða að reikningseigandi uppfylli ekki lengur skilyrði fyrir stofnun reiknings.
     Umhverfisstofnun afléttir tímabundinni lokun aðgangs skv. 1.–4. mgr. um leið og leyst hefur verið úr þeim annmörkum sem urðu tilefni lokunarinnar.
     Ef aðgangi að reikningi hefur verið lokað tímabundið í samræmi við ákvæði þessarar greinar er Umhverfisstofnun heimilt að láta flytja allar losunarheimildir af reikningnum á reikning íslenska ríkisins í skráningarkerfinu.
     Kærufrestur vegna ákvarðana Umhverfisstofnunar skv. 1.–3. mgr. er 30 virkir dagar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð eins fljótt og hægt er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.
     Ákvarðanir miðlæga stjórnandans um tímabundna lokun aðgangs að skráningarkerfinu eða hluta þess, vegna gruns um að brotið hafi verið gegn öryggi kerfisins eða að veruleg hætta sé á að brotið verði gegn öryggi þess og að heilleika kerfisins sé þannig stefnt í hættu, skulu eftir því sem við á gilda um reikninga sem heyra undir lögsögu Íslands.
     
     g. (22. gr. f.)
Kyrrsetning losunarheimilda.
     Umhverfisstofnun getur, að eigin frumkvæði eða að beiðni íslenskra lögregluyfirvalda, kyrrsett losunarheimildir tímabundið á þeim reikningum skráningarkerfisins sem stofnunin hefur umsjón með:
  1. í tvær vikur að hámarki ef stofnunin hefur grun um að losunarheimildir hafi verið notaðar í tengslum við svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi, eða
  2. í samræmi við ákvæði annarra laga.

     Umhverfisstofnun skal án tafar gera lögregluyfirvöldum viðvart um kyrrsetningu losunarheimilda skv. 1. mgr. nema það sé augljóslega óþarft.
     Ákvarðanir miðlæga stjórnandans um tímabundna kyrrsetningu losunarheimilda, í tvær vikur að hámarki, vegna gruns um að losunarheimildir hafi verið notaðar í tengslum við svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi, skulu eftir því sem við á gilda um reikninga sem heyra undir lögsögu Íslands.
     
     h. (22. gr. g.)
Reglugerð um skráningarkerfi.
     Ráðherra setur reglugerð til fyllingar ákvæðum þessa kafla. Reglugerðinni skal ætlað að tryggja virkni og öryggi skráningarkerfisins og rétta skráningu losunarheimilda og skal m.a. hafa að geyma ákvæði um skilyrði fyrir stofnun reikninga í skráningarkerfinu, þ.m.t. hvaða upplýsingar skulu fylgja umsókn, skyldur reikningseigenda, tilnefningu og hlutverk viðurkenndra fulltrúa og viðurkenndra viðbótarfulltrúa, tímafresti varðandi stofnun reikninga, viðvarandi upplýsingagjöf notenda skráningarkerfisins, upplýsingar sem skráðar skulu í skráningarkerfið, samvinnu og samtengingu við önnur kerfi, tæknilegar kröfur varðandi rekstur og öryggi skráningarkerfisins og samvinnu stjórnvalda í tengslum við öryggismál og afbrot í tengslum við skráningarkerfið, auk reglna um hvernig farið skuli með útgáfu, handhöfn, skil, millifærslur og ógildingu losunarheimilda. Í reglugerðinni skal Umhverfisstofnun veitt heimild til að ákveða hámarksfjölda leyfilegra viðurkenndra fulltrúa og viðurkenndra viðbótarfulltrúa fyrir hverja gerð reiknings. Heimilt er að ákveða að aðgerðir í skráningarkerfinu séu háðar sjálfvirku samþykki rafrænna eftirlitskerfa sem eru starfrækt á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga ríkisins í þeim tilgangi að tryggja rétta skráningu losunarheimilda og öryggi skráningarkerfisins. Umhverfisstofnun skal veitt heimild til að krefja reikningseigendur um að samþykkja skilmála um notkun skráningarkerfisins að því tilskildu að slíkir skilmálar séu í samræmi við ákvæði reglugerðar samkvæmt þessari grein. Í reglugerðinni skulu vera nánari ákvæði um þagnarskyldu og afhendingu upplýsinga úr skráningarkerfinu til stjórnvalda og stofnana í þeim tilgangi að hafa eftirlit með aðgerðum reikningseigenda og aðgangshafa.

12. gr.

     Orðin „og hafi staðist jafningjamat sem framkvæmt er af Evrópustofnun um samvinnu á sviði faggildinga“ í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna falla brott.

13. gr.

     Á eftir orðunum „gagnkvæma viðurkenningu vottunaraðila“ í lokamálslið 26. gr. laganna kemur: þar á meðal um hvaðan faggilding skuli stafa.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
  1. Í stað ártalsins „2013“ í 1. málsl. kemur: 2012.
  2. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerðinni skulu m.a. koma fram reglur um tíðni uppboða, skilyrði þess að mega leggja fram tilboð og lágmarksfjölda losunarheimilda sem boðið skal í hverju sinni.


