Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 769, 141. löggjafarþing 92. mál: öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi, EES-reglur).
Lög nr. 159 28. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi).


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Markmið þessara laga er að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.
     Lög þessi gilda um greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi sem rekin eru hér á landi og tilkynnt hafa verið í samræmi við ákvæði 3. gr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Kerfi: Greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
    1. Þátttakendur eru þrír eða fleiri, að undanskildum kerfisstjóra þess kerfis, mögulegum uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð og óbeinum þátttakanda.
    2. Í gildi eru sameiginlegar reglur og staðlað fyrirkomulag við úrvinnslu og framkvæmd fyrirmæla, hvort sem er fyrir tilstilli milligönguaðila eða milli þátttakenda.
    3. Þátttakendur hafa komið sér saman um að íslensk lög skuli gilda um kerfið, enda hafi a.m.k. einn þátttakendanna aðalskrifstofu sína hér á landi.
    4. Kerfið fullnægir lagaskilyrðum og hefur verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sbr. 2. mgr. 3. gr.
  2. 2. tölul. orðast svo: Stofnun: Eftirtaldir aðilar sem taka þátt í kerfi og bera ábyrgð á framkvæmd fyrirmæla innan þess:
    1. Fjármálafyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    2. Seðlabanki Íslands, Íbúðalánasjóður eða stofnun með ríkisábyrgð.
    3. Fyrirtæki með höfuðstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins er annast sams konar starfsemi og fjármálafyrirtæki skv. a-lið.
  3. Í stað orðsins „greiðslukerfi“ í 3. tölul. og sama orðs hvarvetna í 3., 5., 7., 10. og 12. gr. kemur: kerfi.
  4. Í stað orðsins „greiðslufyrirmæla“ í 3. og 5. tölul. kemur: fyrirmæla; og í stað orðsins „greiðslufyrirmælum“ í 4. og 8. tölul. kemur: fyrirmælum.
  5. Í stað orðanna „innstæður og verðbréf“ í 6. tölul. kemur: innstæður eða fjármálagerninga.
  6. 7. tölul. orðast svo: Fyrirmæli:
    1. Sérhver fyrirmæli þátttakanda um að móttakanda sem þar er vísað til séu afhentir fjármunir með því að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning lánastofnunar, seðlabanka eða uppgjörsaðila, eða sérhver fyrirmæli sem skuldbinda hann eða leysa hann undan skyldu til að inna af hendi greiðslu eins og hún er nánar skilgreind í reglum kerfisins.
    2. Fyrirmæli þátttakanda um að framselja bein eða óbein eignarréttindi í fjármálagerningum með rafrænni eignarskráningu, eða önnur sambærileg fyrirmæli.
  7. 9. tölul. orðast svo: Þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð, uppgjörsaðili eða kerfisstjóri. Sami þátttakandi getur gegnt hlutverki milligönguaðila, uppgjörsaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar, öllum fyrrgreindum hlutverkum í einu eða hluta þeirra.
  8. 10. tölul. orðast svo: Óbeinn þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð, uppgjörsaðili eða kerfisstjóri með samningssamband við þátttakanda í kerfi sem gerir óbeinum þátttakanda kleift að senda fyrirmæli í gegnum kerfið, að því tilskildu að kerfisstjóri þekki til hans.
  9. Í stað orðsins „verðbréf“ í 11. tölul. kemur: fjármálagerningar, fjárhagsleg trygging samkvæmt lögum nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
  10. Við bætast fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Fjármálagerningur: Fjármálagerningar sem taldir eru upp í 2. tölul. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.
    2. Kerfisstjóri: Sú eining eða einingar sem bera lagalega ábyrgð á rekstri kerfis. Kerfisstjóri getur jafnframt verið milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð eða uppgjörsaðili.
    3. Rekstrarsamhæfð kerfi: Tvö eða fleiri kerfi þar sem kerfisstjórarnir hafa komið á fyrirkomulagi sín á milli sem felur í sér fullnustu fyrirmæla milli kerfa.
    4. Viðskiptadagur: Nær yfir uppgjör að nóttu jafnt sem degi og tekur til allra atburða innan viðskiptalotu kerfis.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „ákvæði þessara laga“ í 2. mgr. kemur: og um hlutaðeigandi kerfisstjóra.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Kerfisstjóra hvers kerfis er skylt að upplýsa Seðlabanka Íslands um það hvaða lög gilda um þátttakendur í kerfi hans, þ.m.t. óbeina þátttakendur, svo og um allar breytingar þar á.
         Að fenginni beiðni ber stofnun að upplýsa hvern þann sem lögmætra hagsmuna hefur að gæta um það í hvaða kerfum hún er þátttakandi og um helstu reglur um starfsemi kerfanna.


4. gr.

     Á eftir 3. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 3. gr. a og 3. gr. b, svohljóðandi:
     
     a. (3. gr. a.)
     Heimilt er að viðurkenna kerfi, sbr. 2. mgr. 3. gr., sem uppfylla skilyrði a- og b-liðar 1. tölul. 2. gr. og framkvæma fyrirmæli í verðbréfauppgjörskerfi og fyrirmæli sem tengjast öðrum fjármálagerningum, enda sé slík viðurkenning talin æskileg með tilliti til kerfisáhættu.
     Þrátt fyrir a-lið 1. tölul. 2. gr. er í sérstökum tilvikum heimilt að viðurkenna greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi þar sem þátttakendur eru tveir, að undanskildum mögulegum uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð og óbeinum þátttakanda, enda sé slík viðurkenning talin æskileg með tilliti til kerfisáhættu.
     
     b. (3. gr. b.)
     Heimilt er að líta á óbeinan þátttakanda sem þátttakanda ef það er æskilegt með tilliti til kerfisáhættu, en það takmarkar ekki ábyrgð þátttakanda sem gerir óbeinum þátttakanda kleift að senda fyrirmæli í gegnum kerfi.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „greiðslufyrirmæli“ í 1. og 3. mgr. kemur: fyrirmæli.
  2. Í stað orðsins „greiðslukerfisins“ í 1. mgr. kemur: kerfisins; og í stað orðsins „greiðslukerfum“ í 3. mgr. kemur: kerfum.
  3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta gildir með sama hætti um gjaldþrotaskiptameðferð þátttakanda, hvort heldur í hlutaðeigandi kerfi eða rekstrarsamhæfðu kerfi, og um gjaldþrotaskiptameðferð kerfisstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis sem ekki er þátttakandi.
  4. 2. mgr. orðast svo:
  5.      Fyrirmæli sem koma til kerfisins eftir að gjaldþrotaskiptameðferð hefst og framkvæmd eru innan viðskiptadagsins þegar gjaldþrotaskiptameðferð hefst eru aðeins bindandi gagnvart þriðja manni ef kerfisstjóri getur sannað að honum var ekki og mátti ekki vera kunnugt um að slík meðferð var hafin á þeirri stundu sem fyrirmælin urðu óafturkallanleg.
  6. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  7.      Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut skal hvert kerfi ákvarða í eigin reglum hvenær fyrirmæli teljast vera komin til þess kerfis, með þeim hætti að tryggt sé sem best samræmi meðal allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð. Reglur einstakra kerfa um það hvenær fyrirmæli teljast vera komin til þeirra gilda óháð reglum kerfanna sem þau eru rekstrarsamhæfð, nema skýrt sé kveðið á um annað í reglum allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð.
         Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut skal hvert kerfi ákvarða í eigin reglum hvenær fyrirmæli verða óafturkallanleg, með þeim hætti að tryggt sé sem best samræmi meðal allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð. Reglur einstakra kerfa um það hvenær fyrirmæli verða óafturkallanleg gilda óháð reglum kerfanna sem þau eru rekstrarsamhæfð, nema skýrt sé kveðið á um annað í reglum allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „geiðslufyrirmæla“ í 1. málsl. kemur: fyrirmæla.
  2. Í stað orðsins „verðbréf“ í 2. málsl. kemur: fjármálagerninga.


7. gr.

     1. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Gjaldþrotaskipti á búi þátttakanda, kerfisstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis sem ekki er þátttakandi, milligönguaðila gagnvart seðlabanka eða sérhvers þriðja aðila sem leggur fram veðtryggingu skulu á engan hátt skerða rétt annarra þátttakenda, seðlabanka eða kerfisstjóra til veðtrygginga.

8. gr.

     Í stað orðanna „verðbréfum sem eru rafrænt skráð“ í 9. gr. laganna kemur: fjármálagerningum sem eru rafrænt skráðir; og í stað orðsins „verðbréfanna“ í sömu grein kemur: fjármálagerninganna.

9. gr.

     2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     Með lögum þessum eru tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB. Tilskipun 98/26/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999 og tilskipun 2009/44/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010.

10. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 2012.