15. gr.

     Í stað orðanna „skv. 22. gr.“ í 36. gr. laganna kemur: skv. VI. kafla.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 38. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sbr. 22. gr.“ í 1. málsl. kemur: sbr. VI. kafla.
  2. Í stað orðanna: „skv. 7. mgr. 22. gr.“ í 2. málsl. kemur: skv. 22. gr. g.


17. gr.

     1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir eftirfarandi verkefni sem stofnunin innir af hendi:
  1. Útgáfu losunarleyfa, þar á meðal breytingar á losunarleyfum, sbr. 8. gr.
  2. Afgreiðslu umsókna nýrra þátttakenda í staðbundinni starfsemi um losunarheimildir, sbr. 3. mgr. 11. gr.
  3. Samþykkt verulegra breytinga á vöktunaráætlunum, sbr. 2. mgr. 13. gr.
  4. Yfirferð og umsýslu vegna skýrslna rekstraraðila um losun koldíoxíðs, sbr. 3. mgr. 13. gr.
  5. Áætlun á losun staðbundinnar starfsemi, sbr. 4. mgr. 13. gr.
  6. Afgreiðslu umsókna rekstraraðila um að starfsstöð verði undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, sbr. 6. mgr. 14. gr.
  7. Yfirferð skýrslna um að skilyrði fyrir því að undanskilja starfsstöð gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir séu fyrir hendi, sbr. 7. mgr. 14. gr.
  8. Afgreiðslu umsókna flugrekenda um losunarheimildir, sbr. 4. mgr. 18. gr.
  9. Afgreiðslu umsókna nýrra þátttakenda í flugstarfsemi um losunarheimildir, sbr. 7. mgr. 19. gr.
  10. Samþykkt vöktunaráætlana vegna tonnkílómetra í flugstarfsemi, sbr. 2. mgr. 21. gr.
  11. Samþykkt vöktunaráætlana vegna losunar frá flugstarfsemi, sbr. 3. mgr. 21. gr.
  12. Samþykkt verulegra breytinga á vöktunaráætlunum, sbr. 4. mgr. 21. gr.
  13. Yfirferð og umsýslu vegna skýrslna flugrekenda um losun koldíoxíðs, sbr. 5. mgr. 21. gr.
  14. Áætlun á losun flugstarfsemi, sbr. 6. mgr. 21. gr.
  15. Stofnun og viðhald reikninga í skráningarkerfi með losunarheimildir, sbr. VI. kafla. Heimilt er að innheimta árgjald sem tekur mið af meðaltalskostnaði við rekstur reiknings í skráningarkerfinu.
  16. Afgreiðslu umsókna um gagnkvæma viðurkenningu faggildingar, sbr. 25. gr.
  17. Önnur verkefni sem mælt er fyrir um í lögum þessum og reglugerðum settum með stoð í þeim.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 13. gr. um skyldu til að gera breytingar á vöktunaráætlun.
  2. Í stað tilvísunarinnar „6. mgr.“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: 7. mgr.
  3. Í stað orðanna „eftirlitsáætlun vegna vöktunar á losun“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: vöktunaráætlun vegna losunar.
  4. Á eftir 6. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 4. mgr. 21. gr. um skyldu til að gera breytingar á vöktunaráætlun.
  5. Í stað orðanna: „2. mgr. 22. gr.“ í 9. tölul. 1. mgr. kemur: 1. mgr. 22. gr. a.
  6. Á eftir 3. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Umhverfisstofnun ákveði það sérstaklega.


19. gr.

     Í stað orðanna „skv. 22. gr.“ í 41. gr. laganna kemur: skv. VI. kafla.

20. gr.

     Fyrirsögn 42. gr. laganna orðast svo: Stöðvun starfsemi.

21. gr.

     Í stað orðanna „skv. 13. og 21. gr.“ í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: skv. 13., 21. og 22. gr. a – 22. gr. c.

22. gr.

     Við 47. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1193/2011 frá 18. nóvember 2011.

23. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði XIII. kafla skal ekki beita þvingunarúrræðum gagnvart flugrekanda vegna ákvæða 17. gr. um skil losunarheimilda og 21. gr. um vöktun og skýrslugjöf, að því er varðar kröfur sem verða virkar fyrir 1. janúar 2014 og tengjast losun koldíoxíðs frá flugstarfsemi sem felur í sér flugtak eða lendingu á flugvöllum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og yfirráðasvæða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, að frátöldum Sviss og ríkjum sem undirritað hafa aðildarsáttmála við Evrópusambandið, ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
  1. flugrekandi skilar fyrir 30. apríl 2013 til Umhverfisstofnunar sama fjölda losunarheimilda og hann fékk úthlutað endurgjaldslaust árið 2012 vegna slíkrar flugstarfsemi,
  2. engum endurgjaldslausum losunarheimildum var úthlutað til flugrekanda árið 2012 vegna slíkrar flugstarfsemi.


24. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 2012.